Bessi Theodórsson hjá Sonus viðburðum er framkvæmdastjóri fjölskyldu- og bæjarhátíðarinnar Flúðir um Versló sem fer nú fram í fimmta skiptið. Bessi hefur haft í mörg horn að líta á síðustu vikum við að undirbúa hátíðina en mikið verður um dýrðir á Flúðum um helgina og er dagskráin umfram allt miðuð við að fjölskyldan komi saman og skemmti sér.

Fullt nafn: Bergsveinn Breiðfjörð Theodórsson, oftast kallaður Bessi.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég fæddist 6.desember 1982 (Hef samt verið að segjast vera ’86 módel lengi, finnst ég púlla það vel). Fæddur á Selfossi en var kominn heim á Hvolsvöll fljótlega. Þar hélt ég svo til fram undir aldamót og fór þá bara aftur á Selfoss. Uni mér vel hér.
Fjölskylduhagir: Ég er lukkulegur pabbi tveggja stórkostlegra drengja. Baltasar Breiðfjörð fæddur í nóvember 2012, sem er sonur Önnu Margrétar og svo Eysteinn Breiðfjörð fæddur í janúar 2019 og hann á ég með henni Ragnhildi Stefaníu.
Menntun: Leik- grunn- & gagnfræðaskóli á Hvolsvelli. Fjölbraut á Selfossi og örstutt stopp í Borgarholtsskóla. Þá leit ég við í háskólanum á Hólum til að kynna mér aðeins ferðamál og viðburðastjórn.
Atvinna: Stofnaði viburðafyrirtækið Sonus árið 2008 og hafði það sem hliðarverkefni með öðrum störfum allt fram til 2014. Síðan þá hef ég einbeitt mér að Sonus í verkefna- og viðburðastjórn. Samhliða því hef ég undanfarið verið að leiðsegja hjá fyrirtækinu Katlatrack sem stórvinur minn Guðjón frá Pétursey og Sæunn hans ekta spúsa, reka af myndarskap. Ég fór að keyra ferðamenn upp að og inn í Kötlujökul að skoða íshella, sprungur, fossa og allan þann undra heim sem jökullinn er.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég er ferlegur sökker fyrir Dan Brown og gríp óþarflega reglulega í bækurnar hans. En lestur bókmennta um leynireglur, dulin skilaboð og lausn flókinna gátna hefur svolítið vikið fyrir barnabókum síðustu misseri. Sem er jákvætt svosem. Það heldur manni ungum. Til dæmis höfum við Baltasar verið að sökkva okkur í Star Wars lestur. En einnig líkar mér við bækur Hugleiks Dagssonar, þó það teljist sennilega tæplega til lesturs.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Sko, þetta er ósanngjörn spurning. Ómögulegt að svara þessu! Hinsvegar verð ég að nefna eitthvern af þessum bresku panel þáttum, 8 af hverjum 10 köttum, QI og CountDown. Þar er Would I Lie To You langbestur. Svo horfi ég mikið á Brooklyn 99, Rick & Morty, Family Guy og How it’s made.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Það var eitt sinn Get Shorty. Var bara eitthvað svo töff, og tónlistin í henni var geggjuð. En er ekki réttast að nefna bara Sódóma Reykjavík sem er besta kvikmynd Íslandssögunnar.
Te eða kaffi: Það er gaman frá því að segja að ég vann um árabil hjá fyrirtækinu Te & Kaffi við að selja kaffihúsum, hótelum og skrifstofum kaffi. Þegar ég byrjaði þar drakk ég ekki kaffi en þegar ég hætti voru 6-8 bollar fyrir hádegi ekkert óeðlilegt. Hef verið mikill kaffikall síðan. Enda er svartur uppáhellingur allra meina bót.
Uppáhalds árstími: Vorið er alltaf spennandi, þá er mikið um að vera alltaf og undirbúningur fyrir viðburðaríkt sumar að hefjast hjá Sonus. Annars geri ég ekki upp á milli árstíða. Það eru stundirnar sem gefa lífinu lit og gæðastundir henda hvenær sem er ársins.
Besta líkamsræktin: Veit ekki hversu tvírætt þetta spjall má vera svo ég segi fjall- og jöklagöngur, þá er maður allavega að fara eitthvað. Annars er ég ekki besti maðurinn til að leita ráðlegginga með líkamsrækt Gummi minn. Nema þú mættir gera meira, eins og ég.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég geri grimma eðlu. Og er nokkuð liðtækur við grillið. Minn „signature“ diskur gæti samt verið carbonara pasta….. úr pakka.
Við hvað ertu hræddur: Bragðlausan mat.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég er oftast nær vaknaður fyrir sjö. Sem er bölvað vesen afþví ég er B-týpa. En get alveg notið þess að dorma uppí bæli ef ekkert liggur fyrir.
Hvað gerir þú til að slaka á: Skelli góðum heyrnatólum á eyrun, loka augum og hlusta á Veru Illugadóttur segja mér magnaða sögu. Einnig er gott að slaka á á Lambhústúninu, sem er jörð fjölskyldunnar í Fljótshlíð.
Hvað finnst þér vanmetið: Dagdrykkja. Byrja snemma, hætta snemma!
En ofmetið: Ofmetnaður.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Það eru svo mörg skemmtileg lög til og ég á ekkert uppáhalds, hlusta á allan fjandann. Þessa dagana er eitt til dæmis á rípíd. Þar sem Delvon Lamarr og orgel tríó hans flytja gamla Curtis Mayfield lagið Move on up. Þetta er lifandi flutningur frá 2017. Einstaklega gleðjandi.
Besta lyktin: Getur maður gert upp á milli „ný slegið gras-lykt“, „eftir góðan rigningarskúr-lykt” eða „kaffi í flugvél-lykt”? Ég veit ekki… Grasið er ofarlega.
Bað eða sturta: Ég er ekki með baðkar svo sturta er málið, hinsvegar er ég hæfileikaríkur baðari… bubblur, olíur og góð tónlist.
Leiðinlegasta húsverkið: Það þarf að sinna þessu helvíti öllu en skúringar hafa sennilega sísta afþreyingargildið.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: „Versti dauðdaginn er að deyja ráðalaus“. Þetta ráð gaf pabbi mér og ég fylgi því, engin vandamál bara lausnir.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég er nátthrafn, sem er einmitt bögg afþví að ég er vaknaður snemma alla jafna.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Fram kom í Mogganum á dögunum að Þórsmörk sé fallegasti staður sem ég hef komið á, svo ég verð að halda mig við það.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Mitt eigið skipulagsleysi
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Sem betur F%$# fer er ég einstaklega gleyminn svo öll neyðarleg atvik sem hafa hent mig, en þar er örugglega um stóran katalóg að ræða, hefur að mestu verið máður úr minni mínu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég hef örugglega ætlað að verða uppfinningarmaður á einhverjum tíma. Ég var eeeendalaust að brasa eitthvað í bílskúrnum í gamla daga, smíða einhverjar tilgangslausar vélar.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Mér finnst Lee Mack vera fyndnasti maður í veröldinni. Og fleiri góðir úr UK deildinni. Ef við skoðum nærumhverfið þá er ég nær undantekningalaust með hláturharðsperrur eftir kvöldstund eða helgi með strákunum í Á Móti Sól.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Það er svo mikið talað um tungllendinguna þessa dagana og ég er gersamlega heillaður af þessu öllu saman og þetta er mér ofarlega í huga. Ég hefði verið til í að vera Neil Armstrong þegar hann steig á tunglið og bara fá að fylgjast með í þessum leiðangri.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég er miðaldra svo það er Facebook… Instagram kemur svo þar á eftir. Hef ekki náð að byrja á Twitter, held að ég gæti verið góður tvítari samt. Hvernig er það eru allir hættir á MySpace?
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi sennilega búa svo um hnútana að mannkynið myndi fara huga að hlýnun jarðar og bregðast við. Þetta er svo miklu miklu stærra mál en þeir sem ráða heiminum vilja viðurkenna. Kannski þarf bara að losa heiminn við stjórnmál og trúarbrögð alfarið. Ég held að við værum betur sett.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er merkilega liðugur, þó ég sé ekki mikið fyrir að blása í mína eigin lúðra.
Mesta afrek í lífinu: Það er klisja en drengirnir mínir eru mín mestu afrek. Að öðrum börnum ólöstuðum þá eru strákarnir mínir lang bestir.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég er mikið að rúnta með ferðamenn í kringum Hjörleifshöfða og segi þá oftar en ekki sögur af Hjörleifi og fóstbróðir hans Ingólfi. Held að það væri gaman að fara og upplifa landnámið. Þetta hafa verið miklar raunir en krefjandi og skemmtilegt. Samt þetta er tvíeggjað sverð, mig langar ekki að ég verði höggvinn í herðar niður.
Lífsmottó: Ég reyni að vera betri maður í dag en ég var í gær. Held að það sé gott mottó, bæta sjálfan sig.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Helgin fer svona helst í það að halda sér í jafnvægi. Ég er að standa fyrir fallegu hátíðinni minni Flúðir um Versló. Ég er að halda þessa hátíð núna í fimmta skiptið og við erum búin að fullkomna formúluna, gnægð afþreyingar fyrir alla fjölskylduna alla helgina. Mæli með fyrir lesendur að þeir smelli HÉR og fara þar inn á Facebook síðu hátíðarinnar. Þar eru allar upplýsingar um dagskrána. Það er bara sannur heiður að fá að vera Sunnlendingurinn þessa vikuna og ég hlakka til að sjá ykkur öll um helgina á Flúðum.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinAlli Murphy í Selfoss
Næsta greinVegagerðin semur við Þjótanda um Reykjaveg