Bjórhátíð Ölverks verður haldin í fyrsta skipti næstkomandi laugardag í gróðurhúsi við Þelamörk í Hveragerði. Laufey Sif Lárusdóttir, framkvæmdastjóri og plöntuhvíslari, hefur staðið í ströngu síðustu vikur við undirbúning hátíðarinnar. Það verður mikið um dýrðir á hátíðinni en átján brugghús munu kynna framleiðslu sína og má búast við mikilli gleði fram á kvöld.

Fullt nafn: Laufey Sif Lárusdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 28. október 1986 í Reykjavík en uppalin í Hveragerði.
Fjölskylduhagir: Trúlofuð Elvari Þrastsyni og saman eigum við Harald Fróða f. 2013 og Steingrím Darra f. 2016.
Menntun: BSc. í umhverfisskipulagsfræðum, diplóma í stafrænni markaðssetningu frá HR. Svo útskrifaðist ég líka úr Hússtjórnunarskólanum á Hallormsstað.
Atvinna: Framkvæmdastjóri og plöntuhvíslari hjá Ölverk Pizza & brugghús í Hveragerði. Svo sinni ég hinum ýmsu trúnaðarstörfum í frítímanum.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ina May´s Guide to Childbirth en sú fæðingarfræði sem Ina May Gaskin boðar skipti sköpum fyrir mig þegar kom að fæðingu sona minna.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Breskir glæpaþættir og Landinn!
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: The Holiday.
Te eða kaffi: Miðað við hversu unaðsleg lyktin er af kaffi þá er alveg óskiljanlegt hversu vondur drykkur það er svo ég vel te allan daginn.
Uppáhalds árstími: Haustin – eftir annasöm sumur finnst mér afar kærkomið að fá tímabil þar sem það er hægt að hugsa, fókusa og skipuleggja svolítið.
Besta líkamsræktin: Sund og glasalyftingar.
Hvaða rétt ertu best að elda: Einu sinni fannst mér ég alveg eiga mínar sterku hliðar í eldhúsinu en svo kynntist ég manninum mínum sem lifir og hrærist í matar- og bjórgerð svo núna spila ég aðallega aukahlutverk í eldhúsinu, kem með við og við með góðar uppstungur að réttum en stend mig þokkalega í fráganginum.
Við hvað ertu hrædd: Áhyggjurnar eru margar en ætli ég sé ekki hræddust við ófrið í heiminum. Finn fyrir lamandi hræðslu en í senn þakklæti fyrir núverandi ástand og það að hafa fæðst hér á Íslandi þegar ég hef sökkt mér of djúpt inn í hin ýmsu alsheimsvandamál.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Allur gangur á því en ég er mikil B manneskja.
Hvað gerir þú til að slaka á: Mesta slökunin er fólgin í því að vera ekki með símann nálægt sér og vera til staðar með mínum nánustu. Svo finnst mér líka rosalega róandi að gleyma mér í því að týna arfa og snyrta til í garðinum.
Hvað finnst þér vanmetið: Bananar á pizzur.
En ofmetið: Sólböð.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Are you gonna go my way með Lenny Kravitz og ég vil sjá einhvern kröftugan tónleikahaldara taka það að sér að vinna í því að fá Lenny Kravitz til landsins.
Besta lyktin: Lavender.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Það að brjóta saman þvott.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Hugaðu vel að eigin líkama, huga og sál.
Nátthrafn eða morgunhani: Mikill nátthrafn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Hér-lendis Landmannalaugar, erlendis saltslétturnar í Bólívíu.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Dónaskapur og frekja.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Var á bakpokaferðalagi um Indland og neyddist til þess að ferðast langa leið í rútu þar sem farþegafjöldinn var örugglega þrefaldur yfir það sem leyfilegt var og í þokkabót var ég með New Delhi magakveisu. Ég stóð mig framan af ferðalaginu afar hetjulega miðað við aðstæður en almáttugur þegar ég þurfti að gera mig skiljanlega við bílstjórann og alla farþegana þar sem engin skyldi ensku um að núna strax þyrftu þau að stoppa rútuna. Ég svo hoppaði úr rútunni, út á miðja sléttuna með ferðasalernisrúlluna, bakvið lítinn runna og með fulla rútu af áhugasömum áhorfendum sem vildu alls ekki missa af þessu sjónarspili. Ég hef sem sagt fulla samúð með sumum þeirra ferðamanna sem hingað koma til landsins og lenda í svipuðum atvikum við svipaðar aðstæður og ég í Indlandi um árið.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Hamingjusöm.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Synir mínir og Kolbeinn og Magnús Kristinssynir.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Donald Trump; hvað ætli maðurinn sé að hugsa svona dags daglega?
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Margir miðlar sem koma til greina en ætli það sé ekki Facebook en fast á eftir er það Instagram, Snapchat og Twitter.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég smella saman fingrum og stöðva hlýnun jarðar og svo myndi ég líka lækka áfengisgjaldið og heimila almenna sölu á handverksbjór beint frá framleiðendum.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er jafnvíg á báðum höndum.
Mesta afrek í lífinu: Að hafa fætt tvo heilbrigða syni.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Þótt mér líði afskaplega vel í núinu þá væri afar forvitnilegt að fá að að sjá 100 ár inn í framtíðina og sjá hvað það er sem bíður komandi kynslóða.
Lífsmottó: The way to get started is to quit talking and begin doing.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Á laugardaginn má sjá mig í góðu skapi á bjórhátíð Ölverks sem fer fram í gróðurhúsi hér í Hveragerði 5. október en á þeim degi fagnar Ölverk brugghús 2 ára afmæli sínu. Það stefnir allt í afar skemmtilega hátíð og ættu áhugsamir að tryggja sér miða sem fyrst áður en það verður hreinlega uppselt.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinGuðmundur Tyrfingsson ehf 50 ára
Næsta grein„Réttur tími fyrir okkur báðar“