Eyrbekkingurinn Elín Birna Bjarnfinnsdóttir hefur heldur betur tekið til hendinni síðustu vikur en í mars byrjaði hún að plokka við Eyrarbakkaveg hjá Óseyrarbrú. Það var ekki markmiðið í upphafi en á endanum hafði hún plokkað meðfram öllum veginum, beggja vegna, frá Óseyrarbrú að Hagatorgi á Selfossi og lauk hún því verkefni um síðustu helgi. Auk þess skipulagði Elín Birna stóra plokkdaginn á Eyrarbakka og hún hefur auk þess verið dugleg við að taka til hendinni á Eyrarbakka, hreinsað gangstéttir, sópað og rakað og séð um leikvöllinn hjá Sjóminjasafninu, auk þess að halda umhverfinu í kringum félagsheimilið alveg upp á tíu, en þar er hún staðarhaldari.

Fullt nafn: Elín Birna Bjarnfinnsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Fædd í Reykjavík þann 2. september 1973.
Fjölskylduhagir: Gift Halldóri Páli Kjartanssyni og eigum við þrjú börn; Arnar Þór sem verður 30 ára 16. september, Jóhanna Elín og Halldór sem eiga einmitt 18 ára afmæli í dag, 17. maí.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru Bjarnfinnur Sverrisson og Jóhanna Elín Þórðardóttir.
Menntun: Kláraði grunnskóla og eitt ár í FSu.
Atvinna: Sé um Samkomuhúsið Stað á Eyrarbakka og ýmislegt annað, til dæmis sé ég um þrif í fallegu kirkjunni okkar á Eyrarbakka. Annars færi heil blaðsíða eða meira í að skrifa um allt sem ég geri.
Besta bók sem þú hefur lesið: Hef ekki lesið bók í mörg ár, hef hvorki tíma né þolinmæði í það.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Neyðarvaktin.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Það er sko jólamyndin The Holiday.
Te eða kaffi: Drekk hvorugt.
Uppáhalds árstími: Vorið… og já, líka haustið.
Besta líkamsræktin: Gönguferðir, þá sérstaklega í Eyrarbakkafjöru, þar er dásamlegt að vera.
Hvaða rétt ertu best að elda: Kjúklingarétt, einfalt og fljótlegt.
Við hvað ertu hrædd: Ég hef alltaf verið hrædd við hunda.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Oftast um 7.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég slaka nú ekki oft mikið á en það er gott að setjast út á pall í góðu veðri en ég sit nú ekki lengi þar. Fer líka í góðar gönguferðir.
Hvað finnst þér vanmetið: Að plokka. Með mínu framtaki þá er ég að ná fólki til að breyta því viðhorfi og það eru margir í kringum mig farnir að plokka rusl, sem er frábært. Við viljum hafa landið okkar hreint og fínt.
En ofmetið: Kaffi.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Skína með Patrik og Luigi.
Besta lyktin: Ilmvatnið mitt, Victoria’s Secret.
Bað eða sturta: Sturta, hef ekki tíma til að liggja í baði.
Leiðinlegasta húsverkið: Að ganga frá þvotti.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Lifa lífinu og láta ekki aðra stjórna mér.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Það eru nú nokkrir staðir. Þakgil, Vestmannaeyjar og Akureyri svo eitthvað sé nefnt.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Óstundvísi.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Hef nú nokkrum sinnum lent í því að vera búin að stöðva bílinn og komast ekki út úr honum. Fatta þá að ég er ennþá með bílbelti.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ætlaði alltaf að verða íþróttakennari.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Pétur Jóhann.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Væri til í að vera forseti Íslands og fá að kynnast því starfi betur, þó að ég viti nú nokkuð hvað forseti gerir. Það er gaman að fá að ferðast um landið og hitta fólk og fara erlendis, sem ég hef aldrei farið. Hafði samt ekki tíma í ár að bjóða mig fram en kannski seinna.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi vilja laga margt hérna á Eyrarbakka t.d. laga og bæta gangstéttir, götur, sjóvarnargarðinn og fá stigann sem var við Stað og margt fleira. Það kemur vonandi með tíð og tíma.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég á ekki vegabréf og hef þar af leiðandi aldrei farið erlendis. Ekki segja nokkrum manni frá því!
Mesta afrek í lífinu: Að eignast börnin mín þrjú.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Myndi vilja ferðast aftur í tímann og hitta ömmu og afa, Guðlaugu Böðvarsdóttir og Sverrir Bjarnfinnsson. Þau voru svo yndisleg og það var svo gott að koma til þeirra á Búðarstíginn. Ég sakna þeirra mjög mikið.
Lífsmottó: Að lifa lífinu og hafa gaman og taka sig ekki og alvarlega.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Þar sem tvíburarnir okkar eiga 18 ára afmæli í dag fórum við nú eitthvað út að borða. Á laugardaginn ætla ég á fótboltaleik og á sunnudaginn verður nú sennilega farið í góða gönguferð. Líklega verður nú líka eitthvað plokkað um helgina.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Nokkrar plokkmyndir sem sýna árangur Elínar Birnu.
Fyrri greinKosið um nafnabreytingu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi
Næsta greinVinnslugeta hitaveitunnar eykst með nýrri holu