„Það hefur gengið vel á síðustu fjórum árum“

Bragi Bjarnason. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef fyrr í vetur lýst yfir áhuga mínum að halda áfram að vinna fyrir íbúa Árborgar en svo það sé formlegt þá hef ég tekið þá ákvörðun að gefa áfram kost á mér að leiða framboð Sjálfstæðisflokksins í Sveitarfélaginu Árborg vegna komandi bæjarstjórnarkosninga í vor,“ segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar og oddviti D-listans.

Fyrsta skrefið í þeirri vegferð er prófkjör flokksins sem fer fram 7. mars nk. og þar óskar Bragi eftir stuðningi í 1. sæti listans.

„Það hafa verið forréttindi og heiður að leiða lista Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjórn Árborgar síðastliðin fjögur ár. Kjörtímabilið sem nú er að líða hefur verið fullt af áskorunum en um leið mörgum sigrum fyrir samfélagið sem stendur að mínu mati sterkara í dag,“ segir Bragi og bætir við að hann vilji áfram vera sterk rödd Sveitarfélagsins Árborgar í samstarfi við önnur sveitarfélög og ríkisvaldið um verkefni og þjónustu á svæðinu.

„Má þar nefna heilsugæsluna, hjúkrunarheimili og samgöngur. Það er hagsmunamál sem snertir okkur öll að halda góðri þjónustu í nærsamfélaginu. Sem foreldri þriggja barna hef ég kynnst því öfluga starfi sem er í leik- og grunnskólum og frístundastarfinu í Árborg. Það er að mínu mati frábært að ala upp börn í Sveitarfélaginu Árborg og vil ég leggja allan minn metnað í að það verði áfram eftirsóknarvert að búa í sveitarfélaginu.“

„Ég sækist aftur eftir oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins þar sem ég tel að kraftar mínir nýtist til að leiða samstilltan hóp fólks til góðra verka fyrir samfélagið. Öflugt lið þar sem allir hafa rödd og stuðning til að ljúka verkefnum og ná settum markmiðum. Það hefur gengið vel á síðustu fjórum árum og mörg tækifæri til að gera enn betur á næstu árum,“ segir Bragi ennfremur í framboðstilkynningu sinni.

Bragi gefur kost á sér áfram

Fyrri greinHársbreidd frá heimasigri
Næsta greinSex fríar klukkustundir og biðlistarnir tæmdir í Hveragerði