Lúðrasveit Þorlákshafnar fagnar 40 ára afmæli sínu með sannkallaðri sunnlenskri stórtónleika afmælisveislu á morgun, laugardag. Tónleikarnir verða haldnir í Íþróttamiðstöð Þorlákshafnar og eins og oft áður, þá munu félagar LÞ gjörbreyta íþróttasalnum í tónleikahöll. Efniskrá tónleikanna er fjölbreytt en með LÞ koma fram Karlakór Selfoss, Skítamórall, Jónas Sig og Vigdís Hafliðadóttir. Stjórnandi lúðrasveitarinnar, Daði Þór Einarsson, er Sunnlendingur vikunnar.

Fullt nafn: Daði Þór Einarsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 7. september árið 1958 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Eiginkona mín heitir Elín Fanndal og búum við í Þorlákshöfn, þar sem hamingjan er. Við eigum bæði þrjú börn úr fyrra hjónabandi. Ég á tvo stráka og eina stelpu og Elín tvær stelpur og einn strák. Öll eiga þau sínar eigin fjölskyldur, nema yngsta dóttir mín. Við eigum líka eina fósturdóttur sem er 15 ára og býr hjá okkur í Þorlákshöfn.
Hverra manna ertu: Pabbi minn hét Einar Matthías Kristjánsson garðyrkjubóndi (d.1997) og móðir mín heitir Guðbjörg S. Kristjónsdóttir og verður hún 96 ára núna í maí á þessu ári. Hún býr á Fossheimum á Selfossi.
Menntun: Eftir gagnfræðapróf frá Gaggó í Mosfellssveit þá lærði ég blikksmíði og er með sveinspróf í þeirri grein. Á sama tíma var ég í Tónlistarskólanum í Reykjavík og útskrifaðist þaðan sem blásarakennari árið 1981.
Atvinna: Stjórna Skólahljómsveit Mosfellsbæjar.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég er nú ekki mikið fyrir lestur en hlusta þess í stað á Storytel og athyglisverðasta bók sem ég hef hlustað á þar er Konan í dalnum og dæturnar sjö, eftir Guðmund G. Haglín.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Horfi bara lítið á sjónvarp.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Það er engin spurning, það eru Með allt á hreinu og Stella í orlofi.
Te eða kaffi: Kaffi, en ég get alveg látið það eiga sig.
Uppáhalds árstími: Minn uppáhaldstími er mars, þá er daginn farið að lengja og september þegar haustlitirnir eru hvað flottastir.
Besta líkamsræktin: Tónlistin hefur alveg bjargað mér frá líkamsrækt og öllu svoleiðis brölti.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég spurði Elínu og hún segir að allt sem ég elda sé gott (það er alveg rétt hjá henni). Annars er ég meistari í purusteik.
Við hvað ertu hræddur: Ég er hræddur við að keyra bílinn með hestakerruna í eftirdragi eða húsbílinn í miklum vindi.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Oftast fer ég á fætur um kl. 8:00 en ég er samt mikill B-maður. Það hefur samt aðeins breyst með hækkandi aldri.
Hvað gerir þú til að slaka á: Að slaka á er nú eitthvað sem ég geri mjög sjaldan. Ég er bæði í Kór Þorlákskirkju, stjórna og spila með Stórsveit Íslands og Lúðrasveit Þorlákshafnar og við hjónin erum með hesta sem þarf að sinna á hverjum degi. Mér finnst mjög afslappandi að dunda í hesthúsinu og hlusta á hestana borða heyið sitt. Einnig er mjög afslappandi að púsla, við það get ég gleymt mér í langan tíma.
Hvað finnst þér vanmetið: Störf kennara.
En ofmetið: Starf seðlabankastjóra.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ég er algjör alæta á tónlist en ef ég á að nefna eitt lag, þá er það lagið Sing, Sang, Sung með Gordon Goodvin.
Besta lyktin: Covid breytti lyktarskyni mínu svo ég er ekki dómbær á það lengur.
Bað eða sturta: Sturta og skelli mér síðan í heita pottinn.
Leiðinlegasta húsverkið: Ég er svo heppinn að við hjónin erum með óskrifaða verkaskiptingu, ég sé að mestu um eldamennskuna og Elín um þrifin. Þetta getur ekki verið betra.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Vinur minn Kristján Kjartansson sagði áður fyrr við mig „Við þekkjum engin vandamál, bara lausnir”. Það er nokkuð sem ég reyni að halda fast í. Þetta var í kringum árið 1977.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég er algjör dundari fram á kvöldin en get líka verið morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Við Jökulsá í Lóni en þar er landslaginu lýst þannig að það sé eins og Þórsmörk og Landmannalaugar á einum stað.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Óstundvísi.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég byrjaði svo ungur að spila á „lúður“ að ég ætlaði mér aldrei annað en að vera tónlistarmaður og stjórnandi. Pabbi átti mjög flottan plötuspilara og skemmtilegar hljómplötur sem ég spilaði þegar ég kom heim úr skólanum. Hækkaði þá í græjunum og stjórnaði minni eigin hljómsveit.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ásgeir frændi minn er einn sá fyndnasti.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi vilja verða allsráðandi og þá myndi ég t.d leggja niður stöðu seðlabankastjóra.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég verð víst að viðurkenna að það er Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég fella niður vexti af húsnæðislánum.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er giftur bestu konu í heimi.
Mesta afrek í lífinu: Örugglega eins og hjá mörgum, að hafa eignast heilbrigð börn.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Elín mín segir að ég væri best geymdur á 17. öld þar sem karlmenn réðu öllu! Er það ekki annars ennþá svoleiðis?
Lífsmottó: Lífið er núna og fagna hverjum degi.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Stjórna 40 ára afmælistónleikum Lúðrasveitar Þorlákshafnar. Þar verða gestir hljómsveitarinnar Karlakór Selfoss, Skítamórall, Jónas Sig og Vigdís Hafliðadóttir.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinÞjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina
Næsta greinÍR með kústinn á lofti