Klausturfokk

Erna Jóhannesdóttir.

Vá, hvað þessi vika hefur verið lærdómsrík. Í síðasta pistli talaði ég um hvað samskipti eru mér hugleikin.

Þau eru það ennþá… þegar 4 einstaklingar koma saman og fá sér vel í glas á bar úti í bæ getur ýmislegt komið upp á yfirborðið. Ég tengi alveg við það, ég hef verið full og sagt ýmislegt misgáfulegt, en heppin ég að það var ekki tekið upp og lekið í fjölmiðla en margir hafa örugglega hneykslast á bullinu í mér, sem ég skil mjög vel.

Ég hef sterka siðferðis- og réttlætiskennd og dæmi sjálfa mig mest af öllum í því samhengi og ef ég hefði verið í stöðu Klaustursgengisins hefði ég skrifað mjög langt afsökunarbréf, farið að gráta, legið í kvíðakasti í fósturstellingunni, grafið svo  mjög djúpa holu, hoppað ofan í hana og beðið alla vel að lifa.

Mér finnst ótrúlega merkilegt að fólk sem er kosið af almenningi og þjóðin telur sig trú um að muni gera sitt besta til að þjóna þeim, leggist svo lágt að tala niðrandi um annað fólk á slíkan hátt og sjái ekki sóma sinn í því að leiða hugann að öðrum starfsvettvangi vegna skorts á trausti í þeirra garð.

Ég get ekki sagt að ég sé saklaus, ég hef sagt ljóta hluti um annað fólk og séð eftir því. Ég hef dæmt aðra sem ég veit að eiga það ekki skilið, ég hef baktalað, pirrað mig á og sagt ljóta hluti um fólk sem eiga það ekkert skilið af því að ég átti erfitt með að sjá hlutina frá öðru sjónarhorni en mínu eigin.

Ég er ekkert betri en aðrir, en ég hef reynt að temja mér það að reyna að bera virðingu fyrir öllum sjónarhornum og hversu ólík við getum verið. Guð hjálpi okkur ef við værum öll eins og ég.

Ég tel að mikilvægasti lærdómurinn sem við getum dregið af þessu klausturfokki er að líta í eigin barm og  skoða hvernig við tölum um og komum fram við annað fólk. Því hvort sem við erum sammála eða ósammála viðhorfum annarra eða skoðunum er það alltaf á okkar ábyrgð hvernig við bregðumst við ólíkum viðhorfum annarra.

Ætlum við að bera virðingu fyrir sjónarmiðum annarra og gefa okkur tíma til að hugsa um hvernig ólíkir persónuleikar geta sameinað krafta sína til að gera góða hlutin enn betri eða ætlum við að leggjast svo lágt að kalla fólk „fokking tryllt og húrrandi klikkaðar kuntur“.

Valið er alltaf okkar og ég ætla að draga þann lærdóm af þessari umfjöllun að bera alltaf virðingu fyrir öðrum og koma fram við fólk af kærleik og hlýju.

Ást og friður,
Erna

Fyrri greinHamar stóðst áhlaup Selfoss
Næsta greinÁkvörðun FF breytir engu um áherslur Karls Gauta sem þingmaður