Anna María Friðgeirsdóttir er fyrirliði meistaraflokks Selfoss í knattspyrnu sem tryggði sér bikarmeistaratitilinn um síðustu helgi með 2:1 sigri á KR í framlengdum leik. Það var mikil stemmning þegar Anna María og félagar komu með bikarinn yfir brúna á laugardagskvöldið en þetta er í fyrsta skipti sem meistaraflokkur frá Selfossi vinnur stóran titil í knattspyrnu. Aðeins eru tíu ár síðan meistaraflokkur kvenna var endurvakinn á Selfossi.

Fullt nafn: Anna María Friðgeirsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Fædd á Selfossi 25. júlí 1991.
Fjölskylduhagir: Ógift og barnlaus.
Menntun: Er að læra málvísindi og sálfræði við Háskóla Íslands.
Atvinna: Fótboltakona og aðstoðarverkstjóri á bílaverkstæðinu hjá pabba þegar tími gefst til.
Besta bók sem þú hefur lesið: Harry Potter bækurnar, allar, því maður gerir ekki upp á milli barnanna sinna.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég held mikið upp á Suits og Big Bang Theory.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Lion King. Ég horfi á hana reglulega enn þann dag í dag með systursyni mínum og veit ekki hvort okkar hefur meira gaman að.
Te eða kaffi: Kaffi.
Uppáhalds árstími: Sumarið.
Besta líkamsræktin: Fótbolti.
Hvaða rétt ertu best að elda: Úff, þeir eru nokkrir. Vinkonur mínar eru allavega alltaf til í að koma í mat ef ég elda lax þannig ætli það sé ekki bara ágætis mælikvarði.
Við hvað ertu hrædd: Ég er hrikalega lofthrædd.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Yfirleitt upp úr klukkan sjö, aðeins seinna um helgar.
Hvað gerir þú til að slaka á: Á erfitt með að slaka á, en finnst stundum gott að vera    sófaklessa yfir enska boltanum og NFL á sunnudögum.
Hvað finnst þér vanmetið: Kokteilsósa með pizzu.
En ofmetið: Kóladrykkir.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Selfoss er með Sniglabandinu, ekki hægt að sleppa því að syngja með.
Besta lyktin: Af nýslegnu grasi á vorin.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Að ganga frá þvottinum.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Meistari Einar Øder Magnússon sagði einu sinni við mig „Ef þú kannt ekki að tapa áttu ekki skilið að vinna.” Og það er klárlega besta ráð sem einhver hefur gefið mér.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Róm.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Ótillitsemi.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég reif buxurnar mínar við að gera fimleikatrix á Ítalíu. Það var neyðarlegt, bæði vegna þess að ég kann ekki neitt að gera fimleika trix, og vegna þess að það vantaði klofið í buxurnar mínar.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Mig langaði alltaf að verða tannlæknir.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Erna Guðjónsdóttir getur verið ansi fyndin.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Sko, ég hef mikinn áhuga á því að vita hvað er í gangi í kollinum á Kanye West. Er hann bara að spila með okkur, er    hann í alvörunni svona stórskrítinn, eða er hann kannski bara snillingur að spila með okkur öll? Þannig ætli ég myndi ekki velja að vera Kanye West í einn dag.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi senda alla íbúa heimsins í ruslatínslu og hreinsun sjávar.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er mjög snertifælin.
Mesta afrek í lífinu: Að verða bikarmeistari með liðinu mínu síðustu helgi
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi vilja ferðast fram í tímann um svona 100 ár og sjá hvort jörðin verði til og hvernig lífið verði þá.
Lífsmottó: Njóta augnabliksins, það kemur ekki aftur.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Fara á Akureyri og vinna Þór/KA.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinHulda Dís og Henriette bestar
Næsta greinNýliðakynning í Hveragerði í kvöld