Birna Guðrún Jónsdóttir hefur verið ráðin leikskólastjóri Brimvers/Æskukots á Eyrarbakka og Stokkseyri frá og með næstu áramótum. Hún tekur við starfinu af Sigríði Birnu Birgisdóttur, sem hefur verið ráðin leikskólastjóri í Goðheimum á Selfossi. Það hefur mikið mætt á stjórnendum og starfsmönnum leikskóla síðustu misserin við að skipuleggja skólastarf og umferð um skólana í takt við breytilegar sóttvarnarreglur og Birna hefur stýrt því starfi af öryggi á Jötunheimum á Selfossi.

Fullt nafn: Birna Guðrún Jónsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 22. desember 1974 á Patreksfirði.
Fjölskylduhagir: Ég bý að mestu leyti ein með þremur dætrum mínum, af þeim þremur er ein reyndar flutt út í bílskúr. Ég er svo rík að eiga tvær dætur í viðbót sem eru fluttar að heiman, þar græddi ég einn tengdason og einn dótturson.
Menntun: Leikskólakennari með framhaldsmenntun í stjórnun menntastofnana.
Atvinna: Leikskólastjóri á Jötunheimum á Selfossi. Er að færa mig niður á strönd í Brimver/Æskukot um áramótin þar sem ég tek við leikskólastjórastöðu.
Besta bók sem þú hefur lesið: Hringir í skógi eftir Dalene Matthee.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Outlander, en verð líka að segja Vikings…og Lucifer!
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Rocky Horror Picture Show.
Te eða kaffi: Oftast kaffi og þá tvöfaldur espresso.
Uppáhalds árstími: Ef ég þarf að velja þá… haustið.
Besta líkamsræktin: Ganga og ýmsar útfærslur af yoga.
Hvaða rétt ertu best að elda: Úff… ætli það sé ekki gulur fiskur (karrýfiskréttur í ofni).
Við hvað ertu hræddur: Það fyrsta sem kemur upp í hugann eru kóngulær.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Í kringum sjö, fimm daga vikunnar. Hina tvo eitthvað seinna.
Hvað gerir þú til að slaka á: Keyri með uppáhalds tónlistina í botni eitthvað út í bláinn… það er snilldar slökun!
Hvað finnst þér vanmetið: Einvera. Mér finnst alveg nauðsynlegt að hlaða af og til batteríin með því að vera ein í heiminum.
En ofmetið: Peningar. Það er reyndar nauðsynlegt að eiga nóg af þeim en hvað er nóg? Mér finnst stundum eins og lífið snúist í kringum þá fram og aftur en að gott væri að staldra við og njóta þess sem peningar geta ekki keypt, það er þar sem lífið á sér stað!
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Lóa Lóa með Megasi.
Besta lyktin: Af þvotti sem hefur þornað úti á snúru eða, já, líka furulykt.
Bað eða sturta: Mér finnst alveg nauðsynlegt að hafa góða sturtu en álíka nauðsynlegt að komast í gott og heitt bað inn á milli.
Leiðinlegasta húsverkið: Eldamennskan, þessi hversdags (aðallega þó að ákveða hvað á að vera í matinn) en er í harðri samkeppni við tiltekt.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Tvö ráð sem eru þau bestu. Annað er að minna er meira, minimalisk hugmyndafræði, og hitt er að taka ekki öllu persónulega, það ráð gaf elsta dóttir mín mér og hún veit hvað hún er að segja stelpan.
Nátthrafn eða morgunhani: Sveiflast eftir árstíðum og aðstæðum. Í fríum get ég verið ágætis nátthrafn en er meiri morgunhani þegar rútínan er á fullu skriði.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Hér verð ég að hugsa til heimahaganna og segja Arnarfjörður!
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Frekja, hroki og yfirgangur.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég kom út úr búningsklefa í íþróttahúsi (u.þ.b. 9 ára) og nakinn strákur (nokkrum árum eldri) stóð í hurðaopinu inn í næsta búningsklefa… blasti hann þar við í allri sinni nekt. Ég held að hafi aldrei orðið vandræðalegri…
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Draumarnir voru að verða sjómaður eða prestur. Reyndar kom líka til greina að verða bóndi.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ólafía Sigurðardóttir… eða Ari Eldjárn, erfitt að gera upp á milli…
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Einhverntíman hefði ég átt auðvelt með að velja einhvern annan til að vera en í dag á ég í miklu basli með það. Í rauninni langar mig ekki að prufa að vera nein önnur en ég er. Það gæti samt verið gaman að prufa að vera Páll Óskar… af því að hann er svo skemmtilega jákvæður og heillandi.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég nota Facebook mest en renni í gegnum Instagram líka þar sem stelpurnar mínar nota þann miðil meira.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi klárlega stilla til friðar í heiminum og eyða covid.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Úff… ég er eins og opin bók og veit ekki hvað fæstir vita um mig… kannski að ég er haldin valkvíða og finnst að það ættu bara að vera tveir valkostir um rétti á matseðlum á veitingastöðum…
Mesta afrek í lífinu: Ætli það sé ekki að eignast stelpurnar mínar fimm. Þær eru kraftaverkin mín allar sem ein.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég hugsa að ég myndi fara aftur í tímann, alveg til landnáms Íslands. Helst á slóðir Hrafna-Flóka, heimaslóðir mínar.
Lífsmottó: Hef þá trú að allt sé eins og það á að vera og allt fari eins og það á að fara. Því er best að vera ekki að hafa óþarfa áhyggjur heldur trúa því að hlutirnir hafa tilhneigingu til að leysast af sjálfu sér.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Þar sem það er fríhelgi hjá mömmunni á heimilinu ætla ég að verja tíma með kærastanum mínum. Hvað við gerum er óákveðið að mestu leyti en ég veit að það verður eitthvað skemmtilegt.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinHeimilið og jólin opna í Reykjavík
Næsta greinLandsbankahúsið á Selfossi til sölu