Hr. Prump forseti…

Donald Trump er nafn sem við höfum heyrt nefnt ansi oft undanfarið. Eiginlega of oft og alltaf í tengslum við eitthvað neikvætt og á mörkum vitrænnar hugsunar.

Hver er þessi maður? Hvaðan kemur hann? Af hverju er hann svona?

Eins og flestir Bandaríkjamenn er hann komin af innflytjendum. Mamma hans fæddist í Skotlandi og pabbi hans er frá Þýskalandi en fæddur í New York. Árið 1971 þegar Donald var 25 ára tekur hann við fasteignafyrirtæki fjölskyldunnar og gerir það að stórveldi. Árið 1983 klárast framkvæmdir á hinum fræga Trump turni á miðri Manhattan. Eignir hans í gegnum tíðina hafa meðal annars verið spilavíti, fegurðarsamkeppnir (þar sem hann niðurlægði keppendur) og golfvellir.

Nú er ég ekki sálfræðingur en ég ímynda mér að Trump sé maður sem er búin að hafa það alltof gott, alltof lengi. Hann hefur verið umkringdur meðvirku já-fólki sem snýst í kringum hann og reynir að uppfylla þarfir hans. Hann er mögulega frekur, eigingjarn og hefur verið einangraður í turninum sínum of lengi og aðeins séð heiminn úr öruggri fjarlægð. Þar hefur hann setið í gullsvítunni sinni, í silkisloppnum með greyið meðvirku konunni sinni og fjarlægst raunveruleikann. Ég sé fyrir mér samtal þeirra yfir morgunkaffinu:

D: Er ég nokkuð appelsínugulur í framan?
M: Nei Donni minn, þú ert svo fínn.
D: En hárið? Er það nokkuð asnalegt?
M: Nei Donni minn, þú ert svo fínn.
D: Ég vissi það!

Svo labbar hann út eins og skemmd appelsína með eitthvað á hausnum sem líkist feldi af dauðum ketti.

Hans raunveruleiki byggir á viðskiptum, já og nei, svart og hvítt, annaðhvort, eða. Líklega hefur hann sett sínar þarfir ofar þörfum annarra alla sína tíð og hann virðist ekki hafa getu til þess að setja sig í spor annarra eða sýna samúð eða auðmýkt. Hann hefur fjarlægst það sem gerir okkur mannleg.

Það hefur hentað honum í viðskiptum og hann hefur komist langt á því að svíkja, ljúga og niðurlægja. Ef einhver er ósammála honum þá bara kærir hann þá eða rekur þá og kemst upp með það sbr. dómsmálaráðherra BNA. Hjá honum er þetta bara svona einfalt. Svart og hvítt, já eða nei, allir eða enginn, við á móti ykkur. Hann ætlar greinilega að halda þessum vinnubrögðum áfram sem forseti Bandaríkjanna þar sem hann hefur umkringt sig fólki sem speglar skoðanir hans og fordæmt margar milljónir manna sem hryðjuverkamenn og brjálæðinga. Maður sem tekur svona ákvarðanir og getur réttlætt þær fyrir sjálfum sér er samkvæmt vefnum sidblinda.com þjakaður af ógnandi sjálfsdýrkun (e. agressive narcisissm). Einkenni hennar eru eftirfarandi:

1. Tungulipurð / yfirborðskenndir persónutöfrar
2. Stórmennskuhugmyndir um eigið ágæti
3. Lygalaupur
4. Slóttugur, falskur, drottnunargjarn
5. Skortir á eftirsjá eða sektarkennd
6. Yfirborðskennt tilfinningalíf
7. Kaldlyndur / skortir samhygð
8. Ábyrgðarlaus um eigin hegðun (kennir öðrum um)

Ég get ekki betur séð en að allir þessir þættir eigi að einhverju leyti við um hr. Trump. Hann er eins og alkóhólistinn á heimilinu sem allir eru hræddir við en hjálpa honum þó að viðhalda sjúkdóm sínum og valdafíkn. Ég held að Hr. Trump þyrfti að færa sig úr öryggi turnsins og kynna sér ólíka menningarheima. Hann myndi komast að því að flest erum við gott og duglegt fólk.

Erna

Fyrri greinVMS sameinast VR 1. febrúar
Næsta greinLionsklúbburinn gaf flóttafjölskyldunni barnabílstóla