Skítugur ofn

Erna Jóhannesdóttir.

Deginum í dag eyddi ég í afskaplega sorglega og leiðinlega iðju. Ég eyddi deginum í að þrífa ofninn minn.

Á meðan ég var að hamast við að þrífa ofninn sem innihélt mögulega slettur úr lasagna rétti sem ég eldaði á köldum fimmtudegi í október 2017 hugsaði ég með mér „hvurn djöfulinn er ég að eyða tíma mínum og orku í að þrífa einhvern helvítis ofn!?! Hvar er ég stödd í lífinu þegar þetta er það helsta sem ég hef fyrir stafni! Ég á vinafólk sem eyðir dögum sínum í húsbíl í Evrópu og lifir í hvatvísi og eltir góða veðrið og lætur innsæi og langanir ráða för og ég er hérna að þrífa ofn! Hvað er í gangi?? Er þetta bara staðan hjá mér í dag? Þegar ég var ung dreymdi mig um alla frábæru og spennandi hlutina sem ég ætlaði að gera og sjá þegar ég væri orðin fullorðin og sjálfstæð! Raunveruleikinn minn í dag eru samanbrotnar tuskur, skítug gólf og skítugur ofn.“

En þá hugsaði ég með mér að það er margt í lífinu sem ég hef umfram vinafólk mitt og margt sem þau hafa umfram mig! Það er svo margt sem ég og þau geta verið þakklát fyrir. Tilviljanir, röð atburða og ákvarðana ráða því hvar við erum stödd í lífinu og á hvaða hillu við erum. Málið er bara hvernig við vinnum úr spilunum sem okkur hafa verið gefin. Þessar hugleiðingar leiddu mig að því að kannski væru margir sem væru jafnvel mikið til í að geta þrifið skítugan ofn yfir höfuð en vegna aðstæðna geta það ekki. Margir sem væru þakklátir fyrir að geta gert jafnleiðinlegan hlut og væru virkilega sáttir og glaðir með verkið.

Það er misjafnlega gefið í þessu lífi og það er allt undir okkur komið hvernig við leggjum út spilin okkar. Hvaða viðhorf við höfum til þess sem við tökum okkur fyrir hendur hverju sinni og hvort við ætlum að tuða og væla yfir skítugum ofni eða verið þakklát fyrir að hafa orku og heilsu til að takast á við gömlu matarsletturnar með gleði í hjarta!

Mitt hlutverk í dag er að sinna heimilsstörfum, börnum og allskonar hversdagslegu veseni og ævintýrin bíða mín við hvert horn… kannski þarf bara að taka eftir þeim og líta stundum öðruvísi á hlutina.

Ég ætla að vera þakklát fyrir allt það góða sem ég hef á minni hillu í lífinu og helvítis skítuga ofninn minn.

Ást og friður, Erna

Fyrri greinVaxandi líkur á hlaupi í Múlakvísl
Næsta grein„Mikilvægt að vera í þessari starfsemi“