Selfyssingurinn Þórfríður Soffía Haraldsdóttir tók nýverið við sem þjálfari hjá hlaupahópnum Frískum Flóamönnum á Selfossi. Þórfríður er menntaður sjúkraþjálfari og eigandi Slitgigtarskóla Þórfríðar. Allir velkomnir á æfingar hjá Frískum Flóamönnum, hvort sem er byrjendur eða lengra komnir og æfingar eru öllum að kostnaðarlausu.

Fullt nafn: Þórfríður Soffía Haraldsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 18. júní 1987 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Fjölskylduhagir: Búsett á Selfossi með börnunum mínum tveimur, þeim Heiðveigu Eir 14 ára og Haraldi Ara 12 ára. 
Menntun: Ég hef verið það heppin í gegnum ævina að hafa fengið tækifæri að mennta mig og læra ýmislegt og kynnast ólíkum heimshornum í leiðinni. Ég lauk grunnskólagöngu minni í Sólvallaskóla vorið 2003. Síðan lá leið mín í FSu og lauk þar stúdentsprófi af náttúrufræðibraut. Í millitíðinni frá árinu 2004-2005 fór ég sem skiptinemi til Dóminíska lýðveldisins og útskrifaðist þar úr menntaskólanum Santa Rosa de Lima og náði öllu nema frönsku því það var nógu erfitt að einbeita sér að spænskunni sem var töluð þarna úti. Eftir útskrift úr FSu 2007 fór ég í lýðháskóla í Danmörku á dansbraut. Næst lá leið mín 2008-2009 í Myndlistarskóla Reykjavíkur og síðan í Listaháskóla Íslands. Ég sneri síðan blaðinu við og ákvað að læra sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands. Hef síðan þá sótt hin ýmsu námskeið í sjúkraþjálfun og tók í millitíðinni jógakennaranám í Chamonix. 
Atvinna: Vinn sem sjúkraþjálfari og held síðan úti slitgigtarskóla Þórfríðar þar sem ég er með námskeið á Selfossi, Borg í Grímsnesi og í Þorlákshöfn. Einnig held ég úti síðunni www.thorfridur.is þar sem ég býð upp á fjarnámskeið í slitgigtarskólanum mínum. Ég er einnig með fésbókarsíðu slitigigtarskóli Þórfríðar þar sem ég deili ýmsum fróðleik sem viðkemur slitgigt og hreyfingu. Nýverið tók ég svo við þjálfun á hlaupahópnum Frískum Flóamönnum. 
Besta bók sem þú hefur lesið: Sem barn og unglingur voru uppáhalds bækurnar Hringadróttinssaga, Harry Potter, Ísfólkið og Krúnuleikarnir (Game Of Thrones). Á fullorðinsárunum er það Hungurleikarnir, Fátækt fólk og Baráttan um brauðið. Tvær síðastnefndu ættu að vera skyldulesning fyrir okkur Íslendinga. 
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Á tímabili var það Krúnuleikarnir. Núna er það The Witcher og The Last Kingdom. Hef mjög gaman af ævintýraþáttum. 
Te eða kaffi: Ekkert betra en svart sterkt kaffi á morgnana. 
Uppáhalds árstími: Elska haustið; litirnir, berjatínsla og rútínan byrjar á ný.
Besta líkamsræktin: Erfitt að svara, þar sem ég hef mjög gaman að allskonar hreyfingu. Ég dansaði lengi afró í Kramhúsinu þegar ég bjó í Reykjavík. Hef alltaf elskað að mæta í tíma þar með lifandi trommuslætti. Síðan verð ég að sjálfsögðu að nefna utanvegahlaup sem ég stunda mikið á sumrin. Síðast en ekki síst, hot jóga í Yogasálum á Selfossi! 
Hvaða rétt ertu best að elda: Hakk og spagettí, mín sérgrein.
Við hvað ertu hrædd: Lofthrædd en er að vinna í því. Fór í svakalegan rússíbana í Þýskalandi síðasta sumar. Líf mitt fjaraði næstum þar út á meðan ferðinni stóð. Er orðin betri núna af lofthræðslunni eftir þessa rússíbana-raun.
Klukkan hvað ferðu á fætur: 5:30 2x í viku og byrja daginn á jóga, annars 7:15 aðra daga, en 8 eða 9 um helgar. Er að reyna vera a-manneskja en er b-manneskja að eðlisfari.
Hvað gerir þú til að slaka á: Sauna og kaldi pottur. Fjallganga er líka viss slökun. 
Hvað finnst þér vanmetið: Náungakærleikur og umburðarlyndi. Tveir mikilvægir eiginleikar í góðu samfélagi.  
En ofmetið: Tik tok. Sé ekkert jákvætt við þann miðil.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ég hlusta mjög mikið á tónlist. Mér fannst tónlistin í Dóminíska lýðveldinu einstaklega góð og þar lærði ég að hlusta á Merengue og Bachata sem er danstónlist. Oftast falleg lög og góður taktur. Annars er mín allra uppáhalds söngkona Eivör Pálsdóttir. Hef hlustað á hana síðan ég var unglingur. 
Besta lyktin: Rose ilmkjarnaolía frá Young Living. 
Bað eða sturta: Sjóðheitur pottur – helst 41 gráða.
Leiðinlegasta húsverkið: Klárlega að ganga frá þvotti. Leyfi oft stórri hrúgu að safnast í þvottahúsinu. 
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að hlusta alltaf á hjartað. Hjartað veit.“ Þessa fleygu setningu sagði jógakennarinn minn, Tony Lupinacci í Chamonix 2021. Góð áminning að hlusta á innsæið sitt. Það er oftast rétt. Síðan eitt gott ráð sem ég fékk frá Þóru frænku minni þegar ég var vinnukona hjá henni sumarið 2002 en það var að forðast tvíverknað. Ef maður vill koma miklu í verk og vinna hratt og vel þá minni ég mig á þetta.  
Nátthrafn eða morgunhani: Líður betur þegar ég er morgunhæna. 
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ég elska Húsafell og umhverfið þar í kring. Finnst ég vera heima þegar ég þarna.  
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Hroki og fordómar.  
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég svindlaði í einum þrautaleik þegar ég var í lýðháskóla í Danmörku 2007 og það komst upp. Keppnisskapið og æsingur að láta ekki Danina vinna hljóp með mig í gönur þarna. Hef aldrei á ævinni skammast mín jafn mikið. Lærði af reynslunni. 
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Listakona.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Það er auðvelt að koma mér til að hlæja en pabbi er oft hnyttinn. 
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Jesús Kristur. Djúpvitur maður sem var undan sínum samtíma og breiddi út kærleik. Hefði verið áhugavert að upplifa hans líf og þankagang. 
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram og Facebook. 
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Að allir í heiminum myndu fá grunnþarfir sínar uppfylltar. 
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég á sex naggrísi. Ótrúlega skemmtileg dýr.  
Mesta afrek í lífinu: Auðvitað börnin mín. Annars var það að útskrifast úr sjúkraþjálfun og byrja vinna sem slíkur. Hafði mjög mikið fyrir náminu verandi með tvö lítil börn á þeim tíma. Krafðist mikið skipulags, ákveðni, vinnusemi og elju. 
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Erfitt að svara, en ég hef alltaf haft mikinn áhuga þegar Ísland var numið. Hefði viljað sjá Auði djúpúðgu þegar hún nam land ásamt sínu föruneyti og byggði sitt landnámssetur í Hvammi í Dölunum. 
Lífsmottó: Orð frá móður Theresu sem mér finnst góð áminning: Peningar eru nytsamlegir, en kærleikurinn, athyglin og umhyggjan sem við berum fyrir öðrum er það sem mestu skiptir. 
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Smala upp í Haga hjá frænku minni og frænda, Þóru Þórarinsdóttur og Úlfhéðni Sigurmundssyni.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

 

Fyrri greinFimmvörðuháls er mögnuð kennslustofa
Næsta grein„Þurfum að fækka mistökunum og þétta vörnina“