Daði Rafnsson frá Bræðrabóli í Ölfusi hefur verið ráðinn yfirmaður knattspyrnuþróunar hjá HK í Kópavogi. Daði tekur að sér ráðgjöf og verkefnastjórn sem miðar að því að leita tækifæri til að lyfta knattspyrnudeild HK í hóp öflugasta deilda landsins. Þess má geta að Daði sá um liðinn Sunnlendingur vikunnar í Sunnlenska fréttablaðinu um nokkurt skeið og hann ætti því að fara létt með að svara eftirfarandi spurningum.

Fullt nafn: Daði Rafnsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 17. febrúar 1976 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Giftur Thelmu Hrönn Sigurdórsdóttur og við eigum þriggja ára dóttur.
Menntun: Er í doktorsnámi í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Ýmsar gráður frá FSu, Bandaríkjunum og Háskóla Íslands.
Atvinna: Ég er fagstjóri Afrekssviðs Menntaskólans í Kópavogi. Samhliða er ég yfirmaður knattspyrnuþróunar hjá HK, stundakennari við HR og kennari á þjálfaranámskeiðum KSÍ.
Besta bók sem þú hefur lesið: Nýlega las ég Eyland eftir Sigríði Hagalín og hún situr fast eftir. Thinking fast and slow eftir Daniel Kahneman er líka að trufla mig á jákvæðan hátt þessa dagana.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Sökk ofan í Line of Duty og The Last Dance á árinu. Drama, spenna og Michael Jordan.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Dóttir mín hefur sannað það að ég geti horft á Frozen aftur og aftur og aftur…
Te eða kaffi: Tvöfaldur espresso 2x á dag. Hvorki meira né minna.
Uppáhalds árstími: Ég tel mig vera ættleiddan frá suðrænni slóðum en Ölfusinu. Þrífst vel í sól.
Besta líkamsræktin: Góður hjólatúr á sumarkvöldi.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Geri betra Sesarsalat en sjálfur Sesar, laxa-tagliatelle sem bragð er af og næsta verkefni er önd í appelsínudjús.
Við hvað ertu hræddur: Kóngulær og Mariah Carey.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Misjafnt. Er A týpa í líkama B týpu.
Hvað gerir þú til að slaka á: Skil ekki…
Hvað finnst þér vanmetið: Að við skulum á þessari stundu þjóta á 30 km hraða á sekúndu í kringum sólina.
En ofmetið: Brynjuís.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Barfly er vandræðalega grípandi…
Besta lyktin: Það er hvítlauksbrauð á veitingastað sem heitir O’Charleys í bænum Lebanon í Tennessee sem er þess virði að skella sér í langferð fyrir.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Það voru stór tímamót að eignast uppþvottavél um árið.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Alma í Nylon hringdi einu sinni í mig með ansi góða uppástungu.
Nátthrafn eða morgunhani: Bæði betra.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Mér líður vel við Mexíkóflóa og í Ölfusinu.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Alls konar hlutir sem eiga ekki að fara í taugarnar á neinum. Til dæmis að vera ávarpaður sem „kjallinn“ eða fólk sem er með sólgleraugu á hausnum en ekki fyrir augunum heldur svona beint upp, og, já, það er alveg glatað að vera svona.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég kvartaði yfir að vera illt í hendinni svona korteri eftir fæðingu dóttur okkar.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Atvinnumaður í fótbolta. Varð það svo loksins eftir að ég hætti að spila.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Hannes af Hjarðarbóli.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Forstöðumaður kínversku sóttvarnarstofnunarinnar 29. desember 2019. Útaf svotlu sem þurfti að tækla.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Þyrfti að fá mér Nokia 6110 til að skoða Twitter sjaldnar.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi panta fund í Hvíta húsinu. Ekki þessu á Selfossi.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Árið 2012 var ég með mynd af Hangover-leikaranum Ed Helms í prófíl á Facebook í fleiri vikur þegar það var tvífaraleikur í gangi á forritinu. Það vissi enginn að ég hefði tekið þátt en það er hér með fært til bókar.
Mesta afrek í lífinu: Að fara eftir uppástungu Ölmu í Nylon.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Eitthvert þar sem pabbi, afar og ömmur væru samankomin og njóta.
Lífsmottó: Þetta reddast!
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ég ætlaði að klára að mála húsið mitt þegar stytti upp. Það var um miðjan ágúst. Kannski er þetta helgin.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

 

 

 

 

Fyrri greinLögreglan hemlaprófaði vörubíla við Skeiðavegamót
Næsta greinEldur í klæðningu hjá MS