Eyrbekkingurinn Sigurbjörg Guðmundsdóttir var í liði Verzlunarskóla Íslands sem sigraði í Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna á dögunum. Verzlunarskólinn mætti Kvennaskólanum í úrslitaviðureign, sem varð ekki mjög spennandi því Versló vann stórsigur, 31-17. Þetta var síðasta keppni Sigurbjargar, sem mun brautskrást frá Versló í vor.

Fullt nafn: Sigurbjörg Guðmundsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 21. ágúst 2002 á Landspítalanum við Hringbraut.
Fjölskylduhagir: Foreldrar mínir heita Guðmundur Magnússon og María Erla Bjarnadóttir. Ég á eina eldri systur sem heitir Guðrún Telma Þorkelsdóttir.
Menntun: Ég er á mínu þriðja og síðasta ári á alþjóðabraut Verzlunarskóla Íslands.
Atvinna: Þið finnið mig á pósthúsinu á Selfossi í sumar.
Besta bók sem þú hefur lesið: Mér þóttu bækurnar um Fíusól alltaf mjög skemmtilegar þegar ég var yngri og hef ekki enn lesið neitt sem toppar þær.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Castle er í miklu uppáhaldi en annars stendur línulega dagskráin á RÚV alltaf fyrir sínu.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Þeir sem þekkja mig vel vita að ég horfi ekki mikið á bíómyndir en ég get horft á Home Alone aftur og aftur.
Te eða kaffi: Hvorugt.
Uppáhalds árstími: Sumarið.
Besta líkamsræktin: Fótbolti.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég er nú ekki mikill kokkur en get útbúið ágætis pastarétt. Hef reyndar bara eldað hann þrisvar.
Við hvað ertu hrædd: Að gera mistök.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Það er mjög mismunandi en oftast fyrr en seinna.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég hef almennt ekki mikinn tíma til þess en mér finnst gott að leggjast upp í rúm og horfa á einn eða tvo þætti.
Hvað finnst þér vanmetið: Bændablaðið.
En ofmetið: Moominbollar.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Mambo No. 5.
Besta lyktin: Ætli það sé ekki bara bökunarlykt.
Bað eða sturta: Sturta. Ég held að ég hafi ekki farið í bað síðan 2007.
Leiðinlegasta húsverkið: Mér leiðast öll húsverk en verst af öllu finnst mér að þurrka af.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Úff, þessi er erfið. Það eru svo margir fallegir staðir hérna á Íslandi að ég get ekki valið. Annars kann ég alltaf vel við gamla góða Eyrarbakka.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þágufallssýki.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Mér dettur ekkert annað í hug en eitt skipti þegar ég var að skipta um föt inni í klefa fyrir fótboltaleik. Ég hélt sem sagt að þjálfarinn væri farinn fram þannig ég fór bara úr buxunum eins og ekkert væri og klæddi mig í stuttbuxur en fattaði svo þegar þjálfarinn opnaði hurðina og gekk út að hann hafði verið inni í klefanum allan tímann.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði alltaf að verða kennari til að mega tússa á töfluna.
Fyndnasta manneskja sem þú veist um: Maddý frænka.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég væri til í að prófa að vera Angela Merkel í einn dag og finna hvernig það er að vera valdamesta kona heims. Svo væri ég reyndar líka til í að prófa að vera Guðni Ágústsson. Það er engin þörf á að útskýra það eitthvað nánar.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram og Snapchat.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi stöðva stríð og veita öllum í heiminum fæði og húsaskjól. Síðan myndi ég leysa loftslagsvandann og klára ritgerðina sem ég á að vera að skrifa svo ég gæti slakað á í páskafríinu.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er þrefaldur Unglingalandsmótsmeistari í stafsetningu og er með mjög sveigjanlegt nef.
Mesta afrek í lífinu: Ætli það sé ekki að vinna Gettu betur, enn sem komið er.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi ferðast aftur í tímann og hitta foreldra mína þegar þau voru að alast upp.
Lífsmottó: Þú uppskerð eins og þú sáir.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Skrifa lokaritgerð sem ég á að vera löngu byrjuð á.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinÞórsarar héraðsmeistarar í skák
Næsta greinSindri Freyr íþróttamaður Rangárþings ytra 2020