Vellíðan

Einn napran febrúarmorgun var ég enn sem oftar á leið til vinnu. Það var kalt og dimmt og ég fann ekki fyrir hvatanum innra með mér til að takast á við daginn.

Mér finnst þægilegt að hlusta á Rás2 á morgnana, það þýðir eflaust að ég sé komin á ákveðin aldur en raddir Huldu og Sigmars eru notalegar. Niðurinn í röddum þeirra er oft í bakgrunninum á meðan ég hugsa um verkefni dagsins. En þennan febrúarmorgun greip Íris Róbertsdóttir athygli mína, hún er bæjarstjóri Vestmannaeyja og fyrrverandi grunnskólakennari. Hún talaði um fyrirhugaðar beytingar á skólastarfi í Grunnskóla Vestmannaeyja, sem snúa að líðan nemenda og læsi. Einnig ræddi hún hvernig þarfir nemenda, þá sérstaklega drengja hafa orðið undir í hinu daglega skólastarfi.

Þessi umræða er ekki ný og ég trúi því að við stefnum alltaf í rétta átt en oft tekur það svo helvíti langan tíma að komast þangað. En þá kem ég að innblæstri þessa pistils sem er vellíðan nemenda. Íris nefndi að það skipti svo miklu máli hvernig okkur líður í vinnunni, og skólinn er í raun vinna nemenda. Vellíðan er forsenda alls sem við gerum, ef okkur líður ekki vel þá erum við ekki að fara að ná þeim árangri sem við viljum. Við erum ekki að fara að vinna verkefni dagsins eins vel og við truflumst af vanlíðan okkar sem heftir okkur í því sem við ,,eigum” að vera að gera.

Ég tek innilega undir orð Írisar í þessu viðtali þegar hún segir að allir foreldrar, allir kennarar og allir nemendur vilji gera sitt besta og hún bætir við að nemendur eru ekki vandamálið né drengirnir, heldur er vandamálið umhverfið sem þeim er skapað í skólanum. Skólakerfið getur verið ansi heftandi en ef viljinn er fyrir hendi þá getum við breytt hlutunum og mætt betur þörfum nemenda og ýtt undir styrkleika þeirra þannig að þá hlakki til að mæta í skólann í stað þess að kvíða því.

Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla er hlutverk grunnskóla að skila heilsteyptum einstaklingum út í samfélagið og það er einstaklingur sem ber höfuðið hátt, hann er sjálfstæður, öruggur og hefur mikla trú á eigin getu, er meðvitaður um sína styrkleika og veit hvert hann stefnir.

Þegar ég mæti til vinnu alla morgna er mitt aðalmarkmið að nemendum mínum líði vel, og ég efast ekki um að það sé þannig hjá öllum kennurum, alla morgna. Ég hef séð það í mínu starfi að áhugi og vellíðan er lykillinn að árangri nemenda í öllu sem þeir gera. Ef við horfum á okkur sjálf í þessu samhengi þá gengur allt svo miklu betur ef okkur líður vel og ef við höfum áhuga á því sem við erum að gera!

Ég vil óska Vestmannaeyjum til hamingju með þetta frábæra verkefni og ég hlakka mikið til að kynna mér það betur.

Erna

Fyrri greinStóru málin í Suðurkjördæmi
Næsta greinFriðrik ráðinn verkefnastjóri Oddafélagsins