Grímsnes- og Grafningshreppur hlaut á dögunum útnefninguna Sveitarfélag ársins 2022. Raunar voru fjögur sunnlensk sveitarfélög í fjórum efstu sætunum. Ása Valdís Árnadóttir, frá Bíldsfelli, er oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps.

Fullt nafn: Ása Valdís Árnadóttir
Fæðingardagur, ár og staður: 30. apríl 1982 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Ég er gift Ingólfi Erni Jónssyni viðhaldsstjóra hjá Landsvirkjun og eigum við þrjú börn, Þórönnu Völu 17 ára, Árna Tómas 13 ára og Víking Hrafn 9 ára.
Menntun: Þegar kemur að viðurkenndum gráðum þá er ég með BA í stjórnun ferðaþjónustu og móttöku gesta ásamt því að vera með diplómagráðu í viðburðarstjórnun. Samhliða því þá er ég mjög fróðleiksfús og hef setið mjög marga fyrirlestra og námskeið um allskonar málefni sem styðja mig bæði í leik og starfi.
Atvinna: Ég starfa í dag sem oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég hef alla tíð verið mikill bókaormur. Ég les enn mjög mikið og enn meira eftir að ég uppgötvaði Storytel og lesbrettið þeirra. Ég er reyndar í leshléi þessa dagana en þetta auðvelda aðgengi að bókum hefur aðeins verið að trufla nætursvefninn. Ég á mér enga uppáhaldsbók en bókin Lífsreglurnar fjórar, viskubók Tolteka fékk mig til að hugsa og virkilega velta fyrir mér hvernig ég vil haga mínu lífi.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég á engan uppáhalds sjónvarpsþátt. Ég á það þó til að detta í hámhorf á þáttaröðum en þess á milli horfi ég jafnvel ekki einu sinni á sjónvarp.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég get því miður ekki nefnt neina eina bíómynd þar sem mér leiðist yfirleitt að horfa á það sama aftur. Ef ég þyrfti samt að nefna eitthvað þá væru það kannski teiknimyndir með börnunum.
Te eða kaffi: Hvorugt, ég fæ mér vatn og collab.
Uppáhalds árstími: Mér finnst sumarið frábært, sér í lagi sólin og hitinn en eftir að öll tímastilltu batterís kertin komu á markað finnst mér haustið með myrkrinu og kertunum mjög notalegt.
Besta líkamsræktin: Mér finnst gott að gera alhliða æfingar á morgnana.
Hvaða rétt ertu best að elda: Það er enginn einn réttur sem ég er best í að elda, ætli ég sé ekki einhverskonar meðaljón í eldhúsinu. Ef ég fer eftir uppskriftinni þá virkar þetta yfirleitt en ég á mjög erfitt með að dassa í eldhúsinu. Ég er þó þekkt í fjölskyldunni minni fyrir súkkulaðibitakökurnar sem ég bý til og hafa ættingjar mínir einna helst áhuga að vita hvort þær verði í boði ef ég er með afmæli eða aðra viðburði.
Við hvað ertu hrædd: Ég hef alla tíð verið mjög hrædd við köngulær.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég fer yfirleitt á fætur milli 6 og 7 á morgnana. Það er samt voða gott að sofa út stundum.
Hvað gerir þú til að slaka á: Er það eitthvað ofan á brauð? Ég er mjög lítið fyrir að slaka á. Ég er alin upp við það að láta aldrei verk úr hendi falla en í seinni tíð er maður þó farin að læra að maður þurfi að slaka á. Mín slökun felst helst í lestri, njóta samvista við fjölskyldu og vini og fara í heita pottinn.
Hvað finnst þér vanmetið: Forvitni. Orðið hefur lengi verið notað í neikvæðni en ef ekki væri fyrir forvitni þá væri mannkynið líklega ekki komið eins langt og raun ber vitni.
En ofmetið: Peningar.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Vængjalaus með Sálinni hans Jóns míns.
Besta lyktin: Nýslegið gras.
Bað eða sturta: Sturta á hverjum morgni en verð vandræðalega spennt þegar ég dvel á hótelherbergi með baðkari.
Leiðinlegasta húsverkið: Leiðinlegasta húsverkið er að skúra gólfið.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Lifðu lífinu lifandi.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég get verið bæði en undanfarið hef ég verið að vinna með morgunhanann.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Hverjum þykir sinn fugl fagur og verð ég því að segja að Bíldsfell og Bíldsbrún séu fallegustu staðirnir en útsýnið úr stofuglugganum okkar jafnast á við landslagsmálverk vegna fegurðar.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Virðingarleysi gagnvart tíma annarra.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég hef lent í ýmsu eins og flestir en eitt atriði hefur fylgt mér lengi. Ég var einu sinni að vinna á Hótel Rangá og var nýlega byrjuð þegar ég sá að kona sem ég þekkti bókaði herbergi fyrir komandi helgi. Stuttu síðar hitti ég eiginmann hennar í sundi og átti spjall við hann og endaði samtalið á að segja góða skemmtun um helgina á Hótel Rangá. Hann varð eitthvað kindarlegur í framan og kom þá í ljós að hann var að fara í óvissuferð með frúnni. Við urðum ásátt um að hann myndi „gleyma“ þessu atviki. Ég lærði góða lexíu á þessu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði að verða rithöfundur og flugfreyja.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ég get ekki nefnt einhvern einn en í mínu nánast umhverfi þá eru það þrír einstaklingar sem koma mér alltaf til að hlæja. Það eru eiginmaður minn Ingólfur, Anna Þóra mágkona mín og Svanhildur móðursystir mín en mér leiðist aldrei í þeirra viðurvist.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég reyni að lifa þannig að ég vinn með það sem að ég hef og geri eins vel og ég get þannig að ég held að það væri ekkert betra að vera einhver annar en maður sjálfur, alla vega ekki fyrir einn dag. Grasið er ekki alltaf grænna hinu megin og ég held að best sé að lifa þannig að maður sé sáttur við sitt eigið líf.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég er á öllum samfélagsmiðlum en misvirk, ég er kannski einna helst virkust á Instagram og Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi útrýma hungri og kenna alþjóð samkennd og virðingu.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Mér finnst mjög gaman að syngja og syng yfirleitt í bílnum á leiðinni í vinnuna á morgnana.
Mesta afrek í lífinu: Fyrir utan það að koma börnunum á legg þá fannst mér ótrúlega merkilegt að hafa hlotið kosningu, ekki einu sinni heldur tvisvar til forystu í sveitarstjórn ásamt góðum hópi í mínu sveitarfélagi og er ég auðmjúk og þakklát fyrir það.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi ferðast aftur í tímann og sjá hvernig lífið hefur þróast.
Lífsmottó: Brostu framan í heiminn og þá brosir heimurinn framan í þig.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég er að fara á leiksýninguna Sérsaumaður Aladdín og Töfralampinn hjá Leikfélaginu Borg, afmæli og eflaust eitthvað fleira. Síðan er bingó hjá Kvenfélagi Grímsneshrepps í Félagsheimilinu Borg á sunnudaginn.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri grein„Við getum ekkert hagað okkur“
Næsta greinBrekkan brött gegn toppliðinu