Egill Bjarnason, blaðamaður frá Selfossi, var að gefa út sína fyrstu bók, How Iceland Changed the World. Það er bókaútgáfan Penguin Random House sem gefur hana út en í bókinni er farið yfir þá ósögðu atburðarás sem varð til þess að ein örsmá eyja í miðju Atlantshafi hefur mótað heiminn í aldaraðir. Þetta er fyrsta bók Egils en hann hefur að undanförnu skrifað greinar fyrir Associated Press, The New York Times, National Geographic og fleiri erlenda miðla.

Fullt nafn: Egill Bjarnason.
Fæðingardagur, ár og staður: 13. febrúar 1988, Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Vísitölufjölskylda með tvö börn og fresskött sem heitir óvart Ronja.
Menntun: Allt sem ég kann, lærði ég í FSu.
Atvinna: Blaðamaður.
Besta bók sem þú hefur lesið: Hvað segirðu? Besta bók sem þú hefur skrifað? Ég var einmitt að skrifa mína fyrstu!
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Succession, Saturday Night Live og Landinn.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Horfi miklu frekar á íslenskar bíómyndir tvisvar. Veit ekki alveg afhverju.
Te eða kaffi: Kaffi þó ég tilkynni reglulega að ég ætli framvegis einungis að drekka te.
Uppáhalds árstími: Veturinn. Veldur aldrei vonbrigðum.
Besta líkamsræktin: Hlaup.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Plokkara.
Við hvað ertu hræddur: Múgæsing.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Þegar kallið kemur frá yngsta syninum. Yfirleitt um sex.
Hvað gerir þú til að slaka á: Leggst í grasið og sofna.
Hvað finnst þér vanmetið: Að leggjast í grasið og sofna.
En ofmetið: Garðsláttur.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Konan mín er frá Húsavík og hennar þjóðsöngur er “Husavik” í flutningi Molly Sanden. Alla morgna.
Besta lyktin: Er af birkiskógi.
Bað eða sturta: Sund.
Leiðinlegasta húsverkið: Að skúra.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Kláraðu bókina.
Nátthrafn eða morgunhani: Sennilega nátthrafn í eðli mínu.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Strendur Sierra Leone, Big Sur í Kaliforníu og hálendi Íslands. Helst á reiðhjóli með tjald og prímus.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Snjómokstur, blaðamannafundir, skriffinnska, langir tölvupóstar, sviðsmyndir, hraðakstur innanbæjar, grímuskylda, fyrirsagnir með gæsalöppum, útvarpsauglýsingar, Svíþjóð, lúpína, refaskyttur, Kúlugúbbar (barnaefni með talandi fiskum), tekjuskattur, rafskutlur, Garðabær, sunnudagar, heimsmarkaðsverð á áli, IKEA, „eigðu góðan dag“.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Fyrir blaðamann eru staðreyndavillur alltaf neyðarlegar.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Kokkur.
Fyndnasta manneskja sem þú veist um: Mamma gaf út ljóðabók í fyrra sem var merkilega fyndin.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Sonur minn, ellefu mánaða. Ég vil vita hvernig hann hugsar.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Strava. En ég er að reyna eignast fleiri vini á Goodreads.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi ég frelsa Palestínu.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég vann lengi á Sunnlenska fréttablaðinu – fyrir tíma vefmiðilsins – og sá þá um þennan Sunnlendings-dálk. Nákvæmlega þessi spurning er upphaflega komin frá mér.
Mesta afrek í lífinu: Ég borðaði eitt sinn, einn og óstuddur, melónu á stærð við hausinn á mér.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég færi aftur til Móðuharðinda. Atburður sem ekki er hægt að skilja til fulls nema frá fyrstu hendi.
Lífsmottó: Lífið er stutt.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Kynna nýútkomna bók og hlaupa hálf-maraþon í Mývatnssveit.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinSelfoss úr leik í bikarnum
Næsta greinMeirihlutinn klofinn vegna bílastæðahúss