KIA Gullhringurinn, stærsta og skemmtilegasta hjólreiðamót landsins, hefur flutt sig í Árborg og verður haldið laugardaginn 10. júlí. Keppnin hefst kl. 18:00 og stendur fram eftir kvöldi.

Hverju má ég eiga von á ef ég bý á Selfossi?
Ræst er á Eyravegi milli Hótel Selfoss og nýja miðbæjarins. Truflanir verða því á umferð við Ölfusárbrú og á Austurvegi rétt á meðan ræsingu stendur.

Ræst verður í eftirtöldum hópum:
18:00 Æringjar
Keppnisflokkur 12 til 16 ára.

18:10 Votmúlahringurinn
Fjölskylduhringur þar sem allir hjóla saman.

18:30 Gaulverjar
Keppnisflokkur hugsaður fyrir nýja keppendur í sportinu.

18:45 Flóaáveitan
Hér er lög áhersla á „njóta en ekki þjóta“.

19:05 Villingar og Flóabardaginn
Keppnisflokkar fyrir öfluga keppendur.

Eftir ræsingu munu keppendur hjóla eftir Austurvegi að hringtorgi við Gaulverjabæjarveg, í fylgd lögreglu. Eftir hringtorgið byrjar hin eiginlega keppni. Nokkrir hópar fara niður Gaulverjabæjarveg í átt að Stokkseyri meðan hóparnir sem byrja kl. 19:05 fara eftir þjóðvegi 1 að Villingaholtsvegi og hjóla þar niður í átt að Stokkseyri.

Allir keppendur hjóla síðan inn á Selfoss eftir Eyrarbakkavegi, inn á Eyraveg og inn í nýjan miðbæ. Á meðan keppendur hjóla inn á Selfoss má búast við lokunum og töfum á umferð við Eyraveg. Þessar tafir verða á tímanum 18:30 til 22:00.

Hvar geta Selfossbúar fylgst með og hvatt keppendur áfram?
Íbúar á Selfossi og nágrenni geta komið saman á Brúartorginu sem er í hjarta nýja miðbæjarins. Þar munu Daddi Disco og Herra Hnetusmjör halda uppi fjörinu og BMX Brothers leika listir sínar. Eins verður þar 15 fermetra risaskjár þar sem keppnin verður í beinni útsendingu, en hún verður jafnframt í beinni útsendingu á mbl.is. Að keppninni lokinni verður verðlaunaafhending á Brúartorginu og eftirpartý verður í salnum í Tryggvaskála með tónlistarfólki og plötusnúðum.

Hverju má ég eiga von á ef ég bý á Stokkseyri?
Truflanir verða á umferð um Stokkseyri á meðan keppendur hjóla í gegnum þorpið. Það sama gildir um vegi til og frá Stokkseyri. Tafir og lokanir verða á tímabilinu 19:00 til 22:00 og umferð stýrt til að tryggja öryggi keppenda og annarra vegfarenda.

Hvar geta Stokkseyringar fylgst með og hvatt keppendur áfram?
Grillpartý og hvatningarstöð verður við Barnaskólann á Stokkseyri þar sem DJ Dagur Snær og Þórir Geir Guðmundsson halda uppi fjörinu. Áhorfendum er boðið upp á drykki frá Coca-Cola, Snickers og grillaðar pylsur frá SS og Holta kjúklingi. Hvatningar bjöllur og fánar og læti! Gleðin mun standa yfir frá ca. 19:00 til 21:00. ALLIR VELKOMNIR!

Hverju má ég eiga von á ef ég bý á Eyrarbakka?
Truflanir verða á umferð um Eyrabakka meðan keppendur hjóla í gegnum þorpið. Það sama gildir um Eyrarbakkaveg. Tafir og lokanir verða á tímabilinu 19:00 til 22:00 og umferð stýrt til að tryggja öryggi keppenda og annarra vegfarenda.

Hvar geta Eyrbekkingar fylgst með og hvatt keppendur áfram?
Byggðasafn Árnesinga, Leikfélag Selfoss og Fornbílaklúbburinn ætla að bregða á leik við Byggðasafnið og setja upp Aldamóta hvatningarstöð að hætti Eyrbekkinga. Allir þátttakendur verða myndaðir þegar þeir hjóla í gegn um „aldamótahliðið“ og Kvenfélag Eyrarbakka og mótsstjórn munu bjóða áhorfendum upp á aldamótakaffi: pönnukökur, flatkökur og kakó. Gleðin mun standa yfir frá ca. 19:00 til 21:00. ALLIR VELKOMNIR!

Hverju má ég eiga von á ef ég bý í gamla Sandvíkurhrepp?
Keppendur hjóla um Gaulverjabæjarveg frá Selfossi í átt að Stokkseyri á tímanum 18:00 til 21:00. Keppendur munu hjóla um Villingaholtsveg frá þjóðvegi 1 í átt að Stokkseyri á tímabilinu 19:00 til 20:00. Keppendum verður fylgt með vel merktum bílum og búast má við lokunum og töfum á umferð á þessum tíma.

Hverju má ég eiga von á ef ég bý í Flóahreppi?
Íbúar í Flóahreppi geta tekið þátt í keppninni um skemmtilegustu Brúsapallagleðina! Íbúar eru hvattir til að útbúa skemmtilegar hvatningarstöðvar með hverskonar skreytingum, hvatningarhljóðum og gleði við keppnisbrautirnar. Hægt er að sjá myndir í færslum á Facebook síðu keppninnar til að fá innblástur fyrir Brúsapallahvatningarstöðvar. Sveitabæir eða sumarbústaðir geta skráð sig til leiks á info@vikingamot.is og fá í framhaldi senda pakka í partýið frá mótstjórninni á föstudagskvöldið. Upplagt er að nágrannar eða vinir taki sig saman um að útbúa hvatningarstöð. Samgönguráðherra mun ekki aðeins taka þátt í hjólakeppninni heldur verður hann formaður fimm manna dómnefndar sem mun úrskurða um BESTU brúsapallagleðina! Frjáls aðferð verður í þessari keppni en leiðarvísir dómara verður leikgleði og jákvæðni byggð á gestrisni og góðum siðum Flóamanna. Í fyrstu verðlaun verður gasgrill að verðmæti 150.000 kr. frá BYKO. Önnur verðlaun verða ferðagasgrill að verðmæti 70.000 kr. frá BYKO og í þriðju verðlaun verður inneign að verðmæti 40.000 kr. í BYKO.

Meðlimir ýmissa félagasamtaka munu standa vaktina á þeim stöðum þar sem stýra þarf umferð og loka vegum. Þetta er liður í fjáröflun þessara samtaka og biðjum við um að þeim verði sýnd virðing og tillitssemi. Vinnum þetta saman.

Hægt verður að horfa á keppnina og framgang hennar á heimasíðunni og á mbl.is.

Fyrri greinSelfoss tapaði toppslagnum
Næsta greinÞrír sunnlenskir þjálfarar á Ólympíuleikunum