Nýtt ár, ný markmið…

Á hverju ári, eftir allsnægtir jólanna kemur janúar. Þá kemur andinn yfir mig og ég set mér markmið fyrir árið.

Ég ætla að hætta hinu og þessu (sem ég stend aldrei við), ég ætla að gera hitt og þetta og vera svona og hinsegin (stundum stenst það og stundum ekki). Svo í febrúar/mars (fer eftir því hvað ég held lengi út) refsa ég sjálfri mér fyrir að vera agalaus aumingi sem geti aldrei staðið við neitt.

Í ár ákvað ég að hafa þetta einfalt, í ár ætla ég að vera góð. Ég ætla að vera góð við sjálfa mig og aðra.

Það er nefnilega mjög einfalt, að það sem við gefum frá okkur fáum við til baka. Við berum ábyrgð á öllum okkar hugsunum og orðum. Ég ætla að gera mitt besta svo að mínar hugsanir og orð verði jákvæð og uppbyggjandi, bæði gagnvart mér og öðrum. Við ein berum ábyrgð á okkar hamingju í lífinu. Því miður getur enginn annar græjað hana fyrir okkur. Ef hugsanir okkar og orð eru neikvæð eru meiri líkur á því að útkoman verði neikvæð. Alveg eins með jákvæðar hugsanir og orð gagnvart okkur sjálfum og öðrum.

Jákvæðar hugsanir gefa líka af sér jákvætt viðmót, meira sjálfsöryggi, betra viðhorf, jákvæðari upplifanir og betri samskipti við aðra.

Hjá flestum okkar, að mér meðtalinni, þarf ákveðna viðhorfsbreytingu til að já-væða hugsanir okkar því að öll okkar reynsla og upplifanir hafa mikil áhrif á það hvernig við hugsum og tölum. Ég veit að ég mun ekki alltaf standast þetta markmið. En það er allt í lagi, það eitt að vera meðvitaður um hugsanir sínar og orð er byrjunin. Í öllum aðstæðum og samskiptum höfum við val, val um hvernig við tökumst á við aðstæðurnar og hvaða lærdóm við ætlum að draga úr aðstæðunum. Val um hvort aðstæðurnar verði jákvæð eða neikvæð upplifun.

Byrjum árið 2017 með jákvæðunum og uppbyggjandi hugsunum. Hrósum okkur og öðrum í stað þess að rífa okkur niður. Við erum svo sannarlega þess virði því við erum frábær!

Gleðilegt nýtt ár!

Erna Jóhannesdóttir

Fyrri greinGóður útisigur Hamars – FSu tapaði
Næsta greinSveitarstjórn vill rökstuðning fyrir lágu fasteignamati á vindmyllum