Rakel Theodórsdóttir var á dögunum ráðin byggðaþróunarfulltrúi fyrir sveitarfélögin fjögur í Uppsveitum Árnessýslu; Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshrepp, Hrunamannahrepp og Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Byggðaþróunarfulltrúi veitir meðal annars ráðgjöf og handleiðslu á sviði atvinnu- og byggðaþróunar, vinnur að upplýsingaöflun, miðlun upplýsinga og svæðisbundnum verkefnum á sviði byggðaþróunar.

Fullt nafn: Rakel Theodórsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég fæddist á sjúkrahúsinu á Selfossi þan 30. janúar 1982.
Fjölskylduhagir: Ég er gift Guðjóni Geir Einarssyni og saman eigum við tvo drengi þá Berg Pál 12 ára og Þorleif Mána 10 ára.
Hverra manna ertu: Ég er bara svona „made in sveitin“. Fædd og uppalin í Efsta-Dal 1b í Uppsveitum Árnessýslu með fjósalykt í hárinu.
Menntun: BSc í Ferðamálafræði með viðskiptafræði sem aukagrein með áherslu á stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands.
Atvinna: Byggðaþróunarfulltrúi Uppsveita Árnessýslu.
Besta bók sem þú hefur lesið: Hugrekki eftir Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands. Staðfestir það að við erum öll mannleg sama í hvaða stöðu við erum og getum öll fundið fyrir kvíða.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Good Trouble.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Stellu í orlofi, get stundum haldið uppi samræðum við fjölskyldumeðlimina með frösum úr myndinni.
Te eða kaffi: Kaffi er ofmetnasti drykkur að mínu mati. Hef aldrei náð að renna honum niður. En te sleppur.
Uppáhalds árstími: Vorið, þegar allt lifnar við.
Besta líkamsræktin: Gönguferðir utandyra.
Hvaða rétt ertu best að elda: Sko, ef ég spyr drengina mína þá finnst þeim yngsta heimagerða pizzan best, eldri drengnum finnst tælenski kjúklingarétturinn með chili og bambus og maðurinn minn segir kjúklingurinn í heimagerða rabbarbarachutneyinu.
Við hvað ertu hrædd: Jökulsprungur.
Klukkan hvað ferðu á fætur: 7:00.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer í rólegan göngutúr eða syndi.
Hvað finnst þér vanmetið: Kyrrðin.
En ofmetið: Kaffi.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Don’t Stop Believin’ með Journey.
Besta lyktin: Lyktin af birkinu þegar það er að vakna á vorin.
Bað eða sturta: Heitur pottur.
Leiðinlegasta húsverkið: Skúra.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Það er enginn að fara að deyja þó þú náir ekki að klára öll verkefnin í dag.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þeir eru nokkrir. Til dæmis upptök Brúarár og Gjáin í Þjórsárdal sem og The Great Barrier Reef í Ástralíu.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Fólk sem ákveður að fara í fýlu frekar en að ræða málin til að finna lausnir.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar vopnaðir verðir stoppuðu mig að skokka niður þakið á þinghúsinu í Ástralíu!
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Búðarkona.
Fyndnasta manneskja sem þú veist um: Lára frænka, er með mest smitandi hlátur sem hægt er að hafa.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Bara ég sjálf en væri samt til í að geta borðað endalaust af súkkulaði án þess að fá í magann.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá mundi ég dreifa kærleik og gleði um allan heim líkt og jólasveinninn gerir á einni nóttu.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég á verðlaunabikar í glímu og gullmedalíu í skák.
Mesta afrek í lífinu: Vinna mál gegn Sjúkratryggingum Íslands vegna réttinda barnsins okkar. Óska engum að standa í því stappi.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara fram í tímann og vonast til að komast yfir þennan óeirðatíma í heiminum sem er í gangi núna.
Lífsmottó: Lífið er of stutt til að vera í fýlu.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Fara í skírnarveislu hjá fyrsta langömmu og langafa barninu í stórfjölskyldunni.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinSara jazzar fyrir sitt heimafólk
Næsta greinSindri sterkari í seinni hálfleik