Kröfu um ógildingu íbúakosninganna hafnað

Nýr miðbær á Selfossi. Mynd/Batteríið

Nefnd sem Sýslumaðurinn á Suðurlandi skipaði, til þess að úrskurða um kæru vegna íbúakosningarinnar um miðbæ Selfoss, hafnaði kröfum kærenda um ógildingu kosninganna.

Íbúakosning um skipulagsmál í miðbæ Selfoss var haldin þann 18. ágúst síðastliðinn en fimm dögum síðar lögðu Magnús Karel Hannesson og Aldís Sigfúsdóttir fram kæru til sýslumanns þann vegna ýmissa formgalla og annmarka á undirbúningi og framkvæmd kosninganna.

Meðal annars gerðu þau athugasemd við rangar upplýsingar í kynningarbæklingi, orðalag í auglýsingu um framlagningu kjörskrár og framlengdan opnunartíma á kjörstöðum um 65 mínútur.

Kjörnefnd sýslumanns komst að þeirri niðurstöðu að tveir annmarkar hafi verið á undirbúningi kosninganna en hvorugur þeirra hafi talist geta haft áhrif á niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar, annars vegar um orðalag í auglýsingu um framlagningu kjörskrár og hins vegar um rangar upplýsingar í kynningarbæklingi.

Kröfu þeirra Aldísar og Magnúsar Karels um ógildingu atkvæðagreiðslunnar var því hafnað.

Kjörnefndina skipuðu Kristín Benediktsdóttir, Þóra Hallgrímsdóttir og Ari Karlsson.

Niðurstaða nefndarinnar var tekin fyrir á fundi bæjarráðs Árborgar í gær og fagnaði bæjarráð úrskurðinum.

Fyrri greinTekjur hafnarinnar af ferjuflutningum langt umfram væntingar
Næsta greinMjölnir bauð lægst í Laugarvatnsveg