Bjarni Harðarson, rithöfundur, bókaútgefandi og bóksali á Selfossi, hefur í nógu að snúast þessa dagana enda er bókin alltaf vinsæl jólagjöf. Bókaútgáfa Bjarna, Sæmundur, gefur út þrjátíu bækur á þessu ári og meðal þeirra er bókin Í Gullhreppum eftir Bjarna sjálfan. Bóksalinn sér ekki fram á náðuga daga fyrir jól, heldur verður hann á kafi í vinnu, en ætlar að reyna að finna sér tíma til þess að komast í fjallgöngu.

Fullt nafn: Bjarni Harðarson.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fæddur í Árnýjarhúsi í Hveragerði á jóladag 1961.
Fjölskylduhagir: Kvæntur Elínu Gunnlaugsdóttur, á fjögur uppkomin börn og þrjú barnabörn.
Menntun: Ég er stúdent og hef svo aðeins gutlað í háskóla.
Atvinna: Rithöfundur, bókaútgefandi og bóksali.
Besta bók sem þú hefur lesið: Það er bara sú bók sem ég er að lesa hverju sinni, núna var ég í þriðja sinn að ljúka við Haustgotasögu sem er eftir vin minn séra Guðmund Óla heitinn í Skálholti og hún verður í uppáhaldi um sinn.
Uppáhaldssjónvarpsþáttur: Dýrðlingurinn með Simon Templar var minnir mig mjög góður þáttur en eftir að litasjónvarpið kom hefur þessu auðvitað öllu farið aftur.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Púff, ég horfi mjög lítið á bíómyndir. Er stundum til í að setjast niður yfir glæpaþáttum með Elínu minni en þá mega þeir ekki vera lengri en klukkutími. Ég má aldrei vera að svona glápi.
Te eða kaffi: Til skiptis. Áður drakk ég tugi kaffibolla á dag en með aldri hef ég orðið að minnka kaffiþambið.
Uppáhalds árstími: Það er tími náttleysunnar.
Besta líkamsræktin: Rölta um Ingólfsfjall.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Indverskan baunarétt sem ég lærði að elda úti í eyðimörk í Indlandi fyrir áratugum síðan.
Við hvað ertu hræddur: Mennina.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Það er óreglulegt.
Hvað gerir þú til að slaka á: Sit yfir bók og vindlum.
Hvað finnst þér vanmetið: Þögnin.
En ofmetið: Peningar.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Jón var kræfur karl sungið af Tómasi heitnum Tómassyni.
Besta lyktin: Lyktin af vorinu gleður mig.
Bað eða sturta: Bað eða öllu heldur kerlaug, sturtur eru bara fyrir masókista.
Leiðinlegasta húsverkið: Tína upp bækurnar sem liggja alltaf eins og hráviði út um allt hús.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: „Lifðu einföldu lífi,“ sagði bóndinn Ram Singh í Jullundur í Punjap. Ég hef vitaskuld ekkert farið eftir þessu en man samt alltaf þetta heilræði sem var gefið af alhug og kærleika.
Nátthrafn eða morgunhani: Það er bara svoldið misjafnt.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þeir eru margir en mýrarskurðurinn í Langasundi heima í Tungunum er mér hugstæður. Hann er eitt af sjö undrum veraldar enda eru vatnaskil í honum miðjum sem er örugglega algert einsdæmi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Það að ég verð stundum pirraður og læt hluti fara í taugarnar á mér.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Uss, ég svara nú ekki svona vitleysu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Bjarni afi minn kenndi mér að vera skrýtinn og lengi langaði mig bara til að verða eins og hann … og langar það eiginlega enn.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Þeir eru þrír og heita Kári, Valur og Bjarni, langfyndnastir allra manna enda sonarsynir mínir og það keppir enginn við þá.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá (og afhverju): Kringimennið Þórður prestur í Reykjadal hefur átt hug minn undanfarin ár enda var ég að skrifa bók um hann. Ég myndi nota tækifærið til að messa ærlega yfir lýðnum.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Fésbókina.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég fela mig og slökkva á símanum.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég held að allir viti allt um mig … og þó, sumum kemur kannski á óvart að ég er eiginlega stórreykingamaður og svæli vindla öll kvöld í hreinum og klárum unaði nautnabelgsins.
Mesta afrek í lífinu: Að ná í hana Elínu auðvitað!
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég færi líklega aftur um hundrað ár að hitta langafa minn Sæmund bónda í Garðsauka í Hvolhreppi en bókaútgáfan mín dregur nafn sitt af þessum karli sem er mér hugstæður. Ég leiðrétti samt engan sem telur útgáfuna draga nafn af Sæmundi fróða í Odda enda voru þetta eiginlega sveitungar og frændur, þessir Sæmundar.
Lífsmottó: Æi, ég trúi ekki á svoleiðis, lífsmottó minna mig alltaf á patentlausnir.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Vinna og fara svo kannski í fjallgöngu og gufu með Elínu.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinSóknarleikurinn allsráðandi í sigurleik
Næsta greinHúsleitir á sex stöðum í Rangárvallasýslu – Tveir handteknir