Engilbert Olgeirsson, framkvæmdastjóri Héraðssambandsins Skarphéðins, er fyrsti Sunnlendingur vikunnar í þessum nýja efnislið á sunnlenska.is. Það er viðeigandi, þar sem Engilbert var fyrsti Sunnlendingur vikunnar í Sunnlenska fréttablaðinu árið 1991. Þá var hann nýlega tekinn við starfi framkvæmdastjóra HSK, þar sem hann starfar enn í dag. HSK er samband allra íþrótta- og ungmennafélaga í Árnessýslu og Rangárvallasýslu og er óhætt að telja sambandið, með sína fjölbreyttu æskulýðs- og íþróttastarfsemi, einn af hornsteinum mannlífs á Suðurlandi.

Fullt nafn: Engilbert Olgeirsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddur á Sjúkrahúsinu á Selfossi 17. maí 1966.
Fjölskylduhagir: Kvæntur Rán Jósepdóttur og börnin eru fjögur; Karen, Olgeir Otri, Anna Ísey og Eldey Eva.
Menntun: Íþróttakennari.
Atvinna: Framkvæmdastjóri HSK. Kem einnig að reksti tveggja ferðaþjónstufyrirtækja sem ég á hlut í og heita Nefsholt ehf. og Hellismenn ehf.
Besta bók sem þú hefur lesið: Maður sem vinnur hjá Skarphéðni nefnir auðvitað Njálu.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Af þáttum sem er verið að sýna núna nefni ég Um land allt og The Mentalist.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur:
Engin sérstök, en ef ég þarf að nefna eina þá væri það Með allt á hreinu.
Te eða kaffi:
Alltaf kaffi og mikið af því.
Uppáhalds árstími: Sumarið er tíminn.
Besta líkamsræktin: Var í eina tíð sæmilegur hlaupari, en ætli ég segi ekki fjallgöngur í dag.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Það er nú varla hægt að tala um að ég sé bestur í einhverju þegar kemur að matseld. Næ að grilla nokkurn veginn skammlaust.
Við hvað ertu hræddur: Var myrkfælinn sem krakki, en man ekki eftir neinu sérstöku í dag í þessu sambandi.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Rétt rúmlega sjö og ekkert snús!
Hvað gerir þú til að slaka á: Þyrfti að gera meira af því að liggja í leti, en nefni sjónvarpsgláp og að ráfa um netheima.
Hvað finnst þér vanmetið: Sjálfboðaliðsstörf, félagsmálastúss og sunnlenska.is!
En ofmetið: Það er þá helst hin nýja stétt, sem nefnist „góða fólkið“.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Er alæta á tónlist, man ekki eftir neinu sérstöku, en góð fjöldasöngslög í góðra vina hópi klikka ekki.
Besta lyktin: Lyktarskynið hefur daprast með árunum og spái ekkert í bestu eða verstu lyktina, en eigum við ekki bara að segja vorangan.
Bað eða sturta: Vel sturtuna frekar.
Leiðinlegasta húsverkið: Án efa að ganga frá þvotti.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að vera góður við menn og málleysingja og láta gott af sér leiða.
Nátthrafn eða morgunhani: Var nátthrafn, en það hefur breyst aðeins í tímana rás og er frekar morgunhani í dag.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Jökulgil á Landmannaafrétti kemur upp í hugann.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Ekkert sérstakt, í þessum skrifuðu orðum er það hvað þetta eru margar spurningar!
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Er alveg laus við að velta þessu fyrir mér.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Var lítið að spá í það að mig minnir.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Nokkrir samferðamenn koma upp í hugann, en fyndnasti maður landsins í dag er Ari Eldjárn.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá (og afhverju): Þú segir nokkuð. Sem formaður samgöngunefndar sveitarfélagsins míns, held ég segi vegamálastjóri. Fyrsta verk yrði að tryggja fjármagn í að leggja bundið slitalag á helstu tengivegi í Rangárþingi ytra. Í lok dags myndi ég svo láta laga holóttan veg fyrir neðan brekkuna heima.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Útrýma stríðum, fátækt og almennum leiðindum.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Að ég var fyrsti Sunnlendingur vikunnar í fyrsta tölublaði Sunnlenska fréttablaðsins árið 1991.
Mesta afrek í lífinu: Að eignast fjögur heilbrigð börn.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Við hjá HSK erum nýbúin að gefa út heimildarmynd um landsmót UMFÍ á sambandssvæðinu. Engar kvikmyndir eru til frá fyrsta mótinu 1940 og ekki heldur frá Þjórsártúni 1910. Færi í að redda því. (Tók nokkur eftir því að þetta er dulin auglýsing fyrir DVD diskinn!)
Lífsmottó: Allt lífið er framundan.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Samvera með fjölskyldunni eftir annasama daga undanfarið.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinNýr og betri sunnlenska.is
Næsta grein„Svo gefum við björgunarsveitinni allan peninginn“