Selfyssingurinn Ása Ninna Pétursdóttir var í síðustu viku útnefnd Sjónvarpsmanneskja ársins 2024 þegar Íslensku sjónvarpsverðlaunin voru veitt í fyrsta skipti. Ekki nóg með það, heldur voru þættirnir hennar, Sveitarómantík, valdir bestu sjónvarpsþættir ársins 2024 í flokki menningar- og mannlífsefnis.
Fullt nafn: Ása Ninna Pétursdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 16. ágúst 1980. Fæddist í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Í sambúð með Árna Braga Hjaltasyni og á þrjú yndisleg börn. Patrek Thor 22 ára, Kormák Krumma 18 ára og Matthíu 6 ára.
Hverra manna ertu: Móðir mín heitir Sigurbjörg Grétarsdóttir og pabbi minn Pétur Þormóðsson.
Menntun: Ég er menntaður fatahönnuður.
Atvinna: Ætli ég myndi ekki titla mig sem fjölmiðlakonu og hönnuð. En í dag þá vinn ég sjálfstætt og er í allskonar ólíkum verkefnum. Ég hef yfirleitt alltaf verið með einhver hönnunarverkefni á borðinu eins og innanhússhönnun eða ráðgjöf og svo tek ég líka að mér markaðsmál. En þessa dagana er ég líka að bralla svolítið spennandi sem vonandi kemur í ljós bráðlega. Ég elska nýjar áskoranir og vil ekki festast of lengi í sömu hjólförunum.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég elska að lesa bækur og gleyma mér í öðrum heimi en núna síðustu ár þá hef ég hlustað meira á bækur en það hentar mér einstaklega vel á flakki í bíl milli Selfoss og Reykjavíkur. Ég elska ævisögur og íslenska krimma og hef lesið bækurnar þeirra Yrsu, Arnaldar og Ragnars upp til agna. Nýverið byrjaði ég að lesa bækurnar hennar Lilju Sigurðardóttur og varð mjög heilluð. En ef ég má bara velja eina bók verð ég að nefna bókina Karítas án titils eftir Kristínu Marju.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Má ég segja minn? Djók. Ég elska að horfa á íslenskt sjónvarpsefni og finnst aðeins snúið að velja eitthvað eitt. En Verbúðin er án efa eitt besta íslenska sjónvarpsefni sem hefur verið gert að mínu mati. Svo fannst mér þættirnir um Vígdísi stórkostlega vel gerðir og leiknir.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ætli ég verði ekki að nefna tvær mjög ólíkar myndir, Pulp Fiction og Dirty Dancing. Dirty Dancing var mynd sem ég fékk alvarlega á heilann þegar ég var yngri og gæti líklega þulið hana alla upp. Það er bara eitthvað við Pulp Fiction sem ég dýrka, þó að ég sé yfirleitt viðkvæm fyrir ofbeldismyndum. Finnst hún bara svo svöl.
Te eða kaffi: Kaffi allan tímann. En mig langar svo að vera þessi te týpa sem er alltaf að pæla í einhverjum jurtum og er voðalega zenuð. En ég hef ekki náð því enn. Uppáhalds kaffið mitt núna er Dirty Chai latte á Konungskaffi. Sem er að sjálfsögðu uppáhalds kaffihúsið mitt.
Uppáhalds árstími: Ég elska árstíðaskiptin og er mikil haustkona. Þá fer ég alltaf í svo mikinn pepp gír. Þegar litirnir breytast og það byrjar að dimma fyrr. Það er eitthvað svo töfrandi við þann tíma og birtan svo falleg.
Besta líkamsræktin: Án efa jógatímarnir hjá Silju vinkonu minni, sem á og rekur Konungskaffi. Þeir vita það sem hafa prófað að fara til hennar að það er eitthvað extra sem hún gefur af sér í þessum tímum. Ég verð alltaf svo montin að fylgjast með henni kenna, því hún hefur svo góð og róandi áhrif á alla í kringum sig. Maður kemur alltaf betri manneskja út.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ætli það hafi ekki verið tómatpastað mitt en síðan ég kynntist manninum mínum fyrir um sjö árum hefur mér eiginlega verið bolað út úr eldhúsinu, réttilega svo sem, þar sem hann er mikill kokkur og elskar að elda. En ég geri yfirleitt alltaf bröns um helgar og hendi í mjólkur- og glútenlausar banana- og hafrapönnukökur.
Við hvað ertu hrædd: Fyrir utan það sem allir óttast, að missa sína nánustu eða veikindi, þá er það líklega að missa þann eiginleika að láta mig dreyma og gleðjast. Andleg heilsa er svo mikilvæg og maður þarf alltaf að vera meðvitaður um að hlúa vel að henni.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Yfirleitt um sjö leytið.
Hvað gerir þú til að slaka á: Mér finnst eitthvað mjög róandi að raða hlutum og skipuleggja heima, sem er kannski skrítin leið til að slaka á en ég finn einhverja ró í því og sérstaklega þegar ég næ að kúpla mig alveg út og hlusta á eitthvað. Annars er ganga úti í náttúrunni og baðstund með kertaljós líka ofarlega á þessum lista.
Hvað finnst þér vanmetið: EGILS GRAPE – Uppáhalds drykkurinn minn. Hvet lesendur til að prófa það aftur. Ekkert er meira svalandi en Egils grape með klökum.
En ofmetið: Trufflur! Þær eru alveg fínar en herre gud hvað það er mikill óþarfi að sprúðla þeim út um allt og á allan mat.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Love Will Save the Day með Whitney Houston!
Besta lyktin: Lyktin af börnunum mínum nýfæddum. Það er líklega ekkert sem toppar það. Annars er ég með mjög næmt lyktarskyn og pæli mikið í ilmvötnum og allskonar lykt. Lykt og ilmur hafa mikil áhrif á stemningu og líðan, miklu meira en margir gera sér grein fyrir held ég. Besta lyktin heima er þó án efa lyktin af matnum sem minn heittelskaði eldar. Hann er meistarakokkur og er öll fjölskyldan með mikla matarást á honum.
Bað eða sturta: Bæði betra, má segja það? Sumir myndu eflaust segja að ég væri smá sturtusjúk en ég veit að það er ekki gott fyrir líkamann að baða sig oft á dag þó að ég freistist stundum til þess. Ég get ekki farið út í daginn án þess að fara í sturtu og svo finnst mér algjör draumur að fara í heitt bað fyrir háttinn.
Leiðinlegasta húsverkið: Fara út með ruslið! Sem er auðvitað galið því fátt er eins einfalt og að vippa sér út með ruslið. En þegar ég hugsa um það þá er þetta líklega það húsverk sem ég bið aðra fjölskyldumeðlimi oftast að gera. Fyrir utan það þá finnst mér yfirleitt frekar notalegt að hafa góðan tíma heima og dúlla mér í húsverkunum. Ég elska að hafa allt hreint og fínt og á það til að endurraða öllu í stærstu þrifunum.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Það var yndislegur sálfræðingur sem ég var hjá um tíma sem ráðlagði mér að „fresta“ öllum samtölum eða erfiðum hugsunum sem koma eftir klukkan tíu á kvöldin til morguns. Að gefa þeim öllum frí og muna að maður er líklegri til að flækja hlutina eða mikla þá meira fyrir sér á kvöldin. Ég hef reynt að fylgja þessu og skrifa þá frekar niður það sem ég er að pæla og set þá á dagskrá morguninn eftir. Stundum er þetta snúið en það verða yfirleitt flest vandamál auðveldari í morgunsárið og ég sé hlutina skýrar.
Nátthrafn eða morgunhani: Ætli ég sé ekki frekar A týpa þó að kannski síðustu ár sé þetta eitthvað pínulítið að breytast. En morgnarnir eru klárlega minn uppáhalds tími. Kaffi, kertaljós og rólegheit áður en dagurinn byrjar.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ítölsku og frönsku alparnir.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Ókurteisi! Ég get ekki undirstrikað það nóg hvað það fer í mig. Það er svo lítið mál að sýna kurteisi og öðru fólki athygli. Ég fæ stundum kvíðakast yfir því að hafa gleymt að þakka fyrir mig eða hafa ekki verið nógu kurteis því að ég veit hvað þetta getur haft mikil áhrif.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ætli það sé ekki efni í annað viðtal en ég get verið ansi klaufsk og utan við mig svo að listinn er langur og erfitt að velja eitthvað eitt. Ég sendi til dæmis nýverið alla launaseðlana mína á Flísabúðina þegar ég var að panta flísar. Ekki spyrja mig hvernig það gerðist, en ég ætlaði að senda honum myndir af flísum. Eigandinn var svo góður að bjalla í mig til að ég vissi af þessu svo að ég væri nú ekki að senda þá út um hvippinn og hvappinn.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Þegar ég hugsa til baka þá kemur ekkert eitt í hugann því ég hef alla tíð verið mikil draumóramanneskja. Ég var alltaf með einhvern leyndan draum um dans og einhvers konar listsköpun. Ætli ég hafi ekki haft alla draumana.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Katla Margrét leikkona. Mér finnst hún bæði ein fyndnasta leikkonan og svo fer ég alltaf að hlæja þegar hún opnar munninn.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi vilja vera Gling Gló í Pétur Pan og uppfylla drauma allra.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Líklega Instagram en er aðeins farin að mjaka mér yfir á TikTok. Auðvitað er þetta orðið stórhættulegt hvað síminn og samfélagsmiðlar eru farnir að gleypa mikinn tíma frá okkur og reyni ég að vera meðvituð um það, leggja hann frá mér og kúpla mig út.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég bjarga öllum börnum sem þurfa hjálp, ást og umhyggju og veita þeim skjól.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er með mjög svo fáránlega fóbíu. Það má helst ekki koma við eyrun á mér og ég á mjög erfitt með að snerta eyru, eins furðulegt og það er.
Mesta afrek í lífinu: Fyrir utan það að koma yndislegu börnunum mínum í heiminn þá er líklega mitt mesta afrek að fylgja draumunum mínum eftir og gefast ekki upp. Ég hef undanfarin ár tekið stór skref í þeim málum og gengið fast á eftir því að láta hugmyndirnar mínar verða að veruleika.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Þetta hef ég oft hugsað og óskað mér. Ég myndi gera allt til að geta farið aftur í tímann til ömmu minnar og afa. Bæði föður og móður megin. Ég eyddi miklum tíma með þeim og tel mig hafa verið afar heppna með allar góðu stundirnar sem ég upplifði með þeim. Mig dreymir oft bara um að finna lyktina af þeim aftur og geta sagt þeim hvað þau voru mér mikils virði.
Lífsmottó: Kannski klisja en að koma fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig. Svo finnst mér líka mikilvægt að læra að meta mistökin sín og læra af þeim. Þau eru yfirleitt besti skólinn.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Elda bröns heima hjá mér fyrir börnin mín, halda áfram aðeins í endalausu framkvæmdunum heima hjá mér og slaka vel á.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

