Sunnlensku liðin töpuðu öll

Úr leik hjá Hamri í sumar. Bjarki Rúnar Jónínuson með boltann. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar, Árborg og Stokkseyri töpuðu öll leikjum sínum í 4. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi.

Hamar sótti KÁ heim á Ásvelli í hörku markaleik. KÁ komst yfir strax á 4. mínútu en Bjarki Rúnar Jónínuson skoraði tvívegis um miðjan fyrri hálfleikinn og kom Hamri í 1-2. KÁ menn svöruðu fyrir sig á 43. mínútu og staðan var 2-2 í hálfleik. Heimamenn gerðu svo út um leikinn með tveimur mörkum á fyrstu fimm mínútum seinni hálfleiks. Það var hart barist í kjölfarið og Sam Malson minnkaði muninn á 79. mínútu en nær komust Hvergerðingar ekki þrátt fyrir góðar tilraunir.

Þrátt fyrir tapið er Hamar í toppsæti C-riðilsins með 31 stig en KÁ er í 2. sæti með 28 stig.

Árborgarar misstu endanlega af sæti í úrslitakeppni 4. deildarinnar í kvöld þegar þeir töpuðu 2-1 gegn KH að Hlíðarenda. KH fer því í úrslitakeppnina úr D-riðlinum ásamt Kríu. KH komst í 2-0 í leiknum en Magnús Hilmar Viktorsson minnkaði muninn fyrir Árborg í uppbótartíma.

Árborg er í 3. sæti D-riðilsins með 23 stig en KH í 2. sæti með 28 stig.

Stokkseyringar lentu í kjafti Bjarnarins á heimavelli í kvöld. Þeir voru illa bitnir strax í fyrri hálfleik en staðan var 0-4 í leikhléi. Björninn bætti fimmta markinu við á 60. mínútu en Arilíus Óskarsson minnkaði muninn í 1-5 fjórum mínútum síðar og þær urðu lokatölur leiksins.

Stokkseyri er í 5. sæti B-riðils með 14 stig. Björninn er í 4. sæti með jafn mörg stig en betra markahlutfall.

Fyrri greinSjöundi bekkur Vallaskóla allur í sóttkví
Næsta greinSmit hjá starfsmanni Sundhallar Selfoss