Lífið er lægð…

…sem við hötum bæði tvö, dag eftir dag.
Þú og ég í vondu veðri göngum tvö sama veg.

Kannski hugmynd að næsta áramótaskaupslagi fyrir árið 2020 ef einhver vill taka að sér að endurgera textann við lag sem hljómsveitin Model flutti svo ógleymanlega. En að sjálfsögðu ætla ég að tala um helvítis lægðirnar sem dynja hér á okkur dag eftir dag, stundum tvisvar á dag.

„Appelsínugul viðvörun, stormur mun geysa frá og með kl. 22 á þriðjudagskvöldi og fram að hádegi á miðvikudag. Lægja mun umtalsvert um kl. 13 á miðvikudeginum en um kl. 13:30 mun vindur aukast aftur með norð- austan stórhríð, stormi og manndrápshálku.

Þann storm mun ekki lægja fyrr en á fimmtudag í næstu viku! Í næstu viku mun Broddi Broddason sjá um fréttatímann þar sem umsjónarmaður þessa fréttatíma ætlar að skreppa til Bahamas.“

Einhvern vegin svona hafa veðurfréttir hljómað undanfarið. Það hefur verið hressandi að keppast við tímann um að komast heim á undan storminum og gaman hefði verið að setja upp einhverskonar keppni fyrir fjölskylduna þar sem sá vinnur sem er tæpastur að sleppa heill heim áður en veðrið skellur á.

Þetta hefur þó alls ekki verið alslæmt því að margar fjölskyldur hafa neyðst til að eyða meiri tíma saman heima sem kallar á meiri samveru sem er alltaf jákvæð. Rafmagnsleysi verður til þess að fólk þarf að leggja frá sér tækin og tala saman, eitthvað sem er gott að rifja upp reglulega. Það eru einnig nokkur atriði sem við getum huggað okkur við þegar við vælum yfir veðrinu, landið okkar er ekki að brenna til kaldra kola, hér geysar ekki veirusýking og forsetinn okkar er með eðlilegan húðlit og heitir Guðni en er ekki appelsínugulur og heitir Donald.

PS.
Þó að ég grínist með veðrið í þessum pistli mínum þá má aldrei vanmeta íslenskt veðurfar eins og dæmin hafa sýnt og alltaf er betra að vera skynsamur þegar kemur að færð og veðri á Íslandi.

Ég man þá daga er ein ég var,
oft við gluggann minn sat ég einmana.
Ég þráði rok og rigningu,
ákaft leitaði en aldrei fann.
Svo birtist þú og líf mitt fékk tilgang að nýju,
Og lægðin braust inn um gluggan minn.
Þú fyllir mig nýrri von.

Erna

Fyrri greinHamar tapaði heima
Næsta greinÞrír Selfyssingar kepptu í Skotlandi