Félagsmiðstöðin Zelsíuz í Árborg hóf í sumar verkefnið Flakkandi Zelsíuz en markmið þess er að mæta ungmennum þar sem þau eru stödd. Sérstök áhersla verður lögð á viðveru á bæjarhátíðum þar sem mikilvægt er að bjóða ungmennum upp á jákvæða og styðjandi nærveru. Guðmunda Bergsdóttir er forstöðumaður Zelsíuz og segir hún mikilvægt að foreldrar fylgist með útivistartíma barna sinna og að íbúar láti sig hlutina varða nú á Kótelettuhelginni.

Fullt nafn: Guðmunda Bergsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fædd 29. júní 1997 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Ég er einhleyp og bý á Selfossi.
Hverra manna ertu: Mamma mín er Ásdís Finnsdóttir kennari frá Reykjavík og pabbi minn er Bergur Ingi Ólafsson fyrrum bóndi frá Hjálmholti í Flóahrepp.
Menntun: Ég er búin með BA í tómstunda- og félagsmálafræði og er núna í MS í verkefnastjórnun.
Atvinna: Forstöðumaður Frístundahúsa Árborgar, það er félagsmiðstöðin Zelsíuz, Pakkhúsið ungmennahús og Vinnuskóli Árborgar.
Besta bók sem þú hefur lesið: Þetta er mjög erfið spurning, ég elska að lesa og les mjög mikið. Síðasta bók sem ég las er Releasing 10 eftir Chloe Walsh þannig hún er ofarlega í huga. The Song of Achilles eftir Madeline Miller og Harry Potter bækurnar eru einnig á toppnum.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég á líka smá erfitt með að velja þetta en topp 3 eru Ted Lasso, Succession og Severance.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: She’s The Man allan daginn. Síðan er ég mikill Harry Potter aðdáandi og gæti horft á þær myndir endalaust.
Te eða kaffi: Ég myndi segja hvorugt. Ég drekk þó stundum ískaffi þannig ætli ég segi ekki bara kaffi.
Uppáhalds árstími: Seinni hluti sumars hefur alltaf verið uppáhalds. Þá er ég oftast í sumarfríi og farin að hlakka til haustsins og að byrja að vinna aftur.
Besta líkamsræktin: Ég elska að mæta á æfingar í Box800.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég er enginn kokkur en ég er góð í að elda kjúklingarétt frá mömmu sem við köllum kjúlli í rauðu sósunni.
Við hvað ertu hrædd: Ég er mjög hrædd við geitunga.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Á sumrin er ég að vakna klukkan 7 en á veturna er ég að fara á fætur um klukkan 9.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég kem mér vel fyrir með Kindle-inn minn og les góða bók.
Hvað finnst þér vanmetið: Soðin ýsa.
En ofmetið: BBQ sósa er ofmetið dæmi.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ætli það sé ekki Young Nazareth remix útgáfan af Slæmir Ávanar með Birni.
Besta lyktin: Ég hugsa að það sé grilllykt eða lyktin af nýbakaðri köku.
Bað eða sturta: Ég er nýlega komin á bað-vagninn.
Leiðinlegasta húsverkið: Mér finnst leiðinlegast að ryksuga.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Þú þarft ekki að gera allt núna, það er líka mikilvægt að eiga tíma fyrir sjálfan sig.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég er algjör nátthrafn. Ég á svo erfitt með að vakna á morgnana
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ég fór síðasta sumar til Antigua sem er eyja í karabíska hafinu. Það er fallegasti staður sem ég hef komið til. Ég elska strendur og sjóinn, strendurnar þar eru virkilega fallegar.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar að fólk tekur ekki ábyrgð á gjörðum sínum.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég er alltaf að lenda í einhverju vandræðalegu en það sem ég hugsa fyrst um er þegar ég hafði einu sinni sett símann minn ólæstan í vasann og þegar ég dreg hann upp úr vasanum að þá var ég búin að tagga tíu manns í brúðkaupsmynd hjá fólki sem ég þekki lítið.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði lengi að vera lögfræðingur.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Þeir eru tveir sem deila þessum titli það eru Alexander Freyr Olgeirsson og Arnar Helgi Magnússon.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Hefðu þið spurt mig fyrir þremur árum væri svarið Elísabet Bretlandsdrottning. Hún lifði í gegnum marga merka viðburði og hitti mikið af merkilegu og áhugaverðu fólki.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég er aðallega á Instagram eða TikTok.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi lögbinda félagsmiðstöðvar.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er með gangráð.
Mesta afrek í lífinu: Stýra félagsmiðstöð sem var sú fyrsta til að hljóta íslensku menntaverðlaunin fyrir framúrskarandi þróunarstarf.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég væri til í að ferðast aftur í tímann og sjá hvernig og af hverju Stonehenge var gert.
Lífsmottó: You do you.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Á föstudaginn ætla ég að kíkja á Kótelettuna og á laugardaginn verð ég síðan á vakt í flakkandi Zelsíuz þar sem við verðum með barnavernd og samfélagslöggunni á Kótelettusvæðinu að huga að unga fólkinu okkar.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinFlugveisla á Hellu um helgina
Næsta greinSelfyssingar sjóðheitir í Kótelettuleiknum