Discalculia

Discalculia er talnablinda, skyld lesblindu nema í stað þess að vera blindur á bókstafi er manneskjan blind á tölur.

Helstu einkenni talnablindu eru:

  • Erfiðleikar með að læra muninn á hægri og vinstri
  • Erfiðleikar með áttir (manneskjan er áttavillt)
  • Lengi að læra á klukku og slakt tímaskyn
  • Erfitt með að læra margföldunartöfluna og reikniaðgerðir
  • Slakur skilningur á fjármálum
  • Slök stærðfræðigeta

Nú er ég ekki með formlega greiningu en ég get með sanni sagt að allir þessir þættir eiga við mig. Ég er með stærðfræðiþekkingu á við barn í 4. bekk og þegar ég tók að mér umsjónarkennslu í 7. bekk og var tilkynnt að ég ætti að kenna stærðfræði var það verkefni mér algjörlega ofviða. Ég var örugglega fermd þegar ég lærði almennilega á skífuúr og enn þann dag í dag kann ég ekki margföldunartöfluna.

Þegar ég tók bílprófið var ég með bókstafina H og V skrifaða á hendur mínar því ég vissi ekki muninn á hægri og vinstri. Þegar fólk spyr mig til vegar og ég þarf að segja þeim hvort þeir eigi að beygja til hægri eða vinstri á næstu gatnamótum tek ég alltaf ,,luft“ handaband við ímyndaðan vin minn sem ég kýs að kalla Hall hægrimann því hann getur alltaf hjálpað mér að þekkja muninn. Fólk hefur oft hlegið að því þegar hendin fer á loft og ég tek hressilega í hendina á manneskju sem er ekki til staðar. Tengt þessu þá er ég mjög áttavillt og ef fólk bendir mér á að fjall eða á sé sunnan eða norðan megin við eitthvað hljómar það eins og dulkóðun í mínum eyrum og ég botna ekki í einu eða neinu og snýst bara í hringi á staðnum.

Launaseðlar eru fyrirbæri sem ég get með engu móti skilið. Á launaseðlum eru orð og tölur sem ég skil ekki og maðurinn minn hefur oft þurft að setjast niður með mér og útskýra fyrir mér hugtök á launaseðlinum eins og ég sé nýbúi sem var að fá fyrstu útborgunina sína í nýju landi (sem betur fer er maðurinn minn flinkur í þessum málum).

Þegar ég fer til sýslumannsins notar fólkið sem vinnur þar oft erfið orð og flókin hugtök og ég hef beðið þjónustufulltrúa þar að nota einföld orð og útskýra fyrir mér líkt og ég væri barn á leikskóla. Þjónustufulltrúinn tók vel í það og ég gekk út einhverju nær um eitthvað sem ég man ekki hvað var og hefði ekki getað með nokkru móti útskýrt fyrir neinum öðrum.

Þegar ég var lítil breytti þetta mig engu, ég var bara léleg í stærðfræði og það háði mér ekki en þegar maður er orðin 35 ára, rekur heimili og er í vinnu þá flækjast málin aðeins og þetta getur oft verið vandræðalegt. Á kaffistofunni þegar samstarfsfélagar mínir byrja að tala um launakjör og eingreiðslur dett ég alveg út en brosi og kinka kurteisislega kolli og reyni að segja já á réttum stöðum svo fólk fatti ekki að þau gætu alveg eins verið að tala hebresku því ég skil ekki orð sem þau segja.

Þetta þýðir samt ekki að ég sé illa gefin eða heimsk. Ég tel mig vera frekar vel gefna nema þegar kemur að tölum. Þegar þessi vankantur minn truflar mig (sem er alveg oft, því mér finnst eins og ég eigi að kunna þetta) reyni ég frekar að einbeita mér að því sem ég er góð í og hugsa með mér að við getum ekki verið góð í öllu.

Erna

Fyrri greinMarkalaust á Hornafirði
Næsta greinNýkjörnir bæjarfulltrúar lesa ritningarlestra