Litla stóra Ísland

Jæja, þá er enn eitt Eurovision ævintýrið búið. Svala var ótrúlega flott, örugg, einlæg, jákvæð og með óbilandi trú á sjálfri sér. Það finnst mér aðdáunarvert.

Ég held að það sé nokkuð einkennandi fyrir okkur Íslendinga að við höfum mikla trú á okkur sjálfum og við viljum sýna okkur og sanna fyrir öllum hinum.

Við erum lítil og fá en við viljum sýna öllum að það skiptir ekki máli því að þrátt fyrir smæð er allt mögulegt. Við höfum kjark og þor og við getum mætt hinum stóru þjóðum á jafnréttisgrundvelli. Við erum lítil en með órúlega stórt hjarta sem er fullt af hugrekki og dirfsku.

Við flokkumst sem smáþjóð og meðal okkar eru meðal annars: Barbados, Vanuatu, Samoa, Guam, Aruba, Grenada og Tonga.

Ég held að ég geti sagt með nokkurri vissu að engin af þessum þjóðum hefur komist t.d. á stórmót í fótbolta eins og við og engin þeirra hefur tekið þátt í Eurovision.

Okkur leiðist ekkert eins lítið og að tala um árangur okkar á alþjóðavettvangi, í hvaða samhengi sem er. Við höfum örugglega öll sagt fólki á erlendum vettvangi í óspurðum fréttum að við höfum fengið ólympíusilfur í handbolta, lent tvisvar í öðru sæti í Eurovision og bæði átt hraustustu og fallegustu konu í heimi oftar en einu sinni.

Eða tekið víkingaklappið í ölæði á torgi í evrópskri borg um miðjan dag og státað okkur um leið af öllum frægu listamönnunum okkar „Yes! Sigurros and Bjork come from Iceland! Do you know Jokull in Kaleo? Yes! He comes from Mosfellsbaer, the same town I grew up in!“

Við erum stolt, við erum óhrædd, við erum hugrökk, við erum dugleg, við höfum einhvern baráttuanda sem einkennir okkur sem þjóð.

Kannski er hægt að rekja baráttuandann til þess forna tíma þegar Evrópa var búin að eyða hundruðum ára í að byggja hallir, kastala og borgir en við húktum enn eins og lúðar í torfkofum og löptum dauðann úr skel. Börðumst fyrir lífi okkar við náttúruöfga, einangrun og veðurfar sem mestu illmenni væru stoltir af. Um aldamótin 1800 ákváðum við svo að rífa okkur upp á rassgatinu og byrja að sameina sveitir landsins í einn bæ og við höfðum náð byggingarstíl nútímaþjóða 200 árum seinna. Við eigum reyndar ekki hallir og kastala en Bessastaðir og Perlan komast ansi nálægt því.

Þessi baráttuandi og oft og tíðum mikilmennskubrjálæði hefur reyndar komið okkur í alþjóðlegan bobba einu sinni en ef við vorum stödd í útlöndum þá sögðum við bara í smá stund að við værum frá Finnlandi og þá fattaði það enginn.

„Þetta reddast!“

Baráttuandinn er þess valdandi að við látum ekkert stoppa okkur, við höldum ótrauð, stolt og æðrulaus áfram að gera okkar besta og náum góðum árangri. Þessi baráttuandi, dugnaður, æðruleysi og hugrekki hefur komið okkur langt og hann mun koma okkur í úrslit Eurovision fyrr en seinna.

Erna

Fyrri grein„Það fóru allir glaðir af sviðinu“
Næsta greinÆgir fékk Víking R. heima