Laufey Rún Þorsteinsdóttir var útnefnd sunddrottning Opna Íslandsmótsins í víðavatnssundi, sem haldið var í Nauthólsvík á dögunum. Laufey Rún synti þrjá kílómetra í sjónum á tímanum 50:11,13 mín. Þetta er ekki eina sundafrek Laufeyjar í sumar því í júní synti hún Viðeyjarsund, 4,6 kílómetra á 1:22,44 mín í mótvindi og 9°C sjó.

Fullt nafn: Laufey Rún Þorsteinsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 1. apríl 1992, Selfossi.
Fjölskylduhagir: Ég bý með kærastanum mínum, Brook Woodman, fjallaleiðsögumanni.
Hverra manna ertu: Pabbi minn Þorsteinn Gunnarsson og hann ólst upp á Kotströnd í Ölfusi. Hann byggði svo hús þar ásamt mömmu, við hliðina á ömmu og afa, og þar ólst ég upp á Kotströnd II. Mamma mín heitir Björg Halldórsdóttir og er frá Litla-Fljóti í Biskupstungunum.
Menntun: Ég er með stúdentspróf frá FSu og kláraði þar bæði náttúrufræði- og listnámsbraut. Ég er svo með BS próf í landfræði, ekki landAfræði, frá Háskóla Íslands. Landfræði heitir á ensku geography sem kemur úr grísku og er hægt að þýða sem „að skrifa um jörðina“. Þetta er nám sem ég myndi mæla með fyrir fólk sem er mjög forvitið um mjög margt.
Atvinna: Einfalda svarið er að ég vinn í íþróttum. Ég er framkvæmdastjóri Klifursambands Íslands en það er því miður bara hlutastarf. Til að fylla upp í það að ná að vera í fullu starfi þá starfa ég líka hjá Klifurfélagi Reykjavíkur sem rekur Klifurhúsið. Þar er ég leiðasmiður, skrúfa sem sagt upp klifurgrip á klifurveggi og skapa þannig áhugaverðar þrautir fyrir klifrara til að leysa, þjálfari og er svo mótsstjóri á flest öllum klifurmótum sem eru haldin hér á landi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Þetta er mjög erfið spurning af því að ég les frekar mikið og mjög fjölbreyttar bækur. Ég ætla samt að sleppa því að nefna uppáhaldsbækur í öllum kategoríum sem mér dettur í hug að flokka bækur í og segja allar bækur eftir Jane Austen. Hún getur verið svo ótrúlega fyndin.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: The Detectorists, ég get ekki hætt að segja fólki að horfa á þessar seríur. Þættirnir eru um tvo vini sem hafa það áhugamál að ganga um tún og leita að gulli og gersemum með málmleitartækjum. Þetta eru bestu grínþættir sem ég hef séð og eru á sama tíma oft mjög einlægir.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Hunt for the Wilderpeople kemur mér alltaf í gott skap.
Te eða kaffi: Kaffi en ekki hvaða kaffi sem er, það þarf að vera gott. Núna er ég með El Salvador frá Skool Beans í Vík í kvörninni. Ég drekk reyndar líka alveg mikið af tei og þar er myntute úr garðinum hjá mömmu í uppáhaldi.
Uppáhalds árstími: Sumarið á Íslandi. Ég er eiginlega komin á þann stað í lífinu að ég vil helst ekki fara út fyrir landsteinana á tímabilinu júní til ágúst nema ég sé virkilega tilneydd.
Besta líkamsræktin: Sund og klifur, auðvitað. Ég myndi segja að báðar þessar íþróttir séu frábær útivist sem sé fullkomið að æfa inni á veturna.
Hvaða rétt ertu best að elda: Folalda tagine með kjöti frá Gesti litla bróður.
Við hvað ertu hrædd: Fólk á stundum erfitt með að trúa þessu en ég er lofthræddur klifrari. Ég er búin að setja mikla vinnu í það að ná stjórn á henni og er bara á nokkuð góðum stað núna. Það finna reyndar langflestir klifrarar fyrir einhverri lofthræðslu á einhverjum tímapunkti af því að það er mjög rökrétt að finna fyrir hræðslu þegar þú ert kominn nokkra metra upp klett og þú veist að ef þú dettur þá er smá stund sem líður áður en línan grípur þig.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Á virkum dögum vakna ég kl. 5 til að mæta á sundæfingar í Ásvallalaug og svo allur gangur á því hvenær ég vakna um helgar.
Hvað gerir þú til að slaka á: Les bækur eða prjóna og stundum slaka ég extra mikið á með því að splæsa þessu saman og hlusta á bækur á meðan ég prjóna.
Hvað finnst þér vanmetið: Radler.
En ofmetið: Kóla-gosdrykkir.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Sabotage með Beastie Boys.
Besta lyktin: Öll gróðurlykt sem hægt er að finna í íslenska sumrinu.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Eru þau ekki öll leiðinleg?
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Hvernig borðaru heilan fíl? Einn bita í einu.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani. Ég nýt þess samt mjög að eiga rólegan morgun og taka mér langan tíma í morgunkaffi og vakna rólega ef ég er ekki að mæta á morgunæfingu.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Mér finnst Öræfin alveg æðisleg, fjöllin, jöklarnir, birkiskógarnir og Hnappavallaklettarnir.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Of heitar sundlaugar. Fyrir æfingar vil ég hafa laugina undir 28°C, ekki 28 komma eitthvað. Það hefur ekkert með það að gera að ég æfi sund aðallega til að undirbúa mig fyrir sjósund, ég hef bara alltaf verið þessarar skoðunar. Sundlaugastarfsmennirnir í Laugaskarði og Maggi þjálfari þurftu í ófá skipti að hlusta á mig tjá mínar skoðanir á hitastiginu í lauginni á mínum unglingsárum. Ef einhver þeirra les þetta þá er þetta mín afsökunarbeiðni til þeirra en ég er samt ennþá alveg sömu skoðunar.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég var að leiðsegja flúðasiglingaferð niður Hvítá og var á mjög rólegum parti í ánni þannig að ég var bara sultuslök að spjalla við ferðamennina í bátnum hjá mér. Það var nákvæmlega ekkert aksjón að fara að gerast. Allt í einu er ég bara dottin ofan í ánna með hausinn á undan mér í vatnið! Báturinn hafði aðeins rekist í stein og ég bara missti jafnvægið. Þegar ég kom upp úr gat ég auðvitað ekki hætt að hlæja og það var samblanda af því að þetta var frekar vandræðalegt, hvaða flúðaleiðsögumaður dettur bara úr eigin bát? Og á sama tíma var þetta fáránlega fyndið. Fólkinu í bátnum brá smá og eftir smá stund sá ég að ég var ekki að fara að ná að koma sjálfri mér strax upp í bátinn af því að ég hló svo mikið þannig að ég þáði það að þau drógu mig upp í bátinn. Ég fékk ágætis bjórsekt fyrir þetta atvik frá samstarfsfólkinu mínu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Flugfreyja af því að ég sá fyrir mér að ég gæti ferðast um allan heiminn í vinnunni. Svo þegar ég komst smátt og smátt að því hvað flugfreyjur og -þjónar gera í vinnunni þá fannst mér starfið ekki eins spennandi.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Bróðursynir mínir, Valgarður og Víkingur. Systir þeirra, Valkyrja, bætist örugglega í þennan hóp eftir smá.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Mér dettur enginn í hug og ég held að það sé af því að mér finnst alveg nógu magnað að vera ég sjálf með öllu sem því fylgir.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram. Þar er ég mest að fylgja íþróttafólki sem ég lít upp til, finnst ég geta lært af eða dregið smá hvatningu frá.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Meira fjármagn í íþróttir á Íslandi og þá sérstaklega þegar kemur að afreksstarfi. Svo myndi ég breyta einhverju í okkar nútíma daglega lífi í samfélaginu þannig að fólk sé aftur til í að taka meiri þátt í íþróttastarfi sem sjálfboðaliðar og dreifa þannig verkefnum og vinnu á fleiri einstaklinga því margar hendur vinna létt verk.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Þegar ég var 17 ára var ég skiptinemi í Nýja Sjálandi og tók þátt 3 km löngu sjósundi og ákvað þann dag að einn daginn myndi ég reyna að synda Ermarsundið. Það er allt í vinnslu núna.
Mesta afrek í lífinu: Að finna mér vinnu tengda einu af því sem mér finnst skemmtilegast að gera í lífinu.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Aftur í tímann og sjá risaeðlurnar.
Lífsmottó: „Luck is what happens when preparation meets opportunity“ -Seneca
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ég ætla að fara í útilegu með kærastanum mínum og mögulega öðru góðu fólki og klifra fallega kletta.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinFjölgar hlutfallslega mest í GOGG
Næsta greinÁrborg steinlá gegn KÁ