Frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir var í síðustu viku útnefnd íþróttakona  Héraðssambandsins Skarphéðins árið 2019. Fjóla Signý var fulltrúi Íslands á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi 2019 þar sem hún kom heim með tvö gullverðlaun, annars vegar fyrir 400 m grindahlaup og hins vegar var hún í sigursveit Íslands í 4×400 m hlaupi. Fjóla Signý varð einnig Íslandsmeistari í sjöþraut utanhúss árið 2019 og héraðsmeistari í fjölmörgum greinum, bæði innan- og utanhúss.

Fullt nafn: Fjóla Signý Hannesdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Fædd á Selfossi 21. desember 1989, á dimmasta degi ársins.
Fjölskylduhagir: Í sambúð með Jóni Steinari Sandholt og við eigum 3 ára Árdísi Lóu.
Menntun: B.s í viðskiptafræði.
Atvinna: Framkvæmdastjóri heildverslunar Run 2, ásamt því að vera rófubóndi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Pollýanna.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég horfi rosalega lítið á sjónvarp en Game of Thrones eru mjög góðir.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Pursuit of Happiness, Coach Carter, Lion King.
Te eða kaffi: Te… jurtate. Drekk helst ekki koffín, þá verð ég eins og íkorninn í Rauðhettu bíómyndinni.
Uppáhalds árstími: Vorið, dagurinn fer að lengjast og allt lifnar við eftir veturinn. Allt og allir fyllast af orku.
Besta líkamsræktin: Hreyfing + vinkona. Vera bara úti að leika. Mér finnst alveg æðislegt að fara í fjallgöngur og vera út í náttúrunni með góðri vinkonu.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég er betri í að baka en elda en pizza hefur alltaf verið uppáhaldi. Það er líka samverustund að græja pizzuna, allir geta hjálpað til. Nýjasta æðið er að grilla súrdeigspizzu.
Við hvað ertu hrædd: Að missa einhvern nákominn.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Yfirleitt á milli 7 og 7:30. Stundum 6:15 fyrir morgunæfingar og sef út til 9.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer í sund eða eitthvert í frí. Þarf að fara burt frá öllum verkefnunum sem bíða heima.
Hvað finnst þér vanmetið: Svefn, reyndar er mikið búið að tala um mikilvægi svefns undanfarið. Þá næst á eftir er ást og umhyggja sem við sýnum börnum. Það er ekki hægt að knúsa börn of mikið.
En ofmetið: Peningar.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Það fer eftir því í hvaða stuð ég þarf að koma mér í. En Sail með Awolnation peppar mig alltaf upp og kveikir á þrautseigjunni og baráttunni í að halda áfram sterk og ákveðin.
Besta lyktin: Af náttúrunni, lyktin af trjánum, gróðri, blómum í hreinu og fersku lofti.
Bað eða sturta: Bað allan daginn, nauðsynlegt fyrir minn viðkvæma líkama að fara í heitt bað og mýkja allt upp.
Leiðinlegasta húsverkið: Fara út með ruslið og vaska upp.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Óbeint ráð – Don’t Worry Be Happy. Ég var í klemmu í æfingabúðum um páskana 2009. Þá var ég búin að fá vinnu í álverinu í vaktavinnu um sumarið. Ég mundi fá vel útborgað (og ég átti engan pening) en það mundi aldrei passa ef ég ætlaði að ná einhverjum árangri í frjálsum. Þá kom lagið Don’t Worry Be Happy á lagalistanum hjá mér og frá þessu augnabliki hef ég lifað eftir því. Ekki hafa áhyggjur, maður á að gera það sem gerir mann hamingjusaman og ánægðan. Þvílíkur léttir, ég sagði upp vinnunni og seldi rabarbara, orma og annað til að eiga fyrir keppnisferðum. Mér var sama að þurfa að borða mjög oft hafragraut, grjónagraut og geta ekki keypt mér ný föt – því mig meira langaði að ná árangri í frjálsum. Ég komst í fyrsta skipti í A-landsliðið sama sumar.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani! Ég er ekki í sambandi á kvöldin og langar oft að fara bara að sofa á sama tíma og stelpan mín upp úr klukkan 20! Ég reyni yfirleitt að hanga til 22.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Interlagen í Sviss.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Virðingaleysi.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Það var á meistaramóti innanhús þegar ég var 15 ára. Þetta var fyrsta mót sem ég keppti á eftir að hafa slitið liðband í ökklanum. Það forfölluðust svo margar úr boðhlaupssveitinni að ég varð að hlaupa ef við ætluðum að vera með sveit. Ég var stressuð fyrir því þar sem ég var ekki alveg farin að treysta ökklanum – ég hljóp og hugsaði um að passa ökklann allan tímann þar til ég afhendi keflið til næsta hlaupara. Um leið og hún tók við keflinu missteig ég mig og datt aftan á hana og rann svo áfram á brautinni á maganum … með þeim afleiðingum að hlaupabuxurnar runnu niður á hné … að voru ALLIR að horfa enda boðhlaupið sú grein sem fær mest áhorf enda, mikil stemming og spenna.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði alltaf að verða leikkona, alveg þangað til að hlutverk fóru að stangast of mikið á við keppnir, þá setti ég það á bið. Ég trúi því að ég get verið hvað sem ég vil verða, ég geri það sem mér finnst skemmtilegt. Mér finnst bara eiginlega allt skemmtilegt, haha.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Líklega Gummi bróðir, hann er alltaf til í að rugla og bulla með mér, sem endar yfirleitt í einhverju hláturskasti þar sem ég næ ekki andanum.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Norski 400m grindahlauparinn Karsten Warholm sem á heimsmetið í greininni. Hann er algjör snillingur þrátt fyrir að vera orðin algjör rokkstjarna. Ég hitti hann fyrir ári síðan og hann var ótrúlega almennilegur. Ég væri til í að vera hann og prófa að geta hlaupið á þessum rugl hraða og lifað lífi heimsklassa íþróttamanns.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Er ekki mikið að fylgjast með neinu en Instagram stendur uppúr, skemmtilegt og fljótlegt að skoða myndir af því sem fólkið í kringum mann er að gera.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Skipa öllum að taka sér frí og gefa sér góðan tíma í samveru með uppáhaldsfólkinu sínu.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Að ég hef þurft á ákveðnum tímabilum að glíma við mikinn kvíða frá því ég var barn. Einnig áfallastreituröskun síðustu 13 ár. Fæstum dettur það í hug því ég er almennt glöð og jákvæð – en það er líka það sem kemur mér áfram í lífinu.
Mesta afrek í lífinu: Ég er stolt alla daga af dóttur minni, mér finnst algjörlega magnað að geta skapað aðra mannveru. Mesta íþróttaafrekið mitt er að vinna smáþjóðleikatitilinn í fyrra. Ég er stolt af mörgum afrekum sem ég hef náð, þar sem fagaðilar hafa ítrekað sagt að ég geti ekki gert það sem ég ætla mér en ég gerði það samt. Eins og koma mér í form eftir að hafa veikst alvarlega af einkirningssótt 2008, krassaði illa komin með vefjagigt átti ég að hætta í íþróttum 2014, átti ekki að geta klárað háskólann með lokaritgerð á ensku útaf lesblindu 2013 og fleira.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Erfið spurning, líklega aftur í tímann og fara á tónleika með Freddie Mercury og Queen.
Lífsmottó: Don’t Worry Be Happy.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Halda uppá afmæli með hótelferð með Jóni og vinna í rófunum í sveitinni.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinDímon sigraði stigakeppni félaganna
Næsta greinAnna Björk í frönsku deildina