Jóhannes Hreiðar Símonarson var á dögunum ráðinn framkvæmdastjóri Auðhumlu svf. og hóf hann störf nú um mánaðamótin. Auðhumla, sem er móðurfélag Mjólkursamsölunnar, er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt. Jóhannes er Sunnlendingur vikunnar.

Fullt nafn: Jóhannes Hreiðar Símonarson.
Fæðingardagur, ár og staður: 24. ágúst 1973 á Sauðárkróki.
Fjölskylduhagir: Ég er kvæntur Helgu Sigurðardóttur, bókara hjá Búnaðarsambandi Suðurlands og saman eigum við þrjú börn; Sigurð Andra f. 1998, Ingibjörgu Hugrúnu f. 2002 og Auði Sesselju f. 2006.
Menntun: Formlega menntunin er BSc. í búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands og tvær diplómur frá Háskóla Íslands, annars vegar í viðskipta- og rekstrarfræðum og hins vegar í opinberri stjórnsýslu. Svo hafa ýmis styttri námskeið og lífið almennt kennt mér ýmislegt.
Atvinna: Ég hóf störf sem framkvæmdastjóri Auðhumlu svf. 1. febrúar.
Besta bók sem þú hefur lesið: Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson. Bók sem skilur mikið eftir sig og ætti að vera skyldulesning í framhaldsskólum landsins.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Castle.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Die Hard myndirnar, ég fæ bara ekki leið á þeim.
Te eða kaffi: Kaffi.
Uppáhalds árstími: Sumarið þegar trén eru fulllaufguð og allur gróður er í blóma.
Besta líkamsræktin: Góðir göngutúrar, helst úr alfaraleið.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Almennt er eldamennska ekki mín sterka hlið en ég er ágætur á grillinu.
Við hvað ertu hræddur: Hnerrann í konunni og syninum. Þeir koma alltaf án viðvörunnar.
Klukkan hvað ferðu á fætur: 06:45.
Hvað gerir þú til að slaka á: Glápi á einhverja sjónvarpsþætti sem þarfnast ekki mikillar athygli.
Hvað finnst þér vanmetið: Heiðarleiki og trúmennska.
En ofmetið: Hipp hopp og rapp„tónlist“.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Long Train Running með The Doobie Brothers kemur kallinum alltaf í gang.
Besta lyktin: Nýslegið gras.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Brjóta saman þvott. Geri það bara helst ekki. Ég þríf frekar klósettin á heimilinu.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Fermingarversið mitt; „Vertu trúr allt til dauða og Guð mun gefa þér kórónu lífsins“. Hef reynt að fylgja þessu ráði síðan.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég hef alltaf verið nátthrafn í eðli mínu og berst við það eðli mitt á hverjum morgni. Hefur þó heldur lagast með aldrinum.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Heimahagarnir í Skagafirði eru mér hjartfólgnastir og ekkert toppar útsýnið af útsýnisstaðnum Bjargi heima í Ketu. Ef ég á að nefna eitthvað meira hlutlaust get ég nefnt staði eins og Arnarstapa, Djúpavog og Lónsöræfin. Sannar náttúruperlur.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Óheiðarleiki og tvöfeldni.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég spurði eitt sinn konu sem ég þekkti ekki sérlega vel hvenær hún ætti von á sér. Hún reyndist bara alls ekki vera ólétt. Það voru mistök sem ég vona að ég geri ekki aftur.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Kúabóndi, þyrluflugmaður og söngvari. Fæst af því hefur nú reyndar ræst.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Mér finnst Gísli Einarsson alltaf óborganlega fyndinn einstaklingur.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég er nú þokkalega sáttur í eigin skinni en það væri upplifun að fá að vera Pavarotti einn dag þegar hann var upp á sitt besta og söng á Metropolitan. Einstakur söngvari.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi ég vinna í þessu með hungursneyðina.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég sef alltaf í ullarsokkum.
Mesta afrek í lífinu: Börnin mín án nokkurs vafa. Þau sýna mér á hverjum degi að ég hafi verið til einhvers gagns.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Til baka þegar ég var 12 ára peyi heima í sveitinni. Nógu stór til að geta gert flest það sem mig langaði en nógu ungur til að þurfa ekki að bera fulla ábyrgð á því sem ég gerði.
Lífsmottó: Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég ásamt einvalaliði sveitunga í gömlu Hraungerðis- og Sandvíkurhreppum stöndum fyrir þorrablóti í Þingborg laugardagskvöldið 4. febrúar. Ætli að helgin muni ekki meira og minna snúast um þann viðburð.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinTveir í röð hjá Þórsurum
Næsta grein„Það er ekkert í boði að slá af“