Selfyssingurinn Gunnlaugur Bjarnason var um síðustu helgi valinn Rödd ársins í söngkeppninni Vox Domini sem fram fór í Salnum í Kópavogi. Gunnlaugur vann einnig fyrstu verðlaun í flokki framhaldsnema. Var þetta í fjórða sinn sem söngkeppnin var haldin en það er Félag íslenskra söngkennara (FÍS) sem stendur fyrir henni. Keppnin er fyrst og fremst hugsuð fyrir söngvara og nemendur í klassískum söng sem eru að stíga sín fyrstu skref á ferlinum.

Fullt nafn: Gunnlaugur Bjarnason.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég fæddist 9. nóvember, árið 1992 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Bý í Reykjavík með eiginkonu minni, Kristínu Lilju Th. Björnsdóttur, upplýsingafræðingi og saman eigum við tvo drengi, þá Kára og Bjarna og síðan bætist eitt barn við núna um mitt sumar.
Menntun: Ég er með BA-gráðu í íslensku og klassískum fræðum frá Háskóla Íslands og svo lýk ég framhaldsprófi í klassískum söng frá Menntaskóla í tónlist núna í vor.
Atvinna: Forfallakennari í Kársnesskóla í Kópavogi og sjálfstætt starfandi íslenskufræðingur.
Besta bók sem þú hefur lesið: Þær eru svo margar en Meistarinn og Margaríta eftir Búlgakov er sjálfsagt ein sú besta sem ég hef lesið.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Star Trek: Deep Space 9 og Star Trek: Next Generation.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Þegar ég var yngri þá var það Godfather-þríleikurinn en það er raunar ansi langt síðan ég horfði á hann síðast.
Te eða kaffi: Kaffi, svart.
Uppáhalds árstími: Íslenskt sumar, það er kynngimagnað.
Besta líkamsræktin: Fara reglulega í göngutúr, syngja og dansa (einn). Og leika við strákana mína.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég held að ég sé nokkuð lunkinn í kássugerð eða að gera mat sem maður myndi kalla á ensku „comfort food“.
Við hvað ertu hræddur: Í hvert sinn sem ég fæ hálsbólgu held ég að ég sé að fara að missa röddina.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Aldrei seinna en klukkan átta. Ég fæ þó stundum að sofa út til níu um helgar.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég hugleiði eða hlusta á tónlist.
Hvað finnst þér vanmetið: Ópera. Frábært listform.
En ofmetið: Ópera. Óperuáhugafólk á það til að gera of mikið úr ágæti ópera.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Largo al factotum eftir Rossini. Flestir þekkja það kannski sem Filippo Berio-lagið.
Besta lyktin: Lyktin af nýbökuðu súrdeigsbrauði sem konan mín bakar.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Skipta á rúminu.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Átta tíma svefn.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þar sem ömmur mínar og afar áttu heima í Laugarási í Biskupstungum, Lyngás og Brekkugerði. Ég á margar góðar minningar frá þessum stöðum og þeir voru, og eru, afskaplega fallegir.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Fólk sem þorir ekki að hugsa út fyrir kassann.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þau eru ansi mörg. Látum það nægja.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég held að ég hafi ætlað að verða flugmaður á einhverjum tímapunkti en ég er nú ánægður að ég hætti við það enda finnst mér fátt eins leiðinlegt og að sitja í flugvél.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Bróðir minn, Egill Bjarnason, enda var hann valinn „Húmor Vallaskóla“ árið 2004.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag, hver þá: Ég væri til í að vera Jean-Luc Picard, skipstjóri geimskipsins Enterprise.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Koma varanlega í veg fyrir vatnsskort í heiminum. Og fá mér flygil.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég þori varla að segja frá því en ég hef þýtt þrjár bækur úr Rauðu seríunni.
Mesta afrek í lífinu: Hafandi tekið viðtöl við marga Sunnlendinga vikunnar þegar ég var starfsmaður Sunnlenska fréttablaðsins þá veit ég að 90% svarenda segja „börnin mín“ við þessari spurningu. Þannig að ég segi bara það sama. Börnin mín.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Fram í tímann, til að geta verið skipstjóri Enterprise.
Lífsmottó: Lífsmottó eru fáránleg.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ég ætla að reyna að fara með sonum mínum á krakkatónleika í Hörpu en svo þarf ég að æfa mig enda margir tónleikar á næstunni, meðal annars útskriftartónleikarnir mínir þann 22. febrúar klukkan 15:00 í Safnahúsinu. Allir velkomnir!


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinSelfoss tapaði í framlengingu
Næsta greinBorgarverk bauð lægst í Þórsmerkurveg