Hvergerðingurinn Gísli Freyr Sigurðsson sigraði í söngkeppni Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands á dögunum. Gísli Freyr steig á stokk með hljómsveit sinni, Slysh, og flutti frumsamið lag, Ready Set Go. Auk þess að sigra var atriðið valið frumlegasta atriði keppninnar. Gísli Freyr verður fulltrúi FSu í Söngkeppni framhaldsskólanna í apríl næstkomandi.

Fullt nafn: Gísli Freyr Sigurðsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fæddur árið 2007, þann 12. nóvember í Danmörku.
Fjölskylduhagir: Ég og fjölskyldan mín erum stödd í Hveragerði og lifum frekar einföldu lífi þar.
Hverra manna ertu: Móðir mín heitir Kristín Eir Helgadóttir og faðir minn heitir Sigurður Hrafn Þorkelsson.
Menntun: Ég er í námi í Fjölbrautaskóla Suðurlands eins og stendur.
Atvinna: Ég vinn í Bónus með skólanum.
Besta bók sem þú hefur lesið: Besta bók sem ég hef lesið er stutt bók sem heitir The Moon Spinners.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Brooklyn 99.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: The Dirt. Það er mynd um hljómsveitina Mötley Crüe og ég hef örugglega horft á hana hátt í tuttugu sinnum.
Te eða kaffi: Kaffi allan daginn, mig vantar koffínið.
Uppáhalds árstími: Haustið, vegna þess að það er svo dimmt og fallegt.
Besta líkamsræktin: World Class.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Það ætti ekki að hleypa mér nálægt eldhúsi, nema ef þú vilt brenna það.
Við hvað ertu hræddur: Að missa þá sem ég elska.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég fer á fætur klukkan 7 á virkum dögum, og klukkan 10 um helgar.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég spila á gítar til þess að slaka á og dreifa huganum.
Hvað finnst þér vanmetið: Hljómsveitin Slysh.
En ofmetið: Taylor Swift.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Það eru þrjú lög sem koma mer alltaf í stuð. Domination með Pantera, Dancing on Glass með Mötley Crüe, og King for a Day með Pierce The Veil.
Besta lyktin: Enskt lavender.
Bað eða sturta: Sturta allan daginn.
Leiðinlegasta húsverkið: Það er ömurlega leiðinlegt að skúra.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Skítt með það hvað öðrum finnst, svo lengi sem þú ert ánægður með hlutina.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn, er svolítill fýlupúki á morgnana.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Karmø í Noregi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Fólk sem smjattar.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Að eiga ekkert Pepsi Max til.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði að verða söngvari og ég stend við það nú til dags.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Olivia kærastan mín, besti vinur minn Björgvin og ég.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég nota Snapchat og Instagram langmest.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi aldrei vilja vera alvaldur vegna þess að það tekur allt sem er sérstakt við lífið í burtu.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég hef allt öðruvísi álit á lífið en flestir og mér finnst að við ættum að njóta þess að vera til, sama hversu erfitt eða slæmt það verður, vegna þess að maður fær aldrei góðu stundirnar aftur þegar það er farið.
Mesta afrek í lífinu: Að ná hljómsveitinni saman og spila fyrir fólk uppi á sviði lögin sem við erum búnir að leggja í hjörtu okkar og tár til að búa til.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég þori ekki að leika mér með tíma.
Lífsmottó: Fólk hlær að mér af því að ég er öðruvísi, en ég hlæ að þeim vegna þess að þau eru öll eins.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Hitta kærustuna og taka því rólega.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinML sveitin sigraði á HSK mótinu
Næsta greinStigasöfnun Selfoss og Hrunamanna gengur illa