Mér leiðist tuð alveg óskaplega. Ég á mann og börn og heimili og þau eru oftast fórnarlömb mín þegar ég er í tuðgírnum.
Ég tuða yfir allskonar hlutum eins og umgengni, skjátíma, háttatíma og fleiru.
Ég er að upplagi jákvæð og glaðlynd manneskja en þegar ég tuða breytist ég í óhemju leiðinlega manneskju sem hefur ekkert fram að færa nema leiðinleg og ósanngjörn skilaboð sem engin nennir að hlusta á. Það skiptir heldur engu hvað ég tuða mikið eða hátt, það breytist ekkert því að tuð skilar engum árangri.
Ef ég tuða eru oft einhverjar undirliggjandi ástæður fyrir því, ég er þreytt og pirruð eða hef átt slæman dag. Á þeim stundum fer flestallt í taugarnar á mér og leiðinlega tuð Erna mætir á svæðið. Ég fer að alhæfa um hluti og röddin mín breytist í eitthvað ömurlegt kattarvæl:
„Getið þið ALDREI gengið frá eftir ykkur?!“
„Myndi það DREPA ykkur að setja glösin í uppþvottavélina?!“
„Þið eruð ALLTAF í símanum! Getið þið ALDREI lagt hann frá ykkur?!“
Þegar ég er í þessum ham gleymi ég alveg öllu því góða sem fjölskyldan mín gerir fyrir mig. Þeim eins og mér finnst ekki gaman að fá skyndilega einhverja nöldurgusu yfir sig sem inniheldur alltof mikið af alhæfingum og ósanngjörnum fullyrðingum.
Ef við erum ósátt með eitthvað er tuð ekki að fara að breyta því, við nærum aðeins gremjuna í okkur með tuði og neikvæðni og dreifum henni eins og veirusýkingu út í andrúmsloftið. Ef við viljum að eitthvað breytist, hvort sem það er heima hjá okkur eða annarsstaðar verðum við að ræða það á heiðarlegan og einlægan hátt við aðilann sem á í hlut, þegar við erum í góðu jafnvægi.
Vegna þess að þegar við erum í tuðgírnum og erum pirruð eða reið sljóvgast sá hluti heilans sem sér um vitrænar aðgerðir og dómgreind. Við breytumst í einhverjar risaeðlur sem hlusta ekki á nein rök og þeir sem hafa reynt að eiga heiðarlegt og einlægt samtal við risaeðlur vita að það er ekki hægt.
Eyðum orku okkar frekar í það að sjá jákvæðu hliðarnar á lífinu og fólkinu í kringum okkur.
Við erum öll mannleg, við gerum öll mistök en ég er viss um það að allir eru að reyna að gera sitt besta.
Minna tuð, meira stuð!
Erna