Erna Kristín Stefánsdóttir frá Selfossi komst á dögunum í topp tíu í Framúrskarandi ungir Íslendingar 2019. Um tvö hundruð tilnefningar bárust frá almenningi í gegnum herferð sem var sett í gang á samfélagsmiðlum en það eru JCI samtökin á Íslandi sem veita verðlaunin. Erna Kristín hlaut viðurkenningu fyrir framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda.

Fullt nafn: Erna Kristín Stefánsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 23. mars 1991 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Það erum við hjónin, Bassi Ólafsson, sonur okkar Leon Bassi og stjúpdóttir Anja. Svo má ekki gleyma Tobba litla, en hann er hundur með mjög mannlega hegðun.
Menntun: Embættispróf í guðfræði.
Atvinna: Eins og staðan er í dag er ég að sækja um á fullu fyrir draumastarfið, sem er prestur.
Besta bók sem þú hefur lesið: Þær sem standa upp úr eru Eyðimerkurblómið, Dauðar rósir, Nótt eftir Elie Wiesel og svo er ég að vinna að því að klára Með lífið að veði en það hefur ekki verið mikill tími fyrir yndislestur fyrir námi og eigin skrifum, en bókin mín Fullkomlega ófullkomin er fínasti lestur þótt èg segi sjálf frá.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Þetta mun hljóma sem þversögn fyrir einhverjum en það eru þættirnir Lucifer. Þættirnir eru um satan/djöfulinn/skrattan/Lucifer Morningstar, sem ferðast frá helvíti til LA og opnar þar næturklúbb og fer í hlutverk aðstoðarmanns rannsóknalögregluufulltrúa. Það er mikil guðfræði í þáttunum og mjög skemmtilegt að læra að djöfullinn er ekki vondur í eðli sínu, heldur refsar illa. Það gleyma margir eða jafnvel vita ekki að djöfull er einn af erkienglum Guðs – hann bara fékk þetta hlutverk. Minnir smá á mismunandi hlutkesti okkar mannfólksins.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ekki dæma en Titanic og The Notebook hafa verið spilaðar oftar en æskilegt er.
Te eða kaffi: Kaffi. Alltaf.
Uppáhalds árstími: Haustið, en er samt alls ekki fyrir kulda. En litirnir og ferska loftið – það er ekkert betra.
Besta líkamsræktin: Náttúran.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Best að vera hreinskilin. Engan.
Við hvað ertu hrædd: Ég er hrædd trúða. Finnst bara allt skrýtið við það konsept. En kóngulær eru ekkert í uppáhaldi heldur svo sem.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Þegar barnið vaknar. Það er rosalega spennandi, erum við að tala um 6:00 eða 8:30? Spennandi óvissa.
Hvað gerir þú til að slaka á: Hugleiði, labba eða tek hlaup í náttúrunni, hlusta á podcast eða hlamma mér upp í sófa yfir góðum þætti.
Hvað finnst þér vanmetið: Að tala upphátt við sjálfan sig. Mæli með.
En ofmetið: Sloppar. Guð hvað það er óþægileg flík.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Staðan núna er Billie Eilish. Skiptir ekki máli hvaða lag – stelpan er undrabarn.
Besta lyktin: Lyktin af barninu mínu. Ekki handtaka mig.
Bað eða sturta: BAÐ. Lífið er bað.
Leiðinlegasta húsverkið: Mér finnst líf mitt oft snúast um þvott og leirtau. Það svarar spurningunni.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Veldu þig. Alltaf.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn sem neyðist til að vera morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ítalía.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Fordómar.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Það neyðarlegasta er of neyðarlegt til þess að deila en trúlega það að keyra alla leið frá Selfossi til Reykjavíkur í skólann á laugardegi og skilja ekkert afhverju umferðin væri svona létt. Það útskýrir margt þar sem ekki aðeins var laugardagur heldur var klukkan líka aðeins 6 þegar ég var komin fyrir utan háskólann. Sem þýðir að klukkan 4 græjaði èg mig fyrir skóladaginn. Ég hef enga skýringu á þessu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Rafvirki eins og afi.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Maðurinn minn. Hann er ástæðan fyrir því að magavöðvarnir fá almenna þjálfun.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Jesús. Það myndi bara svara svo rosalega mörgum spurningum.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Það er óteljandi margt sem ég myndi gera. Ef ég vel eitthvað eitt þá væri það að færa öllum börnum veraldar öryggi og ást.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Líklega hversu feimin ég er.
Mesta afrek í lífinu: Barnið mitt líklega. Þar næst að vera í topp 10 framúrskarandi ungir Íslendingar af 200 tilnefningum. Það er ágætist afrek en þó aðallega hvattning.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara aftur, knúsa litlu Ernu og segja henni hversu falleg og klár hún væri.
Lífsmottó: Vertu á þeim stað í lífinu að þegar aðrir blómstra þá finnur þú fyrir fögnuði en ekki samanburði.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Planið er að njóta með fjölskyldunni, fara kannski í hjólatúr um Hveragerði og panta pizzu. Við þurfum ekki mikið, þetta eru bestu stundirnar.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinSelfoss steig ekki feilspor í lokin
Næsta greinKvenfélag Hveragerðis gaf CRP tæki á HSU