Selfyssingurinn Bjarni Már Stefánsson er dúx Fjölbrautaskóla Suðurlands á vorönn 2022 en í maí brautskráðust 128 nemendur frá skólanum. Bjarni Már fékk meðal annars sérstaka viðurkenningu fyrir námsárangur frá Hollvarðasamtökum skólans. Eftir vel heppnaða útskriftarferð til Spánar er Bjarni Már búinn að setjast niður og svara spurningunum sem fylgja því að vera Sunnlendingur vikunnar.

Fullt nafn: Bjarni Már Stefánsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég fæddist 30. mars árið 2003 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Foreldrar mínir eru þau Stefán Már Símonarson og Sigríður Erlingsdóttir. Ég á tvær eldri systur, þær Guðrúnu Láru, Ólöfu Maríu og einn yngri bróður, Daníel Má.
Menntun: Stúdent af náttúrufræðibraut FSu.
Atvinna: Ég er skrítin blanda af gjaldkera og hænsnabónda. Gjaldkeri hjá Íslandsbanka og hænsnabóndi hjá Nesbúeggjum.
Besta bók sem þú hefur lesið: Harry Potter og eldbikarinn.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Bandaríska útgáfan af The Office eða Malcolm in the Middle.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Franska myndin Intouchables, frábær blanda af gamanleik og dramatík sem ég verð aldrei þreyttur á.
Te eða kaffi: Kakó.
Uppáhalds árstími: Vetur, elska snjóinn!
Besta líkamsræktin: Fimleikaæfing.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Cheerios og mjólk.
Við hvað ertu hræddur: Ég er skíthræddur við geitunga, þeir hafa stungið mig oft.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Þessa stundina vakna ég korter í átta eða korter yfir sjö.
Hvað gerir þú til að slaka á: Sund, elska það!
Hvað finnst þér vanmetið: Kjöt í karri.
En ofmetið: Sushi.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Sleikar og sleggjur með meisturunum í Koppafeiti.
Besta lyktin: Grilllykt.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Þrífa af hillum, veit fátt leiðinlegra.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Einbeittu þér að því sem þú getur haft áhrif á, ekki eyða orku í það sem þú getur ekki breytt.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég hluti af mikilli morgunhanafjölskyldu og er engin undantekning (mögulega hjálpar hænsnabóndinn í mér eitthvað).
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ábyggilega Fimmvörðuháls, gekk hann með skólanum.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Fólk sem kvartar yfir öllu!
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég lenti einu sinni í “random check“ á frönskum flugvelli og tollvörðurinn gaf mér merki um að rétta fram lófana svo hann gæti leitað af einhverjum efnum á mér. Ég misskildi þó merki hans eitthvað og þannig að ég hélt að hann væri bara að biðja um tíu og auðvitað fékk hann tíuna sem hann „bað“ um.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Í leikskóla vildi ég alltaf verða myndlistamaður en það breyttist síðar í arkítekt, uppfinningamann, hvalafræðing og margt annað skemmtilegt.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Daníel bróðir minn.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Elísabet bretadrottning, er svo forvitinn að vita hvernig dagur í lífi hennar er en myndi vilja láta þennan eina dag duga.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram en á það til að gleyma mér á YouTube.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Stöðva öll stríð.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Hvað ég get étið mikið.
Mesta afrek í lífinu: Ég svara eins og Ólöf systir mín þegar hún var Sunnlendingur vikunnar, að ég á enn eftir að afreka það.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi ferðast til Forn-Egyptalands (með nóg af sólarvörn) og fylgjast með því þegar pýramídarnir voru byggðir.
Lífsmottó: Þú uppskerð eins og þú sáir.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ég er að fara á Akureyri á útskrift Guðrúnar systur, sem er að útskrifast sem hjúkrunarfræðingur úr HA.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinDramatískt jafntefli gegn Skautafélaginu
Næsta greinOpið hús á hjá RARIK á Hvolsvelli