Trúin flytur fjöll

Trú er ótrúlega magnað hugtak, hún er mjög einstaklingsbundin og það er mismunandi hvaða merkingu trú hefur fyrir hvern og einn.

Ég ólst ekki upp á trúræknu heimili, að minnsta kosti ekki í tengslum við Guð og kristna trú og má því segja að ég sé frekar trúlaus að því leyti. En það þýðir ekki að ég trúi ekki á neitt og vaði um í villu alla daga.

Ég trúi á hið góða, ég trúi á kærleikann, ég trúi á vonina og ég trúi á sjálfa mig.

Það getur oft verið erfitt að hafa mikla og stöðuga trú á sjálfum sér því að trú er brothætt og viðkvæm það þarf oft svo lítið til þess að fá mann til að efast.

Ég efast oft, en ég reyni að bæla niður efasemdakonuna í mér eins og ég get því að hún nær oft að hefta mig og aftra mér frá því að gera og hugsa það sem ég veit og trúi innst inni að er rétt. Ég nefnilega trúi því að með góðri trú á sjálfan sig geti maður gert ótrúlega margt. Með góðri trú fær maður þor, þor til að gera hluti sem manni dreymir um, þor til að tjá hugsanir sínar, þor til að standa með sjálfum sér og sínum gildum.

Með góðri trú á sjálfan sig fylgja svo fast á eftir sjálfsöryggi og sjálfsvirðing og ef maður er búin þessum þrem þáttum þá er maður mjög vel settur.

Maður getur ímyndað sér ofurhetju sem sem býr yfir þessum þremur ofurkröftum og ekkert getur stöðvað hana.

Að sjálfsögðu er mikil vinna falin í því að öðlast þessa ofurkrafta og þeir eru ekki eitthvað sem maður öðlast á einum degi. Einnig er misjafnt hversu öflugir ofurkraftarnir eru. Mikilvægast er að vita að við búum öll yfir þessum ofurkröftum, það er misjafnt hversu einfalt það er fyrir okkur að finna þá en þeir eru þarna. Maður verður bara að trúa því.

Trúin flytur fjöll.

Trú, von og kærleikur,
Erna

Fyrri grein„Ákváðum að stökkva út í djúpu laugina“
Næsta greinÞórsarar töpuðu stórt á Króknum