Tónlistarkonan Karitas Harpa Davíðsdóttir hefur svo sannarlega staðið í stórræðum síðustu vikurnar. Hún fagnaði þrítugsafmæli þann 15. janúar síðastliðinn og fjórum dögum seinna ól hún sitt þriðja barn. Sama dag kom fyrsta sólóplata hennar út á streymisveitum en hún nefnist On the Verge. Plötunni hefur verið tekið virkilega vel en hún er að sögn söngkonunnar  persónulegt ferðalag þar sem skiptist á skin og skúrir eins og í lífinu sjálfu.

Fullt nafn: Karitas Harpa Davíðsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 15. janúar 1991 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Maki: Aron Leví Beck (31 árs). Börn: Ómar Elí Fannarsson (6 ára), Hrafn Leví Beck (20 mánaða) og Bogey Lóa Beck (2 vikna).
Menntun: Málabraut Fjölbrautaskóla Suðurlands 2011 og Hússtjórnarskólinn í Reykjavík 2013.
Atvinna: Tónlistarkona.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég les svo skammarlega lítið bækur, ætli Harry Potter serían hafi ekki verið síðustu bækurnar sem ég las af innlifun. Það eru ekki nema svona 16 ár síðan, vandræðalegt.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Framboðið er orðið alltof mikið til að hægt sé að velja eitthvað eitt, en þessa daga er ég með The Office í spilun.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ætli ég myndi ekki segja Hringadróttinssaga, trílógían – sagan geggjuð, leikurinn góður, tónlistin fáránlega góð og myndatakan trufluð.
Te eða kaffi: Kaffi á daginn, te á kvöldin.
Uppáhalds árstími: Fyrir ferðalög innanlands: sumarið. Fyrir ferðalög erlendis: vorið. Mest kósý: haustið. Hátíðlegastur: veturinn.
Besta líkamsræktin: Ég er mikið að vinna með að eiga tvö börn undir tveggja ára æfingarnar þessa daga, mjög effektíf hreyfing.
Hvaða rétt ertu best að elda: Súpur og sósur, er mikil súpukona.
Við hvað ertu hrædd: Að mistakast.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Það fer í raun allt eftir börnunum mínum, getur verið allt á bilinu 05:30 og 08:00.
Hvað gerir þú til að slaka á: Kveiki á kertum og reykelsi, föndra eða skrifa og nýt þagnarinnar.
Hvað finnst þér vanmetið: Góður svefn og einvera.
En ofmetið: Áhrifavaldar.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ég ætla að verða kóngur klár.
Besta lyktin: Klór eða sko, sundlykt eða sko, lyktin af þurrum sundfötum eða, er það skrítið?
Bað eða sturta: Ég hef ekki búið í húsi með baði síðan ég var 14 ára svo ég man varla hvernig sú upplifun er, en mér finnst mjög gott að setjast á sturtubotninn – þar finn ég mínar bestu hugmyndir.
Leiðinlegasta húsverkið: Þvotturinn eða til að vera nákvæmari – það að ganga frá þvottinum. Ég safna hreinum þvotti í stórar og góðar hrúgur víðsvegar um húsið – mjög smart.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að einlægni skín skærast og njóta litlu hlutanna.
Nátthrafn eða morgunhani: Allavega alls ekki morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Santorini á Grikklandi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar einhver segir „víst að“. Það er aldrei rétt að segja „víst að“.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég man aldrei nein svona atvik, ég veit ekki hvort það sé vegna þess að ég lendi aldrei í neyðarlegum atvikum EÐA ég reyni að grafa þau langt niður í hyldýpi hugans – annars reyni ég að hlæja sem mest í neyðarlegum aðstæðum eða meira kannski að þeim… eftir á.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Mig langaði alltaf að vera söngkona, ég tók samt stutt tímabil þar sem ég vildi verða innanhúsarkítekt. Ég held ég hafi haldið að það væri raunsærra að láta það rætast, ætli ég hafi ekki einmitt verið hrædd við það að mistakast.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Kærasti minn Aron Leví og vinkona mín Fanney Svansdóttir, saman eru þau síðan alveg banvænn kokteill.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag, hver þá: Kannski fyrrum Bandaríkjaforseti, Donald Trump, og þá hreinlega til að átta mig á því hvað gengur á í höfðinu á honum.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram, notendanafn: karitasharpa – fylgið mér!
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi ég slökkva á internetinu.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Mér leiðast borðspil.
Mesta afrek í lífinu: Þrjár meðgöngur, mér finnst ekkert svakalega gaman að vera ólétt.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Fram í tímann, bara til að sjá hvort allt sé með feldu. Er of forvitin til að fara aftur í tímann og upplifa eitthvað sem er þegar búið!
Lífsmottó: Ég reyni að vinna á hræðslu minni um að mistakast með því að tyggja ofan í mig að það sé betra að prófa og mistakast en að prófa ekki og sjá eftir því.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég geri ekki ráð fyrir því að sofa út allavega. Kannski baka ég köku eða fer ein í búðina.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinSterkur útisigur Þórsara
Næsta greinHarður árekstur á Selfossi