Ingunn Jónsdóttir í Hallanda í Flóahreppi hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands frá og með ágúst næstkomandi. Ingunn tekur við starfinu af Sigurði Sigursveinssyni, sem gegnt hefur starfinu undanfarin 12 ár en lætur nú af störfum vegna aldurs.

Fullt nafn: Ingunn Jónsdóttir – í höfuðið á föðurömmu minni.
Fæðingardagur, ár og staður: 29. mars 1976 og alin upp að mestu í vesturbæ Kópavogs.
Fjölskylduhagir: Giftist Gaflaranum Magnúsi St. á síðustu öld og á með honum þrjá unglinga; rifum upp höfuðborgarræturnar fyrir um 13 árum og unum hag okkar vel í Flóanum.
Menntun: Vöruhönnuður frá LHÍ og Verkefnastjóri MPM frá HR auk þess að hafa bætt við mig kúrsum í mannauðsstjórnun Opna HR ásamt því að fikta við Opinbera stjórnsýslu í HÍ.
Atvinna: Tek við sem framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands í ágúst næstkomandi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Get ekki sagt að einhver ein sé best þar sem bækur ná til mín á ólíkan hátt á ólíkum tímabilum. Hef þó alltaf elskað Bróðir minn ljónshjarta og svo finnst mér fátt dásamlegra en að lesa bækurnar hans Ólafs Jóhanns Ólafssonar.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Horfi helst á sjónvarp með dóttur minni og þá velur hún venjulega eitthvað “romcom” eða “teen-drama” en ég er meira bara að njóta þess að vera með henni.
Te eða kaffi: Bæði – hvort um sig háð stund, stað og stemmingu.
Uppáhalds árstími: Hef alltaf verið svolítil haust manneskja, það er eitthvað við úðann og stilluna sem ég elska. En hver árstími hefur samt sinn eigin sjarma.
Besta líkamsræktin: Ég er yoga manneskja – hvort sem um ræðir kröftugt og hratt flæði eða yoga nidra slökun, og allt þar á milli. Eins tel ég heitan pott og gufu klárlega falla undir líkamsrækt!
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég tel mig ágæta í eldhúsinu og hef ótrúlega gaman að því að elda úr því sem til er hverju sinni. Annars hef ég heyrt að þegar komi að súpum sé ég alveg “með´etta”.
Við hvað ertu hrædd: Einu sinni var ég hrædd við köngulær en svo ákvað ég það gengi ekki ef maður ætlaði að búa í sveit svo ég bara hætti því, enda gera þær meira gagn en ógagn (annað en húsflugurnar).
Klukkan hvað ferðu á fætur: Á virkum dögum vakna ég venjulega um kl.6:40+ en “sef út” um helgar til kl. 8:00.
Hvað gerir þú til að slaka á: Göngutúrar með gott podcast eða hljóðbók í eyrunum er besta slökunarmeðalið. Og svo potturinn.
Hvað finnst þér vanmetið: Hattar eru alveg ótrúlega nytsamlegir og mikið höfuðprýði.
En ofmetið: Páfagaukar, nema hún Rósa mín, hún var að sjálfsögðu einstök.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Flest (góð) lög koma mér í stuð en ég á sér útbúna playlista sem eru eingöngu hugsaðir í þessum tilgangi. Ég gæti ekki lifað án tónlistar!
Besta lyktin: Lyktin af haustinu og af rúmfötum sem þorna á úti á snúru.
Bað eða sturta: Fer eftir aðstæðum!
Leiðinlegasta húsverkið: Klósettþrif.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Það má skipta um skoðun – gullkorn frá pabba sem varð einskonar opinberun!
Nátthrafn eða morgunhani: Með aldrinum hefur haninn komið sterkar fram.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ég er almennt mjög hrifgjörn og finnst sá fallegi staður sem ég er á hverju sinni oftast eiga vinningin, þangað til ég fer eitthvert annað!
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Ég hef markvisst verið að vinna í því að láta „sól og rok á sama tíma“ ekki fara í taugarnar á mér.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég er svolítið þessi „kyssa og knúsa“ týpa þegar ég hitti fólk og það hefur oft orðið að vandræðalegum mómentum.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Framan af ætlaði ég að verða arkitekt en lenti svo í þeirri krísu að finnast hræðilegt að þurfa að velja eitthvað eitt til þess að gera „það sem eftir væri“ enda hafði ég áhuga á svo mörgu. En svo sagði pabbi einmitt við mig þessa gullnu setningu: Ingunn, það má skipta um skoðun.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ég hlæ mikið og hef gaman að alls kyns aulahúmor. Afkvæmin mín þrjú eru jafnan mikil uppspretta hláturs enda miklir húmoristar þó það geti verið svolítið svart stundum.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi vilja prufa að vera Lína Langsokkur. Hún er svo dásamlega mikið hún sjálf auk þess að vera „sterkasta stelpa í heimi“.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ætli það séu ekki FB og Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ér með laaaaaangan lista…
Eitthvað sem fæstir vita um þig: ..ég er eins opin bók!
Mesta afrek í lífinu: Eins klisjulegt og það hljómar þá er það visst afrek að koma þremur börnum tiltölulega heilum og heilbrigðum út í lífið!
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Myndi fara fram í tíma, sirka 3 kynslóðir og sjá hvernig ættartréð hefur vaxið og dafnað.
Lífsmottó: Þú uppskerð eins og þú sáir.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég ætla að hætta mér í borg óttans.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinDrunurnar líklega af völdum loftsteins yfir Þingvöllum
Næsta greinForsætisráðherra ávarpaði Oddahátíð