Kryddjurtir í eldhúsgluggann

Einfalt er að rækta kryddjurtir í eldhúsglugganum. Góð mold í fat, fræ og vatn er grunnurinn að góðri uppskeru.

Tilvalið er að hefja ræktun nú í enda vetrar og hægt er að flytja plönturnar út þegar hætta á frosti er liðin hjá. Passa þarf að fræin fái nægt vatn til að spíra, gott er að leggja yfir dagblöð eða plasthjálm til að viðhalda raka og hitastigi.

Eftir að rætur myndast má taka einangrunina af og gefa auka næringu eða flytja plönturnar í næringarríkari mold. Fræ kryddjurta taka um eina til þrjár vikur að spíra, oftast eru góðar upplýsingar um ræktunarskilyrði á fræpökkum sem keyptir eru. Forræktun tekur þó um einn til tvo mánuði.

Kryddjurtir þarf að vökva meira en hefðbundnar plöntur því þær eru fljótar að visna, gullni meðalvegurinn er bestur og mikilvægt að halda moldinni rakri en ekki blautri. Gaman og fallegt er að merkja hvaða fræ eru sett niður og fylgjast vel með uppskerunni.

Kryddjurtir má svo nota beint úr glugganum í eldamennskuna, þurrka, frysta eða setja í olíu.

Fyrri greinÆtlaði að verða hárgreiðslufræðingur
Næsta greinÚR VÖR ýtt úr vör