Skíttíðig 2020 

Árið 2020 átti að vera árið mitt, árið átti að veita mér jafnvægi, gleði og birtu. Það sem 2020 hefur veitt okkur eru óveður, ófærð, dauðsföll og heimsfaraldur, og það er bara 7. apríl. Stundum fæ ég þá tilfinningu að mannkynið hafi ekki verið að haga sér vel og heimurinn er að senda okkur inn í herbergi og segja okkur að skammast okkar! Að við þurfum að hugsa okkar gang og velta því vel fyrir okkur hvað við höfum gert!  

Í þessu ástandi hefur maður fundið fyrir því að fólk er að líta inn á við, sýna samstöðu og hugsa í lausnum. Þessi reynsla reynir á alla okkar þolinmæði, æðruleysi og yfirvegun. Við lærum heilmikið á okkur sjálf og aðstæðurnar krefjast þess að við lærum nýja hluti, finnum leiðir til að vinna öðruvísi og ímyndunarafl okkar og sköpun fær að njóta sín þar sem við þurfum að finna afþreyingu fyrir börnin okkar og okkur sjálf alla daga.  

Sumir dagar eru erfiðari en aðrir og þó að ég sé einfari að eðlisfari þá er þetta nú of mikið af því góða, meira að segja á mínum mælikvarða. Samtölin sem ég hef átt við sjálfa mig og húsgögnin á heimilinu eru að verða aðeins of skrítin og ég komst að því að mögulega hef ég haft þær ranghugmyndir allt mitt líf að ég væri skemmtileg. Dagskammtar af kolvetnum hafa farið langt yfir velsæmismörk og skjátími barnanna hefur oft verið meiri en góðu hófi gegnir. Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Lego kubbana en sú aðdáun hefur dalað undanfarið eftir að hafa stigið á og gengið frá sömu kubbunum oft á dag því að sonur minn hefur einstaklega gaman af því að sturta úr kössunum og hlaupa hlæjandi í burtu. Veðrið er heldur ekki að vinna með okkur og gulur, appelsínugulur og rauður eru formlega orðnir ljótustu litirnir í litrófinu.  

Þetta gæti samt verið verra, íslenska þjóðin má ennþá fara út úr húsi og skyttunum þrem ásamt starfsfólki í heilbrigðisgeiranum hefur tekist með elju sinni og dugnaði að taka vel á málunum. Það á svo sannarlega þakkir og aðdáun okkar skilið. Stundum þarf Víðir að skamma okkur aðeins og minna okkur á að fara eftir fyrirmælum en það er bara jákvætt. Við þurfum að vinna þetta saman og ef einhver var að hugsa um að fá sér tígrisdýr, þá er þetta ekki rétti tíminn.  

Það sem af er ári 2020 má samt hoppa þangað sem sólin sést ei og vonandi eru bjartari tímar framundan! Njótið þess að ferðast innanhús um páskana og vonandi er ekki of mikill valkvíði á heimilinu um hvort að fjölskyldan eiga að eyða fríinu í stofunni, á ganginum eða inni í herbergi. 

Erna

Fyrri greinHandboltavertíðinni aflýst – Engir Íslandsmeistarar krýndir
Næsta greinGjafir streyma til HSU