Selfyssingurinn Ægir Óskar Gunnarson opnaði á dögunum ljósmyndasýningu í Listagjánni í Bókasafni Árborgar á Selfossi undir yfirskriftinni Hafið er svart. Þar sýnir Ægir Óskar myndir sem hann hefur tekið á sínum sjómannsferli en myndaröðin var valin besta myndaröðin í ljósmyndakeppni Morgunblaðsins og 200 mílna. Myndirnar á sýningunni eru til sölu með uppboðsleið og verður allur ágóði gefin óskiptur til Kvenfélagsins Hringsins.

Fullt nafn: Ægir Óskar Gunnarsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 6. desember 1987 á Selfossi, sama mánaðardag og þriðji forseti Íslands Kristján Eldjárn.
Fjölskylduhagir: Trúlofaður Andreu Ýr Grímsdóttur. Saman eigum við þrjú börn, þau Anítu Ósk 12 ára, Grím Örn 7 ára og Elísabetu Söru 5 ára.
Menntun: Stúdent, vélfræðingur og rafvirki.
Atvinna: Fyrsti vélstjóri á frystitogaranum Hrafn Sveinbjarnarson GK-255.
Besta bók sem þú hefur lesið: Það er mjög erfitt að gera upp á milli þessara tveggja en þær eru Háski í hafi – kafbátur í sjónmáli eftir Illuga Jökulsson og Þjóð í hafti eftir Jakob F. Ásgeirsson. Ég mæli eindregið með þeim báðum.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Stiklur með Ómari Ragnarsyni og Vestmannaeyjaserían Sigla himinfley. Hvort tveggja meistaraverk íslenskra þáttaraða.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Dúfnahólar 10. Það er ekki hægt að horfa nógu oft á Sódóma Reykjavík.
Te eða kaffi: Togara kaffi!
Uppáhalds árstími: Það er ekkert sem toppar gott íslenskt sumar.
Besta líkamsræktin: Gönguferðir og ferðalög um Ísland, landið okkar allra með fjölskyldunni
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Allan mat sem fer á grillið.
Við hvað ertu hræddur: Vinstri slagsíðu!
Klukkan hvað ferðu á fætur: Á slaginu 06:00 en það er breytingum háð eins og allt annað í lífinu.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég stunda laxveiði og ég ferðast innanlands og erlendis með minni heittelskuðu og skyttunum okkar þremur.
Hvað finnst þér vanmetið: Að almennt séð er fólk gott í sér og vill náunganum vel.
En ofmetið: Skattar og tollar.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Gaggó Vest með Eiríki Legend Haukssyni.
Besta lyktin: Nýslegin tún í heyskap.
Bað eða sturta: Sturta alla morgna.
Leiðinlegasta húsverkið: Það er ekki til neitt leiðinlegt, það er allt skemmtilegt!
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: „Ægir þú tekur lán í þeirri mynt sem þú vinnur þér inn fyrir.“ Þetta sagði faðir minn Gunnar Egilsson við mig þegar ég var að kaupa mína fyrstu fasteign árið 2008.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn. Á meðan laufin sofa þá vaka spaðarnir.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Gjáin í Þjórsárdal. Það er samt eitthvað ótrúlega heillandi við Eyjafjöllin.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Óréttlæti gagnvart einstaklingum, ungum sem öldnum.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég fékk mér kríu í lazyboy stólnum inná fæðingardeild þegar við vorum að koma með okkar þriðja barn og ljósmóðirin vakti mig með því að kalla „RÆS, konan þín er að eiga barn hérna!“ Það var nokkuð augljóst að allar ljósmæður á fæðingardeild Landspítalans fréttu af þessu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Skipstjóri en endaði á því að verða vélstjóri.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Það mun vera minn besti vinur og maki hún Andrea Ýr Grímsdóttir. Hún er með afgerandi góðan húmor.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Það verður að vera hún Andrea Ýr Grímsdóttir. Ég bara neita að trúa því að ég sé virkilega svona erfiður heima fyrir.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook en ég nota þá alla frekar jafnt bara í misjafna hluti.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi leyfa öllum að hafa frelsi til að ákveða sín eigin örlög eftir að ég myndi eyða hungri og vosbúð í heiminum.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég hef mjög gaman af tölvuleikjum og fylgist vel með hvað er að gerast í nýjustu tækni í þeim heimi.
Mesta afrek í lífinu: Að vera svo heppinn með maka og skytturnar okkar þrjár.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi vilja fara til ársins 1918 þegar Ísland varð fyrst fullvalda ríki og finna stemninguna í landanum við þau risavöxnu tímamót þjóðarinnar.
Lífsmottó: Ég á mér tvö lífsmottó; „Kirkjugarðar landsins eru fullir af ómissandi fólki“ og „Dekur við dauða hluti er dulbúið sálarmorð.“
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Þegar þetta er ritað þá verð ég djúpt norður af Langanesi á grálúðuveiðum en næstu helgi þar á eftir mun ég taka móti gestum og gangandi frá kl 10-14, laugardaginn 3. september á ljósmyndasýningu sem ég er með í Bókasafni Árborgar til styrktar Kvenfélagi Hringsins. Sýningin ber nafnið Hafið er svart. Í kjölfarið munum við feðgarnir fara á hreindýraveiðar á Austurlandi en ég fékk minn fyrsta hreyntarf í ár. Líf og fjör.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinEngin tilboð bárust í tvö verk á vegum Árborgar
Næsta greinEitt mark Adams dugði ekki til