Björgvin Rúnar Valentínusson tók við starfi prentsmiðjustjóra Prentmets Odda á Selfossi um síðustu áramót, þegar Örn Grétarsson lét af störfum eftir langan og farsælan feril. Björgvin er prentsmíðameistari og hefur starfað hjá Prentmeti Odda undanfarin tíu ár og sinnt ýmsum störfum innan veggja fyrirtækisins, fyrst í höfuðstöðvunum í Reykjavík en frá árinu 2016 í útibúinu á Selfossi.

Fullt nafn: Björgvin Rúnar Valentínusson.
Fæðingardagur, ár og staður: 5. júní 1989 í Stykkishólmi.
Fjölskylduhagir: Ég er giftur Rebekku Kristinsdóttur hársnyrti og saman eigum við strákana Alexander Örn (8 ára), Kristinn Loga (5 ára) og Jökul Elí (1 árs).
Menntun: Ég er með meistarabréf í prentsmíði frá Tækniskólanum og stúdent af félagsfræðibraut FSu.
Atvinna: Ég er prentsmiðjustjóri hjá Prentmeti Odda á Selfossi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég les ekki eins mikið og mig langar til en þegar ég geri það þá finnst mér fræðibækur skemmtilegri heldur en skáldsögur, þá finnst mér Ð ævisaga bera af öðrum bókum. Mjög góð bók sem fjallar um hvernig Ð og aðrir „séríslenskir“ stafir þróuðust inní íslenska stafrófið.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: The Office og Parks and Recreations eru klárlega á toppnum, það eru þættir sem ég get horft á aftur og aftur. Ég öfunda þá sem eiga þá eftir.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Forrest Gump er mynd sem ég held mikið uppá og finnst alltaf jafn skemmtilegt að horfa á.
Te eða kaffi: Þar sem ég drekk hvorki te né kaffi þá langar mig að bæta við auka valmöguleika og segja sykurlaust Appelsín.
Uppáhalds árstími: Mér finnst haustin líklega besti tíminn. Þar sem ég er svo lítill sólardýrkandi finnst mér haustveðrið alveg geggjað. Á haustin kemst líka allt fjölskyldulífið aftur í rútínu, sem er allt mjög gott.
Besta líkamsræktin: Ég er ekki mikið fyrir það að fara í ræktina en mér finnst geggjað að kíkja af og til á old boys æfingu í körfubolta.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég vil meina það að ég sé búinn að mastera BBQ svínarif. En annars er ég ágætur í flest öllu í eldhúsinu… spurning hvort konan mín sé sammála því.
Við hvað ertu hræddur: Ég og geitungar eigum ekki vel saman.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Klukkan hringir kl. 7:10 en það tekur mig þó alltaf óþægilega langan tíma að vakna á morgnana.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég leggst uppí sófa og horfi á sjónvarpið.
Hvað finnst þér vanmetið: Að vera hávaxinn. Það er bara vesen að vera hávaxinn. Það er erfitt að finna föt sem passa almennilega á mann, lítið úrval af skóm, maður passar aldrei í aftursætin á bílum og maður er stöðugt að reka höfuðið í ljósakrónur. Listinn er lengri.
En ofmetið: Að vera sólbrúnn. Hef aldrei skilið afhverju svo margir sækja í þetta.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Top of the World með Imagine Dragons kemur mér alltaf í gírinn en einnig flest allt sem Daði Freyr lætur frá sér, algjörar neglur.
Besta lyktin: Lyktin af hamborgarhryggnum koma úr ofninum á jólunum. Fátt sem toppar það.
Bað eða sturta: Þar sem ég er yfir 2 metrar á hæð og hef ekki ennþá fundið bað sem ég passa í, þá neyðist ég til að segja sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Þvottur, þvottur, þvottur og þvottur.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Ekki velja auðveldustu leiðina í því sem þú tekur að þér í lífinu, þú lærir meira á því að fara erfiðu leiðina.
Nátthrafn eða morgunhani: Áður en ég eignaðist börn þá var ég klárlega nátthrafn en í dag er ég morgunhani, en það er bara út af því að ég er neyddur til þess.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Af öllum þeim náttúruperlum sem maður hefur komið á er Flatey á Breiðafirði sú sem ber af. En ef við horfum útfyrir landsteinana þá myndi ég örugglega segja Búlgaría, svakalega fallegt land.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Fólk sem notar letrin Comic Sans eða Papyrus og heldur að það sé bara allt í lagi að gera það.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Mér tókst einu sinni að ljóstra upp um afmælisgjöf sem félagi minn átti að fá frá konunni sinni, án þess að hafa hugmynd um að um afmælisgjöf væri að ræða.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Þegar ég var yngri þá langaði mig alltaf að verða húsasmiður líkt og afi minn en ég lét það „nægja“ að verða prentsmiður.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ég hef mjög gaman af John Oliver og hans grínalvörufréttaþáttum, hann er mjög fyndinn náungi. Hérna á klakanum finnst mér Ari Eldjárn alltaf fáránlega fyndinn.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi vilja vera Guðni forseti. Mér finnst hann lifa áhugaverðu lífi. En einn dagur í hans hlutverki myndi klárlega vera meira en nóg.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook og Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi losa heiminn við þennan helv**** heimsfaraldur. Hann er orðinn mjög þreyttur.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er fær pastagerðarmaður.
Mesta afrek í lífinu: Það er erfitt að meta hvað telst til afreka, en ég var mjög stoltur þegar ég tryggði körfuboltaliði FSu sigurinn í úrslitakeppni 1. deildarinnar árið 2008, sem gaf liðinu sæti í úrvalsdeildinni.
Lífsmottó: Þetta reddast (mjög svo íslenskt mottó).
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Forvitnin í mér langar meira í framtíðina en fortíðina. Ég væri til í að fara ca. 100 ár fram í tímann og sjá hvernig heimurinn lítur út. Náum við að „redda“ öllum þeim vandamálum sem herja á heiminn í dag?
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ætla að borða góðan mat með góðum vinum.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinBarbára framlengir út 2022
Næsta greinÁrborg styrkir HSÍ vegna HM