Blessuð aðventan…

Í dag er fyrsti dagur aðventunnar. Ég birti þennan pistil fyrir ári síðan á öðrum miðli en mér finnst hann eiga jafnvel við í ár og í fyrra.

Á aðventunni eigum við að njóta, njóta í rólegheitum með kakóbolla, piparköku, teppi, kertaljós og góða bók. Feit snjókorn falla hægt niður í logninu fyrir utan gluggann, húsið er tandurhreint og fallega skreytt og falleg jólatónlist ómar. Börnin sitja hjá ykkur falleg og rjóð og lita mynd eða lesa sögu. Sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur?

Í raunveruleikanum hjá venjulegri fjölskyldu er kannski séns að þessi stund náist í janúar. Aðventan er líklega annasamasti og mest taugatrekkjandi tími ársins. Það er víst ekki nóg að undirbúa jólin því að allir skólar, kórar, tónlistarskólar og íþróttafélög landsins þurfa að hafa mót, tónleika, búningaæfingar, pakkaleiki og sýningar í desember. Ekki má gleyma jólasveinunum 13 sem koma einnig í desember. Samfélagsmiðlar hrauna yfir okkur myndum af fullkomnum aðventukrönsum og brosandi börnum með ilmandi bakkelsi. Ofan á þetta allt leggjast svo vinahittingar, vinnuhittingar, jólahlaðborð, jólakortin, jólagjafir, baksturinn, þrífa og skreyta heimilið. Er ég að gleyma einhverju? Já! Alveg rétt, svo eru báðir foreldrar oftast í 100% vinnu. Já og eitt enn… það er myrkur allan sólahringinn. Eru ekki allir í jólafílíng?

Ekki misskilja mig, aðventan er yndislegur tími en ég vil minna alla á að þið eruð ekki ein í jólastressinu. Út um allt er fólk sem er jafn stressað og illa sofið og þið. Finnið stuðning hjá vinum og fjölskyldu og sameinist um að hjálpast að og létta undir með hvert öðru. Aðventan snýst einmitt líka um það, að hugsa um náungann og gefa af sér og með sér. Við megum ekki setja allt of miklar kröfur á okkur og það er allt í lagi þó að það sé drasl heima hjá okkur og við séum ekki búin að baka 17 kökusortir. Það er líka allt í lagi að þið séuð ekki búin að finna fullkomin jóladress á börnin.

Það er ekkert fullkomið í þessum heimi… ekki einu sinni aðventan og jólin. Reynum að hafa gaman af þessu líka, slökum á og horfa á björtu hliðarnar. Njótum samveru með fjölskyldu okkar og vinum í góðu tómi. Það skapar mun fallegri og betri minningar en hreint eldhús og óaðfinnanlegt baðherbergi.

Ég vona að þið eigið yndislega aðventu og reynið eins og þið getið að slaka á í desember og hafa það notalegt með þeim sem eru ykkur kærastir.

Guð blessi netverslanir og tilbúið kökudeig.

Erna

Fyrri greinUppreisn vann stórsigur í kosningunum
Næsta greinGunnar ráðinn verkefnastjóri