Hugarfar og dugnaður!

Ellefu íslenskir karlmenn – einn Lionel Messi. Ellefu íslenskir karlmenn sem voru ekki hræddir við að mæta einum besta knattspyrnumanni sögunnar og mönnum hans.

Tíu íslenskir karlmenn sem vörðust gegn bestu knattspyrnuþjóð sögunnar og einn Hannes Þór Halldórsson sem starði óhræddur í augun á Messi og stakk sér í rétt horn, hann var búinn að vinna heimavinnuna.

Það var svo geggjað að fylgjast með þessum drengjum, 11 íslenskir karlmenn sameinaðir með eitt sameiginlegt markmið! En hvað gerir það að verkum að lítil þjóð norður í rassgati nær svona góðum árangri í íþrottum? Við erum með fót- og handboltalið hjá báðum kynjum á hverju stórmótinu á fætur öðru. Ég hef oft pælt í þessu og örugglega margir aðrir, hvernig förum við að þessu?

Mín kenning er sú að þegar fólk nam hér land hljóta það að hafa verið einstaklingar sem voru pínulítið klikkaðir. Hverjum dettur í hug að ætla að búa á eyju lengst norður í Atlantshafi, eyju sem býr yfir svo miklum veðurfarslegum og náttúrulegum öfgum að það er pínu klikk að ætla að setjast hér að. Sérstaklega ef þú ert landnámsmaður árið áttahundruðogeitthvað, ég get ímyndað mér samtalið á milli þeirra:

Ingólfur Arnarson: „Jæja drengir, hér ætlum við að búa! Drífið ykkur í að moka holu og raða nokkrum steinum í kring og grasi á toppinn! Náið svo í kindurnar á bátinn!“

Drengirnir: „Ætlum við að búa hér?! En það er svo kalt hérna, og dimmt, það er ekkert hérna! Getum við ekki frekar farið til Spánar? Þar er hlýtt!“

Ingólfur: „Spánar! HÚH! (fyrsta húið heyrist á Íslandi) Spánn er fyrir aumingja! Þetta land er fyrir alvöru fólk sem þarf að leggja mikið á sig til að lifa af! Nú þurfum við að vera duglegir og ég hef heyrt að sumrin séu góð hérna á svona fjögurra ára fresti!“

Drengir: „Jæja þá! Reynum að gera gott úr þessu strákar! Kannski verður þetta bara fínt! Það er að minnsta kosti fallegt hérna!“

Ingólfur: „Þetta verður geggjað!“

Sem betur fer voru þessir einstaklingar nógu klikkaðir til að nema hér land. En djöfull hefur fólkið örugglega þurft að hafa mikið fyrir því að lifa af hérna og þá komum við að kjarna málsins!

Hugarfari Íslendinga og dugnaði!

Við höfum alltaf þurft að vera dugleg, við höfum alltaf þurft að hafa mikið fyrir hlutunum. Berjast við allskonar veður og náttúruhamfarir sem flestum myndi nú þykja nóg um en alltaf erum við með sama æðruleysið yfir okkur. Eldgos í miðri byggð, eldgos og aska sem leggur niður flugsamgöngur í allri Evrópu, jarðskjálftar og fleiri jarðskjálftar og nokkur eldgos í viðbót…

Alltaf kemur sama æðrulausa svarið: „jájá, svona er þetta bara…“

Við viljum alltaf standa okkur vel, við viljum sýna öðrum hvað við getum, við höfum komist svona langt vegna hugarfars okkar og dugnaðs og það hefur að ég tel borist kynslóð fram að kynslóð og er hluti af menningu okkar, eðli og persónuleika.

Við erum óhrædd, við erum metnaðarfull, við erum dugleg og búum yfir hugarfari með dass af klikkun sem hefur skilað okkur árangri á mörgum sviðum. Við erum stolt af uppruna okkar og menningu og nýtum okkur það til að berjast, ná lengra, mæta ofjörlum okkar og koma öllum á óvart! Það er góð tilfinning!

Þó að veðurguðirnir hafi ekki fengið áminningu um að það sé sumar á Íslandi þá hafa allir í íslenska landsliðshópnum fært okkur sumar, gleði og stolt í hjörtu okkar allra!

Áfram veginn! Áfram Ísland!

Erna

Fyrri greinJapanskur meistari heimsækir Eyrarbakka
Næsta greinÁlfheimar fengu Grænfánann í áttunda sinn