Laugardaginn 23. ágúst fer fram hin árlega sveitahátíð Grímsævintýri á Borg í Grímsnesi. Kvenfélag Grímsnesshrepps hefur veg og vanda af hátíðinni, sem hefur glatt gesti og gangandi síðustu áratugi. Hápunktur Grímsævintýra er tombóla kvenfélagsins, sem hefur verið ómissandi hluti af félagslífi í hreppnum frá árinu 1926. Sandra Gunnarsdóttir er formaður kvenfélagsins.

Fullt nafn: Sandra Gunnarsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 12. apríl 1958 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Ég er gift Pétri Hallgrímssyni. Börnin eru þrjú og barnabörnin eru fimmtán talsins.
Hverra manna ertu: Ég sleit barnsskónum í Reykjavík. Faðir minn var Gunnar Jóhannesson, útvarpsvirki og björgunarsveitarmaður og móðir mín Rósa Sigurðardóttir var leikkona og verslunarmaður.
Menntun: Ég lauk landsprófi frá Réttarholtsskóla og fór svo í MS en kláraði ekki og þá tók við skóli lífsins.
Atvinna: Ég var lengi heimavinnandi húsmóðir með þrjú börn, starfaði svo lengi sem stuðningsfulltrúi í skóla en síðasta starf mitt var framkvæmdastjóri Tiger Ísland ehf. Í dag er ég bara að njóta lífsins.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég held að uppáhaldsbókin mín sé Að drepa hermikráku eftir Harper Lee.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Í dag held ég að ég verði að segja Yellowstone.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég horfi á The Holiday á hverjum jólum.
Te eða kaffi: Algjörlega kaffi þó ég drekki ekki mikið af því. Elska gott latte.
Uppáhalds árstími: Ég á erfitt með að gera upp á móti sumars og hausts, elska sumarið þegar allt er að springa út en svo haustið þegar grænmetisuppskeran er og haustlitirnir í allri sinni dýrð.
Besta líkamsræktin: Göngutúrar eru í uppáhaldi hjá mér.
Hvaða rétt ertu best að elda: Kalkúnninn og allt sem honum fylgir og þá sérstaklega fyllingin slær alltaf í gegn hjá fjölskyldunni.
Við hvað ertu hrædd: Ég hata mýs og rottur.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég vinn best á morgnana svo ég fer oftast á fætur fyrir klukkan átta.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég slaka best af með prjónana í höndunum.
Hvað finnst þér vanmetið: Tími með fjölskyldu og vinum.
En ofmetið: Samfélagsmiðlar.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Gott country og þá helst með Alan Jackson.
Besta lyktin: Lyktin af nýslegnu grasi.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Úff, að þrífa klósettið.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að taka einn dag í einu.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ég elska yfirleitt íslenska náttúru en Þórsmörk er í algjöru uppáhaldi hjá mér.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Ég reyni yfirleitt að láta ekki mikið fara í taugarnar á mér.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Í gagnfræðaskóla þegar mér var svo flökurt í tíma og náði ekki að komast fram á klósett áður en gusan kom.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ekki enn búin að ákveða það en þegar ég var í sveit sem unglingur var ég ákveðin í að verða bóndi.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Erla María, vinkona mín. Hún segir svo skemmtilegar sögur af sjálfri sér.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég veit ekki en væri kannski til í að setja mig í spor fatlaðrar manneskju, andlega og/eða líkamlega, til að sjá hversu erfitt líf þeirra er.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Stoppa stríð og taka af hungursneyð í heiminum.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Þegar ég bjó í USA var ég lengi þjálfari í sippuíþróttum.
Mesta afrek í lífinu: Að ala upp börnin mín til að vera góðar manneskjur.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Kannski aftur í tímann og sjá hvernig aðstæður fólks voru á Íslandi þegar það bjó í torfhúsum og hafði ekki þau þægindi sem við höfum í dag.
Lífsmottó: Að ákveða að dagurinn í dag verði góður dagur.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Vera á Grímsævintýrum á Borg í Grímsnesi.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri grein„Það geta allir plokkað eitthvað smá“
Næsta greinSelfoss upp í 1. deildina