„Hvatning til að halda áfram að skapa meira bíó“

Brúsi Ólason. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir skemmstu hlaut kvikmynd Brúsa Ólasonar frá Litlu-Sandvík, Dalía, verðlaun á kvikmyndahátíðinni Euregion í Hollandi.

Dalía fékk svokölluð special jury prize. Það var frábær sænsk mynd sem heitir Þú verður alltaf 20 sem var valin besta alþjóðlega myndin. En dómnefndinni fannst Dalía svo tilkomumikil að hún fékk sérstök verðlaun frá dómnefnd,“ segir Brúsi í samtali við sunnlenska.is.

Mjög ánægður með verðlaunin
„Ég var persónulega mjög lítið að fylgjast með þessu því það er búið að vera mikið að gera hjá mér á mörgum vígstöðvum undanfarið, svo ég bjóst ekki sérstaklega við þessu. En ég varð auðvitað mjög ánægður þegar þetta kom í ljós,“ segir Brúsi en þess má geta að Dalía var lokamyndin hans úr Columbia háskóla í New York þar sem hann lagði stund á leikstjórn og handritaskrif.

Brúsi segir að verðlaunin séu náttúrulega fyrst og fremst hvatning til þess að halda áfram. „Bæði að senda myndina á hátíðir og fyrir mig að halda áfram að eltast við að skapa meira bíó.“

Aðspurður segir Brúsi Dalíu ekki hafa unnið önnur verðlaun hingað til. „En hún var hluti af Future Frames sem vekur athygli á 10 bestu útskriftarverkefnum evrópskra kvikmyndanemenda árið 2020. Future Frames er yfirleitt hluti af Karlovy Vary hátíðinni í Tékklandi en henni var því miður aflýst sökum Covid.“

Mynd um feðgasamband og eitraða karlmennsku
„Myndin Dalía segir frá ungum strák sem þarf að eyða helginni í sveitinni með pabba sínum. Samband þeirra er stirt svo faðirinn gerir það eina sem hann man eftir að hafa gert með föður sínum, vinna. Þegar þarf að aflífa slasaða meri byrjar kalt viðmót föðurins að þiðna og samband þeirra batnar. Í raun má segja að við séum að skoða karlmennsku og hvernig harkan sem við tengjum oft við eitraða karlmennsku er örlítið tvíeggja. Það er ákveðinn styrkur fólgin í hörkunni en hún er þó mjög vandmeðfarin,“ segir Brúsi.

„Við tókum hana upp sumarið 2019 og svo tók við eftirvinnsla sem ílengdist aðeins útaf Covid en við kláruðum hana sumarið 2020. Hún komst inn á Future Frames hlutann af Karlovy Vary, en það fór eins og það fór, og svo náðum við að sýna hana á RIFF rétt áður en önnur bylgjan fór af stað hérna í haust. Hún hefur líka verið sýnd á hátíð í Sviss og á næstunni mun hún vera sýnd á hátíðum í Þýskalandi og Tyrklandi,“ segir Brúsi.

Þess má geta að Dalía er þriðja myndin sem Brúsi bæði leikstýrir og skrifar handritið að, annað hvort einn með með öðrum. Áður hefur hann gert myndirnar Sjáumst og Viktoría, sem hlutu einnig verðskuldaða athygli á kvikmyndahátíðum víða um heim.

Langar að kveðja New York almennilega
Þrátt fyrir heimsfaraldur hefur Brúsi í nægu að snúast. „Það er allskonar í pípunum sem er kannski ekki tímabært að ræða en maður er alltaf að reyna að stefna hærra og gera eins vel og maður getur. Þetta kemur allt í ljós með tíð og tíma en þangað til er nóg að gerast bak við tjöldin,“ segir Brúsi.

Brúsi segir að COVID-19 hafi heldur betur haft áhrif á hann eins sést hér að ofan. „En stærst er kannski að ég ætlaði mér að vinna í New York á svona tímabundnu atvinnuleyfi að loknu námi en kom heim þegar þetta fór allt af stað og núna er ég bara kominn á fullt hérna heima. Mig dreymir samt enn um að komast aftur út og fá að eyða smá tíma í borginni minni þó það væri ekki nema til að kveðja hana almennilega í bili.“

„Eins og alltaf langar mig að koma til skila ævarandi þakklæti til allra þeirra sem komu að myndinni á einn eða annan hátt. Kvikmyndagerð er hópíþrótt og ég gæti ekkert án liðsins míns,“ segir Brúsi að lokum.

„Sveitin togar í mann“

Fyrri greinFimm gefa kost á sér í 1. sætið hjá VG
Næsta greinÁrborg og Sleipnir gera þjónustusamning