Lægð

„Lægð“ er nýja uppáhalds orðið mitt. Þennan veturinn hefur íslenska þjóðin fengið yfir sig lægð eftir lægð eftir lægð eftir lægð. Það hefur verið dásamlegt.

Það telst til frétta ef heiðar eru opnar og túristar komast leiðar sinnar án teljandi vandræða, þvílíkt partý.

Mér finnst að Íslendingar ættu að fá verðlaun á sumardaginn fyrsta ár hvert. Verðlaun fyrir að hafa þraukað rokið og rigninguna, stinningskaldann, skafrenninginn, slydduna, krapið, slabbið, snjóstorminn, kafaldsbylinn, hríðarbylinn, hvassviðrið og öll þau 150 orð sem íslenska tungan á yfir veðurfar.

Ég veit að íslenska þjóðin á margt að þakka fyrir, við erum ekki stríðsþjáð þjóð, við erum ekki með appelsínugulan hálfvita sem forseta sem leggur til að kennarar vopnist til að verjast árásum í stað þess að herða byssulöggjöf, heldur vinalegan gæja með buff. Við erum þjóð sem erum framarlega þegar kemur að jafnræði kynja og kynþátta. Við erum friðsæl og viljum bara vera næs.

Þrátt fyrir það hlutum við þau örlög að fæðast og byggja okkar bú á norðurhjara veraldar sem þýðir að veðrið spilar stórt hlutverk í okkar lífi. Við erum ofsalega háð veðri og veðurfari og getum alltaf reddað okkur út úr vandræðalegum samtölum með því að byrja að tala um veðrið.

Ég er oftast ofsalega þakklát fyrir að hafa fæðst á eyju norður í rassgati, þar sem við ölum afreksfólk á færibandi hvort sem það er tónlistar- eða íþróttafólk. Við erum nægjusöm, kaldhæðin, jákvæð og hörku,hörkudugleg. Við sættum okkur við veðurfarið og segjum „jæja, svona er þetta bara“.

Ég er ótrúlega stoltur Íslendingur en djöfull getur þetta veður verið ógeðslega pirrandi.

Með von um yndislegt sumar og verðlaun í formi utanlandsferðar til heitari landa á sumardaginn fyrsta.

Kósíheit og kertaljós í rokinu,
Erna

Fyrri greinÆ fleiri bæjarbúar að uppgötva golfvöllinn
Næsta grein„Hvað með það“ tilnefnt sem lag ársins