Þórsarar fundu ekki taktinn í upphafi

Jordan Semple. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Einvígi Þórs og Njarðvíkur í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta hófst í kvöld í Njarðvík og er óhætt að segja að heimamenn hafi mætt betur stemmdir til leiks.

Þórsurum gekk illa að finna taktinn í sókninni í upphafi leiks en Njarðvík komst í 16-4 og staðan eftir 1. leikhluta var 26-19. Njarðvík bætti við forskotið í 2. leikhluta og heimamenn skoruðu svo tíu fyrstu stigin í seinni hálfleik og þá var staðan orðin 61-36.

Þá kom góður kafli hjá Þórsurum sem náðu að minnka muninn í tíu stig, 67-57 og þannig stóðu leikar þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Þór náði ekki að nálgast Njarðvík frekar í 4. leikhluta, heimamenn kæfðu öll áhlaup gestanna og sigruðu að lokum örugglega, 87-73.

Nigel Pruitt var stigahæstur Þórsara með 16 stig, Jose Medina skoraði 13, Jordan Semple skoraði 11 stig og tók 11 fráköst og Fotios Lampropoulos skoraði 11 stig og tók 8 fráköst.

Liðin mætast næst í Þorlákshöfn á sunnudagskvöld en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki fer í undanúrslit Íslandsmótsins.

Fyrri greinElínborg – meðmæli með biskupsefni
Næsta greinÞrír þjónustusamningar undirritaðir