Auðvelt að rækta grænmeti og kryddjurtir í glugganum

Á vefnum umhverfisssudurland.is má finna upplýsingar um það hvernig best sé að hefja ræktun á grænmeti og kryddjurtum í eldhúsglugganum.

Í vikulegum fréttamola frá Umhverfis Suðurland segir að fátt sé betra fyrir kroppinn en að borða vel af grænum jurtum, grænmeti og salati. Og enn betra fyrir budduna ef ekki þarf að kaupa slíkt ferskmeti vikulega. Með hækkandi sól í mars er upplagt að byrja að huga að ræktun matjurta fyrir sumarið.

Það er auðveldara en maður heldur að ræka sitt eigið grænmeti, sérstaklega kryddjurtir og salat líkt og spínat og klettasalat. Það sem þarf til er einhverskonar bakki (og hér er t.d. frábært að endurnýta eggjabakka, hálfa mjólkur- fernu eða annað sem fellur til og heldur vatni); góða gróður og sáð mold (sem er sitthvor tegundin); fræ þeirra jurta sem þú ætlar að rækta; bjartan og sólríkan stað og nóg af vatni.

Það að geta verið sjálfbær um sitt grænmeti og kryddjurtir hefur mikið umhverfislegt gildi og stuðlar að sjálfbærni heimila og samfélaga. Umhverfis Suðurland hvetur Sunnlendinga til þess að taka þátt í að fylla alla sunnlenska eldhúsglugga af grænu gúmmelaði.

Fyrri greinViðar Örn lánaður til Hammarby
Næsta greinSelfoss bauð upp á spennu í seinni hálfleik